Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Unnur Bjarklind
Heimili:
Mímisvegi 4
Fæðingardagur:
06-08-1881
Staða:
Dánardagur:
10-04-1946
Kirkjugarður:
Fossvogskirkjugarður
Jarðsetningardagur:
17-04-1946
Reitur:
B-26A-6
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Neðangreind ævidrög eru kostuð af KGRP:

Brautryðjandi í ljóðagerð og verðlaunaskáld:

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda)

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind var fædd að Auðnum í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu þann 6. ágúst 1881. Foreldrar hennar voru hjónin Benedikt Jónsson, bóndi og hreppstjóri á Auðnum, mikill félagsmálafrömuður, tónelskur og hagleiksmaður, síðar bókavörður í Húsavík (d. 1. febr. 1939, 92 ára), og Guðný Halldórsdóttir, bókhneigð kona og listfeng (d. 1936, 80 ára). Unnur átti fjórar systur, þ.á m. tvær vel skáldmæltar (sjá Þingeysk ljóð, 1940). Voru þær af merkum ættum og vel menntuðu fólki komnar. Unnur naut ung einkakennslu í foreldrahúsum við góðar aðstæður, m.a. hjá heimiliskennurum, en þar var líka Bókafélag Þingeyinga, sem Benedikt stofnsetti með Pétri á Gautlöndum og veitti forstöðu, með innlendum sem erlendum bókmenntum. Að Auðnum dvaldist hún til 22ja ára aldurs. Stórbrotin fegurð Laxárdals bjó henni æ síðan í hug og hjarta og mótaði fegurðarsmekk hennar. Árin 1903 og 1904 fór Unnur til náms til Reykjavíkur, lærði þar íslenzku hjá Benedikt Sveinssyni bókaverði, ensku hjá Magnúsi Magnússyni frá Cambridge og þýzku hjá Bjarna Jónssyni frá Vogi; lærði einnig frönsku, auk hannyrða- og hússtjórnarnáms. Giftist svo 24ra ára Sigurði Sigfússyni frá Halldórsstöðum í Reykjadal, var húsfreyja upp frá því, og tóku þau sér síðar ættarnafnið Bjarklind. Haustið 1910 fór Unnur utan og dvaldist til vors í Englandi og Danmörku, þar sem hún heimsótti söfn og rithöfunda og kynnti sér þjóðhætti og andlega strauma. 1922 ferðaðist hún um Noreg, Svíþjóð, Danmörku og England í sömu erindum. Átti hún heimili í Húsavík frá 1906, og var það mikill greiðastaður; lögðu innlendir og erlendir menntamenn og rithöfundar þangað leið sína, en Unnur var sem "sjálfkjörinn menningarfulltrúi byggðarinnar" (KKrjs.). Þar nutu einnig bágstaddir hjartahlýju og fyrirgreiðslu þeirra hjóna. Var hún stjórnsöm húsfreyja, kappsfull við verk sín og hannyrðir, meðan heilsa leyfði, og afar umhyggjusöm móðir. Seinustu árin í Húsavík var hún langtímum rúmföst, og fluttust þau suður til Reykjavíkur 1935, að Mímisvegi 4. Þar lézt hún eftir langvinnt sjúkdómsstríð þann 10. apríl 1946, á 65. æviári.

Unnur hóf ung að yrkja. Í kvæði frá seinni hluta ævinnar, sem hún nefndi 'Á Laxamýrarleiti ? Hugsað til Jóhanns Sigurjónssonar skálds', lýsir hún því, hvernig þau hvísluðu sínum fyrstu ljóðum, "sem enginn mátti heyra," út í náttúruna. Þótt hún ætti eftir að ferðast til útlanda og yrði víðlesin í sögu og bókmenntum, bar hún og ljóðlist hennar alla tíð merki þessara æskustöðva, eins og segir í sama ljóði:

Gef barni frið og fegurð ? og það dreymir
þá fyrstu sýn ? og aldrei síðan gleymir.


Annað, sem mótaði hana, var missir fyrsta barns hennar; hefur hún tengt minningu dóttur sinnar og náttúrunnar í Laxárdal á fagran hátt í ljóðum. En meðal áhrifavalda hennar, auk erlendra skálda (s.s. Dante, Dickens, Ibsens, Björnstjerne Björnssons og Selmu Lagerlöf), voru íslenzkar þjóðsögur og skáldin Eggert Ólafsson og Benedikt Gröndal yngri. Unnur varð snemma kunn sem ljóðskáld, var um tvítugt, þegar fyrstu kvæði hennar birtust á prenti, í kvennablaðinu Framsókn, Ingólfi o.fl. blöðum. Hún skrifaði undir nafninu Hulda. Flutti hún "nýjan og þýðan tón inn í íslenzka ljóðagerð, þingeyska ný-rómantík (Kr.E.A.). Þóttu ljóð hennar þvílíkur viðburður, að þrjú öndvegisskáld tóku þeim fagnandi. Einar Benediktsson orti fagurt kvæði til hennar, þar sem hún er kölluð "dalasvanninn" og "fyrsti gróður vors nýja skóla". Þorsteinn Erlingsson ritaði um hana greinina 'Hulduspegil' í Þjóðviljann 15. júní 1905 og dáðist einkum að þulunum, sem hún orti (en með þeim ruddi hún m.a. brautina fyrir Davíð Stefánsson). Þulan 'Ljáðu mér vængi' vakti aðdáun Þorsteins, meðferð á efninu, hreimur og rím væru eins og úr öðrum heimi en menn ættu að venjast, þótt við og við hafi heyrzt áþekkir ómar hjá skáldum, "en ég hafði aldrei heyrt úr þeim heimi eins innborinn og óblandaðan hljóm á ævi minni eins og þennan". Í þeirri þulu segir m.a. í 1. erindi:

"Grágæsa móðir!
ljáðu mér vængi",
svo ég geti svifið
suður yfir höf.

...

Langt í burt ég líða vil,
ljá mér samfylgd þína!
Enga vængi á ég til,
utan löngun mína,
utan þrá og æskulöngun mína.


Þorsteinn skrifaði einnig lofsamlega um fyrstu ljóðabók hennar, 1909, og Matthías Jochumsson gaf henni fögur meðmæli í ritdómi í Norðra, þar sem segir m.a.: "Er það minn dómur, að falskir tónar finnist færri í ljóðum Huldu en í kveðskap nokkurra annarra skálda hér á landi, síðan Jónas Hallgrímsson leið." Hulda átti eftir að verða afkastamikið skáld, einkum í ljóðum, en einnig í sögum og ævintýrum, þrátt fyrir miklar annir og vanheilsu, og við ævilok bar hana hæst íslenzkra skáldkvenna. Ljóðmál Huldu virðist áreynslulítið, en gjörhugul er hún á líf og hætti manna og dýra og á náttúruna, jafnan í fagurri framsetningu, gjarnan svo, að nær virðist heimi draums og töfra en raunsæi. Fegurðin er þar sannleikurinn, eins og Karl Kristjánsson bendti á, og samúðin með þeim vanmáttugu "gerir heim hennar trúarlegan ..." Þessi sami strengur sameinar andann í fyrstu bók hennar sem hinum síðustu, þótt vel megi greina vissa þróun í ljóðabókum hennar.

Hulda var þjóðrækin kona og sagði sig í sveit með Landvarnarmönnum á yngri árum. Við stofnun lýðveldis 1944 var samkeppni haldin um beztu hátíðarljóð af því tilefni. Tóku þjóðkunn skáld þátt í henni. Þar hlaut Hulda 1. verðlaun fyrir kvæðið 'Hver á sér fegra föðurland', sem jafnan síðan hefur verið eitt af kærustu ættjarðarljóðum þessarar þjóðar. "Skáldkonunni úr Laxárdal auðnaðist því að eignast vængi til þess að fljúga hæst og komast lengst íslenzkra ljóðskálda á stærstu stundinni, sem þjóðin lifði á hennar ævi, og leggja á tungu allra landsins barna varanleg kærleiksorð til ættjarðarinnar" (Karl Krjs.). Eins og fram kemur í samantekt Eiríks Páls Eiríkssonar íslenzkufræðings, verður það ekki í efa dregið, að frumlegt ljóðmál og nýstárleg stílseinkenni Huldu skópu henni verulega sérstöðu sem brautryðjanda í bókmenntasögunni:

"Skáldkonan Hulda [...] er einn helsti upphafsmaður að ljóðrænum prósa hér á landi. Hún var ákaflega málsnjöll og bragviss, endurskóp bragarhætti og bjó til nýja. Hún endurnýjaði og endurvakti þuluformið og fetuðu önnur skáld hennar slóð. Hún notaði vísanir í eldri skáldskap sem markvisst stílbragð en það er einkenni á nútímaljóðum. Hún var og óhrædd við að lýsa ástríðum sínum og varð fyrst til að lýsa í ljóðum kvenlegum kenndum á opinskáan hátt."

Rit Huldu eru þessi: Kvæði, Rvík 1909. Æskuástir I og II, Rv. 1915 og 1919. Syngi, syngi svanir mínir, Rv. 1916. Tvær sögur, Rv. 1918. Segðu mér að sunnan (kvæði), Rv. 1920. Myndir (smákaflar), Akureyri 1924 (1. og 2. prentun). Við yzta haf (kvæði), Ak. 1926. Berðu mig upp til skýja (ævintýri), Rv. 1930. Þú hlustar, Vör (ljóðaflokkur), Ak. 1933. Undir steinum (smásögur), Ak. 1936. Dalafólk I og II (sögur), Rv. 1936 og 1939. Fyrir miðja morgunsól (ellefu ævintýri), Rv. 1938. Skrýtnir náungar (smásögur), Rv. 1940. Bogga og búálfurinn, Rv. 1942. Söngur starfsins (kvæði), Rv. 1946. "Svo líða tregar", síðustu kvæði, 1951. Úr minningablöðum, 1961. Hún gaf einnig út Úrvalsljóð Jóns Thoroddsen, Rv. 1944. ? Sigurður Nordal gaf út ljóðaúrval eftir hana, undir heitinu Segðu mér að sunnan, og ritaði þar um skáldið (Menningarsjóður, 1961), og Kristján Karlsson gaf út Úr ljóðum Huldu (í bókaflokknum Gullregn, 1971). Þá kom út úrval verka hennar í bókinni Ljóð og laust mál, 1990. Hún á einnig ljóð í mörgum safnritum, t.d. drjúgan hlut, þrjú ljóð, í Hundrað beztu ljóðum á íslenzka tungu (útg. Jakob Jóh. Smári), tvö ljóð í Íslenzkum ljóðum ? Icelandic Lyrics (frumkvæði og þýðingar, ritstj. Richard Beck, Rv. 1930), fjögur ljóð í Íslenzkum ástaljóðum (útg. Árni Pálsson, 3. útg. Rv. 1943), fjögur í Íslenzkri nútímalýrikk, Rv. 1949 og (Íslensk lýrik) 1987 (útg. Kristinn E. Andrésson og Snorri Hjartarson), og þrjú ljóð í Íslenzkum ljóðum 1944?1953 (Rv. 1958). Þá á hún ekki færri en tólf ljóð í Íslenzku ljóðasafni, III. bindi (ritstj. Kristján Karlsson, 1974). Eitt ljóð athyglisvert, óbundið (eða ljóðrænn prósi), 'Væri ég morgungyðjan', á hún í bókinni Ástin í íslenskum bókmenntum (Rv. 1981). Einnig á hún mörg ljóð í bókinni Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur, Rv. 1997, bls. 79?90.

Maður hennar (20 des. 1905), Sigurður Bjarklind Sigfússon, var sölustjóri hjá Kaupfélagi Þingeyinga og síðan kaupfélagsstjóri, síðar bankagjaldkeri í Reykjavík. Börn þeirra voru: dóttir, andvana fædd, Sigríður, skrifstofustúlka hjá Alþingi, Jón viðskiptafræðingur og Benedikt lögfræðingur.

Jón Valur Jensson tók saman.

Helztu heimildir og rit, sem vísa má til:

1. Hver er maðurinn? II, 296-7.

2. Íslenzkar æviskrár, V, 510?511.

3. Æviminningabók Menningar- og minningarsjóðs kvenna, I (1955), bls. 79?87, eftir Karl Kristjánsson (þar i er alllöng lýsing Aðalbjargar, systur Unnar, á æskustöðvum þeirra). Þetta er drýgsta heimildin að baki þessarar greinar og oft vitnað óbeint til hennar.

4. Próf. Richard Beck: History of Icelandic Poets, 1800?1940 (Cornell University Press, Ithaca, New York, 1950), bls. 122?127. Þar má finna nokkra greiningu á ljóðum hennar og þróun þeirra í helztu bókunum. Hann vísar þar einnig til greinar sinnar: 'Hulda skáldkona', í Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi, XXII (1940), 29?41.

5. Kristinn E. Andrésson: Íslenzkar nútímabókmenntir 1918?1948 (1949), s. 43, 112?13, sbr. og sama höf.: Um íslenzkar bókmenntir, II, 137.

6. Íslenzkt ljóðasafn, III. bindi, ritstj. Kristján Karlsson, 1974, bls. xv, 319?331 og 371.

7. Hulda: Ljóð og laust mál : úrval. Rvík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands ? Menningarsjóður, 1990.

8. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Bókmenntafræðistofnun. 1997. Helga Kress valdi efnið og bjó til prentunar. Bókarauki: Skáldkvennatal.

9. Eiríkur Páll Eiríksson: 'Bókmenntir í byrjun aldar. Nýrómantík og nýjungar', grein á vefsíðunni: http://www2.fa.is/deildir/Islenska2/503/bms/0030.html

10. Hestaljóð eftir hana er að finna á Sögusetri íslenzka hestsins: http://www.sogusetur.is/Syningar/skald47.htm ? og víðar er hennar getið á Internetinu.

11. Þemakver Iðunnar 2: Ástin í íslenskum bókmenntum (Rv. 1981), s. 35?6.

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Fossvogskirkjugarður er löngu orðinn samgróinn borgarmyndinni með sínum beinvaxna trjágróðri og stílhreinu byggingum. En garðurinn þótti mjög óhentugur og út úr í upphafi. Fólk var vant að ganga á eftir líkfylgdinni upp í gamla garðinn við Suðurgötu og mátti ekki til þess hugsa að fara alla leið út í Fossvogsgarð með sína nánustu sem kvatt höfðu þennan heim. Jónas Jónsson ráðherra og Knud Zimsen borgarstjóri áttu hugmyndina að garðstæðinu.
Kirkjugarðurinn í Fossvogi er um 28, 2 hektarar að stærð, og er þá talið með svæðið vestast í garðinum, sem tekið var í notkun 1987. Á miðju ári 1982 var búið að nýta allt land innan marka garðsins, og var þá öll nýgreftrun færð yfir í Gufuneskirkjugarð. Með viðbótinni frá 1987 fékkst rúm fyrir 3900 grafir í viðbót. Áætlað er að um 40 þús. legstaðir verði í Fossvogskirkjugarði. Á miðju ári 1997 höfðu 26.476 grafir verið teknar í garðinum.
Fyrsti maðurinn sem grafinn var í Fossvogskirkjugarði var Gunnar Hinriksson vefari. Hann var jarðsettur 2. september 1932 og er hann því vökumaður garðsins.

Duftgarðurinn í Fossvogi var tekinn í notkun 1950 skömmu eftir vígslu Fossvogskirkju. Árið 1991 var hafist handa um viðamikla endurgerð duftgarðsins, sem nú er lokið.
Á miðju sumri 1994 hófst vinna við gerð duftreits fyrir fóstur á svæði ofan sumarbústaðarlands, sem gengur inn í kirkjugarðinn að sunnanverðu. Reiturinn var vígður 16. september 1994.

Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Mynd úr garðinum [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
33992
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is