Ágæti lesandi! Líkbrennsla hefur færst í vöxt á síðustu árum og er nú svo komið að rúmlega 40% útfara á höfuðborgarsvæðinu eru bálfarir. Ekkert er þó til fyrirstöðu að þeir sem búsettir eru úti á landi óski eftir þessari þjónustu og hefur Kirkjugarðasamband Íslands og Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma (KGRP) samvinnu um að auðvelda öllum Íslendingum að láta brenna sig, án tillits til búsetu og hvar duftkerið verður jarðsett. Duftker eru að jafnaði grafin í sérstakan duftgarð sem er í tengslum við kirkjugarð en einnig er algengt að dufkerin sé grafin ofan á kistugrafir með leyfi umsjónarmanns leiðis. Sjá 2. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.
Sjá upplýsingabækling um bálfarir. |
Fólk á öllum aldri ákveður að fylla út viljayfirlýsingu án þess að hafa áhyggjur af dauðastundinni. Hér þarf fyrirhyggju eins og annars staðar og sú fyrirhyggja er skynsamleg. Margir, sem ákveða að fylla út viljayfirlýsingu, eru ungir eða á besta aldri, þeir vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og að enginn vafi sé á því hver sé þeirra vilji í þessum efnum. |
Ef þú ert sjálfráða, þ.e.a.s. orðin(n) 18 ára (sjá lög nr.71/1997) og hefur ákveðið að láta brenna þig að lífi loknu, getur þú afgreitt málið með því að fylla út eyðublaðið hér að neðan. Þú verður að tilgreina tvo votta, sem eru 18 ára eða eldri, og heimilisföng þeirra. Þú og þeir sem votta viljayfirlýsinguna fá síðan staðfestingarbréf frá skrifstofu Kirkjugarðanna og er það sent til að ganga úr skugga um að yfirlýsingin sé komin frá þér og allt sé með felldu. Viljayfirlýsingin verður síðan geymd í tölvu KGRP. Ef viljayfirlýsing um bálför liggur ekki fyrir, þegar andlát ber að höndum og fullvíst er að það hafi verið vilji hins látna að um bálför yrði að ræða, þurfa nánustu ástvinir að láta viðkomandi prest eða útfararstjóra vita um það. Í slíkum tilfellum á alls ekki að fylla út beiðni hér á netinu.
|