Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Guðmundur Guðmundsson
Heimili:
Óðinsgötu 8
Fæðingardagur:
05-09-1874
Staða:
Skólaskáld
Dánardagur:
19-03-1919
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
29-03-1919
Reitur:
A-6-16
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Þessi grein er kostuð af KGRP.

Nýrómantískt skáld og rithöfundur:

Guðmundur Guðmundsson skólaskáld

Guðmundur Guðmundsson var fæddur 5. september 1874 í Hrólfsskálahelli á Landi (Rang.), sonur Guðmundar bónda þar Guðmundssonar, Ólafssonar, og k.h. (18. okt. 1873) Guðrúnar, f. 24. okt. 1841, Jónsdóttur frá Þorkelsgerði í Selvogi Jónssonar. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum fátækum, en faðir hans var hagorður vel. Bar snemma á góðum gáfum og hneigð sonarins til skáldskapar. Fyrir atbeina foreldranna og góðra sveitunga fekk hann inngöngu í Reykjavíkurskóla 1890 og varð stúdent árið 1897, með 1. einkunn. Þá þegar varð hann kunnur af skáldskap sínum og fekk viðurnefnið skólaskáld, sem fylgdi honum eftir það. Cand. phil. varð hann í Reykjavík 1898. Las læknisfræði um hríð í Læknaskólanum í Rvík, en hætti námi og fekkst síðan við ritstörf, kennslu, blaðamennsku og ljóðagerð, sem var aðalævistarf hans. Var hann fyrst við störf í Rvík, eitthvað á Akureyri, en árin 1906?9 á Ísafirði, þar sem hann starfaði sem blaðamaður og bókavörður, auk nokkurrar kennslu. Það var þar sem hann kynntist konu sinni Ólínu, sem hafði göfgandi áhrif á hann og gaf innblástur í mörg ljóða hans. Kom mikill fjöldi kvæða frá penna hans á Ísafjarðarárunum, auk þess sem hann lagði þar grunninn að heilum ljóðabálkum sem hann lauk svo við síðar. Hann var búsettur í Reykjavík á ný frá 1913, vann þar við skriftir og ritstjórn.


Guðmundur var gæddur ljóðrænum hæfileikum í svo ríkum mæli, að undrum sætti hve létt honum lék að yrkja. Hann var viðkvæm sál, trúhneigður, með sterka taug til dulúðar. Því höfðuðu nýrómantík og symbólismi í bókmenntum mikið til hans (RB). Einnig varð hann fyrir áhrifum úr eldri, íslenzkri ljóðahefð, dáðist mjög að Jónasi Hallgrímssyni og hreifst af ljóðum Kristjáns Fjallaskálds og flutti um hann fyrirlestur á Ísafirði 1908. Hefur þunglyndi Kristjáns og sorgleg örlög höfðað til hins næma anda Guðmundar. En sjálfur var hann "framar öllu hinn sætróma söngfugl meðal íslenzkra skálda í samtíð sinni" (RB), og má segja, að nöfn sumra ljóðabóka hans, s.s. Strengleikar og Gígjan, hafi borið með sér þessa músíkölsku áferð ljóða hans. Hafa fá skálda okkar jafnazt á við hann í meistaratökum á fíngerðu formi og söngrænu máli. Skóp hann gjarnan hætti sína sjálfur til að hæfa hugarástandi sínu og kvæðaefni og tókst það oft aðdáanlega, t.d. í ljóðinu Vorgyðjan kemur, eins og prófessor Richard Beck hefur bent á. Annað ljóð nefnir hann, Strengjagaldur, sem einstakt dæmi um hagleik Guðmundar, töfrandi tök á ljóðrænu máli, andlega dýpt og ímyndunarflug. Mörg ástarljóðanna, með döprum undirtónum, eru meðal hans beztu ljóða, s.s. Terra Memoriæ (minningarland), Harmaslagur og einkum Dropatal. 'Norðan frá hafi' er í einfaldleika sínum áhrifaríkt ljóð í hefðbundnum anda alþýðuskálda, þar sem saman fara ástarstef og náttúrulýsing í fullkomnu samræmi, segir RB. En þrátt fyrir að hann telji þannig mörg ljóða Guðmundar afar vel gerð, þ. á m. ýmis náttúruljóð, hlaðin dulúðgri einingarkennd hans, þá telur Richard Beck skáldið hafa skort nokkuð á frumleika og kraft. Guðmundur reit mörg ættjarðar- og þjóðræknisljóð, auk lofkvæða um leiðtoga þjóðarinnar og fagurra eftirmæla, m.a. um sjómenn. Meðal trúar- og siðrænna ljóða má nefna kvæðaflokkinn Ljósaskifti, sem minntist kristnitökunnar árið 1000, og annan sem nefnist Friður á jörðu, en þar er þetta upphaf formálans:


Friðarins Guð, in hæsta hugsjón mín,
höndunum lyfti ég í bæn til þín!
Kraftarins faðir, kraftaverkið gjörðu:
Gefðu mér dýrðar þinnar sólarsýn,
sigrandi mætti gæddu ljóðin mín, ?
sendu mér kraft að syngja frið á jörðu.


Óvenjumargar ljóðabækur bárust frá hendi Guðmundar á skammri ævi, og mikið var til hans leitað sem tækifærisskálds. Naut hann og skáldastyrks frá Alþingi. Komust mörg ljóða hans á allra manna varir, sum undir þekktum lögum, m.a.:


Í fjalladal, í fjalladal
er fagurt oft á vorin, ?
er grænkar hlíð og gróa blóm
og glymur loft við svanahljóm.
Í fjalladal, í fjalladal
er fagurt oft á vorin.


Þekkt er einnig ljóðið Kirkjuhvoll, sem hann orti í minningu ýmissa sagna sem tengdust hól í túninu heima í Hrólfsstaðahelli, og hljóðar upphafið svo:


Hún amma mín það sagði mér: "Um sólarlagsbil
á sunnudögum gakk þú ei Kirkjuhvols til!
Þú mátt ei trufla aftansöng álfanna þar, ?
þeir eiga kirkju´ í hvolnum, og barn er ég var,
í hvolnum kvað við samhljómur klukknanna á kvöldin."


Hún trúði þessu´ hún amma mín, ? ég efaði´ ei það,
að allt það væri rétt, er hún sagði´ um þann stað;
ég leit því jafnan hvolsins með lotningu til ?,
ég lék mér þar ei nærri um sólarlagsbil:
ég þóttist heyra samhljóminn klukknanna á kvöldin.


Guðmundur fór ekki varhluta af þjóðrækni aldamótaáranna og hreifst þá einnig af ungmennafélagshugsjóninni. Höfðu félögin m.a. landgræðslu og skógrækt á dagskrá sinni. Þeirri hugsjón og ungmennafélögunum helgaði Guðmundur ljóð sitt Vormenn, sem hefst þannig:


Vormenn Íslands! ? Yðar bíða
eyðiflákar, heiðalönd.
Komið grænum skógi´ að skrýða
skriður berar, sendna strönd!
Huldar landsins verndarvættir
vonarglaðar stíga dans,
eins og mjúkir hrynji hættir,
heilsa börnum vorhugans.


Á síðustu æviárum sínum hafði hann áhuga á bindindismálum og guðspeki. Starfaði hann talsvert í Góðtemplarareglunni og var formaður (stórtemplar) Stórstúku Íslands 1915?17. Sat í framkvæmdanefnd Stórstúkunnar 1913?19. Hann var ritstjóri að eftirtöldum blöðum: Valurinn, 1907; Dagur, 1909?10; Stjarnan í austri, 1915?18; Fréttir, Rv. 1918. Frumsamin rit hans voru þessi: Ljóðmæli, Rv. 1900. Guðbjörg í Dal, Rv. 1902. Orgelið (dulnefni: Ásmundur víkingur). Strengleikar, Rv. 1903. Gígjan, Rv. 1906. Kristján Jónsson skáld, Ísaf. 1908. Friður á jörðu, Rv. 1911 (endurútg. 1913). Ljósaskifti, Rv. 1913. Lofsöngur við hátíðahöld G.T.-reglunnar, Rv. 1914. Ljóð og kvæði, Rv. 1917. Hann þýddi fjölda ljóða, m.a. Locksley Hall eftir Tennyson, með glæsilegum hætti, og kom safn þeirra ljóða út eftir hans dag: Erlend ljóð, 1924 (útg. Alexander Jóhannesson). Hann átti einnig talsverðan eða mestan þátt (með Valdimar Ásmundssyni) í Alþingisrímum, Rv. 1902 (endurútg. 1909 og síðar). Heildarsafn kvæða hans er Ljóðasafn I-III, Rv. 1934 (útg. Gretar Fells). Þýðingar hans voru eftirfarandi skáldrit: Níhilistinn undir fossinum, Rv. Ísaf. 1907. V. Korolenko: Blindi tónsnillingurinn. C. Garvice: Cymbelína hin fagra. V. Rydberg: Singoalla. Kr. Nyrop: Frakkland. Z. Topelius: Sögur. E.A. Westermarck: Trú og töfrar. V. Peltonen: Blómið blóðrauða, auk Erlendra ljóða.


Hann lézt í blóma lífsins, úr spænsku veikinni, þann 19. marz 1919 í Reykjavík. ? Kona hans (8. júní 1908) var Ólína, f. 10. júní 1880, Þorsteinsdóttir á Ísafirði Stefánssonar. Dætur þeirra þrjár voru Hjördís, Steingerður leikkona og Droplaug.


Jón Valur Jensson tók saman.

Heimildir:
Hver er maðurinn? I, 215.
Íslenzkar æviskrár II, 151. Þar er m.a. vísað til eftirfarandi heimilda: Sýslumannaæva, Óðins I og XII og Unga Íslands, 4. árgangs.
Richard Beck: Íslenzk ljóð, frumkvæði og þýðingar ? Icelandic Lyrics, originals and translations, Rv. 1930 (með myndum), s. 185?7 (með formálanum að ljóðinu Friður á jörðu og enskri þýðingu þess eftir Jakobinu Johnson).
Jón R. Hjálmarsson: Með þjóðskáldum við þjóðveginn. Rv. 2003, 2004, s. 199?203.
Íslenzkt ljóðasafn (ritstj. Kristján Karlsson), III, 281?293, 370, og (þýðingar) V, 192?5.
Richard Beck (=RB): History of Icelandic Poets 1800?1940, N.Y. 1950, s. 115?118. Hann gefur þar einnig upp eftirtaldar heimildir: Gretar Fells: 'Guðmundur Guðmundsson skáld', í Ganglera II (1927), 62?69; Arngrímur Fr. Bjarnason: 'Endurminningar um Guðmund Guðmundsson skáld', í Lesbók Morgunblaðsins XIX (1944), 53?56, 61?2, 72; Einar Thorlacius: 'Frá uppvaxtar- og námsárum Guðmundar Guðmundssonar skálds', í sama blaði, s. 87?88.

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10996
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is