Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Jón Þorláksson
Heimili:
Fæðingardagur:
03-03-1877
Staða:
Borgarstjóri, Forsætisráðherra
Dánardagur:
20-03-1935
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
00-03-1935
Reitur:
I-205
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Neðangreind ævidrög eru kostuð af KGRP

Landsverkfræðingur og stjórnmálaskörungur:
Jón Þorláksson
Jón Þorláksson var fæddur í Vesturhópshólum í Húnaþingi 3. marz 1877, sonur Þorláks Símonar Þorlákssonar hreppstjóra þar og k.h. Margrétar Jónsdóttur, sem bæði voru af prestum komin, en meðal barna þeirra var rithöfundurinn Björg C. Blöndal Þorláksson. Jón varð stúdent frá Lærða skólanum 1897 með 1. ágætiseinkunn, cand. phil. frá Kaupmannahafnarháskóla með 1. ág.eink. 1898 og lauk cand.polyt.-prófi í mannvirkjafræði (byggingaverkfræði) með 1. einkunn frá Verkfræðiskólanum (Polyteknisk Læreanstalt, síðar Danmarks Tekniske Højskole, DTH) í Khöfn 1903. Var áberandi í félagslífi Íslendinga á Hafnarslóðum, formaður Stúdentafélagsins þar 1899-1900. Hann starfaði á vegum landsstjórnarinnar að rannsóknum á byggingarefnum landsins og um húsagerð 1903-5 með opinberum styrk, ferðaðist erlendis til undirbúnings starfinu og athugaði m.a. möguleika á sementsverksmiðju hér á landi. Niðurstaðan úr þeim rannsóknum var, að steinsteypa væri heppilegasta byggingarefnið, og varð Jón brautryðjandi steinsteypuhúsa á Íslandi. Skipaður verkfræðingur landsins 1. febr. 1905, en fekk lausn frá því embætti 3. nóv. 1916; hafði aðallega forstöðu brúa- og vegagerða landsins, m.a. með umsjón með byggingu ísbrjóta á Lagarfljótsbrú hjá Egilsstöðum 1905, gerði uppdrætti og hafði umsjón með brúargerð á Fnjóská hjá Skógum, sem opnaði vegasambandi milli héraða, byggingu brúar á Norðurá hjá Haugum, Þverá á Lundahyl, Hrútafjarðará og Ytri-Rangá. Vann með því að stórkostlegum samgöngubótum. Hann innleiddi notkun járnbentrar steinsteypu við brúargerðir frá 1908, gekkst fyrir stofnun Landssmiðjunnar í Rvík, rannsakaði möguleika til járnbrautarlagningar frá Rvík austur að Selfossi. Gerði áætlanir og fullnaðaruppdrætti að vatnsveitu Rvíkur frá Gvendarbrunnum 1906-8, vatnsveitu Hafnarfjarðar 1906 og Akureyrar 1913 og vatnsvirkjahluta rafmagnsstöðvar Seyðisfjarðar og Húsavíkur. Meðal stórmála, sem hann helgaði krafta sína, voru undirbúningur að virkjun Sogsins og hitaveitu fyrir Rvík og efling bátaútgerðar þar. Hann rak sjálfstæða verkfræðistofu í Rvík 1917-23, gerði þá m.a. frumáætlun um virkjun Glerár og (með Guðm. Hlíðdal), vatnsveitu í Þórshöfn í Færeyjum 1919, fullnaðaruppdrætti að Flóaáveitu og hafði umsjón með byggingu hennar 1922-3, gerði uppdrætti og hafði umsjón með byggingu vatnsvirkjahluta rafmagnsstöðvarinnar við Elliðaár 1919-21 og aukningu vatnsveitu Rvíkur 1923, gerði frumáætlun um notkun hveravatns til upphitunar húsa í Rvík 1926 og frumáætlun um síldarverksmiðjur á Siglufirði 1928. Stofnaði Iðnskólann í Rvík, forstöðumaður og kennari þar 1904-11, í skólanefnd hans lengi, stundakennari 1916-17. Rak byggingavöruverslun undir eigin firmanafni 1917-23 og í félagi við frænda sinn Óskar Norðmann (J. Þorláksson & Norðmann) frá 1923. Fjármálaráðherra 22. marz 1924 til 28. ág. 1927, jafnframt forsætisráðherra 26. júní 1926 til 28. ág. 1927. Kjörinn borgarstjóri í Rvík 30. des. 1932 og gegndi því starfi til æviloka, 20. marz 1935. Banamein hans var hjartabilun. Bæjarfulltrúi í Rvík 1906-8 og 1910-22, forseti bæjarstjórnar 1920-22. Alþingismaður fyrir Rvík 1921-26 og 1933-34, landskjörinn 1926-33. Hafði hann ungur orðið fylgismaður Hannesar Hafsteins, gekk í Heimastjórnarflokkinn og varð þar áhrifamaður, stóð við hlið ráherrans í margvíslegum framkvæmdum og varð í flokki sínum sjálfkjörinn forystumaður í verklegum framkvæmdum vegna þekkingar sinnar og dugnaðar" (GTh). Einnig var hann oft í stórn félags, sem heimastjórnarmenn höfðu með sér, Fram, var þar stundum formaður, flutti þar oft fyrirlestra um áhugamál sín og boðaði framfarir af eldmóði. Eftir samþykkt Sambandslaganna 1918 gekkst Jón fyrir samruna Heimastjórnar- og Sjálfstæðisflokksins, sem síðar, í febr. 1924, hlaut nafnið Íhaldsflokkurinn, með liðsstyrk fleiri þingmanna. Formaður Íhaldsflokksins (eftir lát Jóns Magnússonar) 1926-29 og Sjálfstæðisflokksins (nýja) 1929-34. Formaður í milliþinganefnd til undirbúnings Flóaáveitu 1916-17. Í milliþinganefnd í vatnamálum (fossanefnd) 1917-20. Í utanríkismálanefnd 1928 og 1934. Kosinn í skattanefnd 1928, en lét síðar af því starfi. Í landsbankanefnd 1928-35. Í stjórn Eimskipafélags Íslands 1916-30 (ritari). Stofnandi Verkfræðingafélags Íslands og formaður þess 1912-14 og 1922-34. Kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1927. Hann var stórkrossriddari af Dannebrog, Fálkaorðunni og hvítri rós Finnlands. Alþingishátíðarmerki 1930. Skýr hugsun og orðheppni, frábær rökfesta og sannfæringarafl, einstök skipulagsgáfa, framkvæmdagleði og eljusemi voru einkenni Jóns. Hann flíkaði þó lítt tilfinningum sínum, en átti heitan, trúarlegan streng. Rit hans voru m.a.: Burðarþolfræði, 1909, auk fjölda tímarits- og blaðagreina um þjóðmál, bæjarmál Rvíkur, verkleg efni, framkvæmdamál og vísindi (sjá Verkfræðingatal, Kennaratal I, 392, og ævisögu hans), en meðal þekktra skrifa hans um stjórnmál má nefna bókina Lággengið, 1924, Stjórnmálastefnur I: Íhaldsstefnan, 1926, Milli fátæktar og bjargálna, 1929, og Þingrofið 1931. K.h. var Ingibjörg, dóttir Jean Valgard Claessens landsféhirðis. Kjörbörn þeirra voru Anna Margrét og Elín Kristín. Á 75 ára afmæli Jóns 1952 stofnaði frú Ingibjörg og kjördætur hennar minningarsjóð til styrktar verkfræðinemum við HÍ eða til framhaldsnáms við aðra háskóla; sjóðurinn er í vörzlu HÍ. Löngu síðar varð til Stofnun Jóns Þorlákssonar, sem staðið hefur að rannsóknum og bókaútgáfu.


Jón Valur Jensson ættfræðingur tíndi saman.

Heimildir:
Verkfræðingatal (1981), 298-300.
Hver er maðurinn? I, 412-13.
Íslenzkar æviskrár III, 317.
Íslenzkir Hafnarstúdentar, 269-70.
Kennaratal I, 391-2.
Þeir sem settu svip á öldina, íslenzkir stjórnmálamenn (1983, ritstj. Sigurður A. Magnússon),
bls. 53-64, eftir Gunnar Thoroddsen (í Niðjaskrá í sama riti er yfirlit um fjölskyldur kjörbarna Jóns, bls. X-XI).
Niðjatal Þorvalds Böðvarssonar prests á Holti undir Eyjafjöllum og Björns Jónssonar prests í Bólstaðarhlíð, 1913, bls. 77-78.
Helzta heimildin um Jón er þó rit Hannesar H. Gissurarsonar: Jón Þorláksson forsætisráðherra (Rv. 1991, 600 bls.)
Einnig má nefna æviþætti Jóns í Andvara, 63. árg. og Óðni, VII. árg., sjá einnig tilvísanir í fleiri rit í Íslenzkum Hafnarstúdentum, 270.

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10996
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is