Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Jón Helgason
Heimili:
Tjarnargötu 26
Fæðingardagur:
21-06-1866
Staða:
Biskup Dr Theol
Dánardagur:
19-03-1942
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
00-00-1942
Reitur:
T-512
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Þessi grein er kostuð af KGRP.


Jón Helgason biskup

Jón Helgason var fæddur í Görðum á Álftanesi 21. júní 1866, sonur Helga prests Hálfdanarsonar, síðar lektors Prestaskólans, og konu hans Þórhildar Tómasdóttur. Stóðu að honum kunnar ættir, m.a. afa hans, Fjölnismannsins fræga, Tómasar Sæmundssonar, prófasts á Breiðabólstað. Jón stundaði nám við Reykjavíkurskóla 1880-86, lauk þá prófi og sigldi samsumars til Kaupmannahafnar, þar sem hann lauk ýmsum háskólaprófum við góðan orðstír á næstu árum, síðast embættisprófi í guðfræði 1892. Hann var við kennslu í Reykjavík 1892-93, starfaði við kirkju í Danmörku 1893, lauk enn tveimur prófum frá prestaskóla í Höfn 1894 og ferðaðist svo um Þýzkaland með styrk frá stjórnarráði Dana. Þar kynntist hann þýzku Biblíugagnrýninni og ritum forkólfa frjálslyndu guðfræðinnar. Eftir fráfall föður hans var sótzt eftir því við Jón að hann kæmi að Prestaskólanum í Reykjavík sem fastur kennari, og lét hann til leiðast, þótt hann langaði að setjast að í Danmörku og taka þar prestvígslu. Honum var veitt 1. kennaraembættið við Prestaskólann þá um sumarið. Um haustið tókst hann jafnframt á hendur að halda uppi aukaguðsþjónustum við Dómkirkjuna, var vígður til prests í því skyni vorið eftir og hafði þann starfa á hendi í 13 ár. Ennfremur var hann stundakennari við M.R. 1896-1900. Jón var meðal þýðenda nýrrar útgáfu Nýja testamentisins 1906. Árið 1908 var hann skipaður forstöðumaður Prestaskólans. Hann var prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands 1911-16, forseti guðfræðideildar nokkur ár og rektor 1914-15. Settur biskup yfir Íslandi 1916, skipaður 1917 og fékk lausn frá því starfi í árslok 1938. Hafði hann þá farið vísitazíuferðir í öll prestaköll landsins og skoðað nær allar kirkjur hér á landi. Hann sinnti einnig félagsmálum, var formaður Hjúkrunarfél. Reykjavíkur í aldarfjórðung frá stofnun 1903, formaður KFUM í Reykjavík um hríð, formaður Biblíufélags Íslands 1916-38, Íslandsdeildar Dansk-ísl. félagsins frá stofnun 1919 til æviloka, 19. marz 1942, og formaður Kirkjuráðs frá upphafi 1932-1938. Þá var honum sýndur margvíslegur sómi: kjörinn heiðursdoktor í guðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn 1917, heiðursdoktor Háskóla Íslands 1936, heiðursfélagi Sögufélags, Bókmenntafélagsins, Prestafélagsins, norsku vísindaakademíunnar o.fl., ásamt mörgum heiðursmerkjum.

Jón var mjög mótandi um störf og stefnu kirkjunnar á miklum umbrotatímum 'aldamótaguðfræðinnar', var brautryðjandi í gagnrýnum Biblíufræðum, gaf út tímaritið Verði ljós 1894-1904 og var helzti talsmaður nýguðfræðinnar á Íslandi, en stóð fastur fyrir gegn spíritismanum. Eftir að hann varð biskup, hætti hann beinni þátttöku í trúmáladeilum, en var áfram afkastamikill rithöfundur, enda mikill starfsmaður og jafnan árrisull. Fékkst hann þá einkum við kirkjusögu, ævisöguritun og Reykjavíkursögu. Þá var hann laghentur málari og myndir hans frá Reykjavík merk heimild. Meðal helztu rita hans eru Uppruni Nýja testamentisins, 1904, Almenn kristnisaga I-IV, 1912-30, Grundvöllurinn er Kristur, 1915, Þegar Reykjavík var 14 vetra, 1916, Hirðisbréf, 1917, Islands Kirke I-II, Kh. 1922-25, Kristnisaga Íslands I-II, 1925-27, Íslendingar í Danmörku, 1931, Kristur vort líf, predikanir, 1932, Meistari Hálfdan, 1935, Hannes Finnsson biskup, 1936, Jón Halldórsson í Hítardal, 1939, Tómas Sæmundsson, 1941, Þeir sem settu svip á bæinn, 1941, Árbækur Reykjavíkur 1786-1936, 1941. Einnig bjó hann til prentunar rit föður síns Kristilega siðfræði, 1895, og hluta Sögu fornkirkjunnar eftir hann. Þá gegndi hann og ritstjórnarstörfum og skrifaði fjölda greina.

Kona Jóns (1894) var Martha Marie, dóttir H.H. Licht, sóknarprests á Suður-Fjóni. Börn þeirra voru Annie skrifstofukona, Hálfdan prófastur á Mosfelli, Þórhildur hjúkrunarkona, Cecilie, húsfreyja á Lindarhvoli í Borgarfirði, og Páll raffræðingur, afi Ingileifar Malmberg sjúkrahúsprests
Jón Valur Jensson ættfræðingur tók saman.

Heimildir:
HÞ: Guðfræðingatal 1707-1907, s. 164-5.
BM: Guðfræðingatal 1847-1976, s. 469.
Kennaratal I, 366.
Pétur Pétursson: Kristni á Íslandi IV, 227.
Íslenzkar æviskrár V, 396-7.
Og frá eigin brjósti (JVJ).

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10996
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is