Prenta síðu á Gardur.is



Einstaklingurinn:
Nafn:
Stefanía Guðmundsdóttir
Heimili:
Laufásvegi 5
Fæðingardagur:
29-06-1876
Staða:
Leikkona
Dánardagur:
16-01-1926
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
09-02-1926
Reitur:
E-6-6
Annað:

Ítarefni. Þessi grein er kostuð af KGRP.

"Drottning leiksviðsins á Íslandi":

Stefanía Guðmundsdóttir leikkona

Stefanía Anna Guðmundsdóttir var fædd í Reykjavík 29. júní 1876, dóttir Guðmundar Jónssonar frá Elliðavatni, trésmiðs í Reykjavík og frá 1878 á Seyðisfirði (d. 1926 í Mountain, N-Dakóta), og k.h. Önnu Stefánsdóttur frá Viðvík (d. 1882). Voru foreldrarnir af kunnum ættum presta og bænda. Stefanía ólst fyrst upp með foreldrum sínum, en um tíma í fóstri hjá frændfólki sínu, svo aftur hjá föður sínum á Seyðisfirði, unz hann fluttist til Vesturheims 1887 með son sinn. Stefanía varð eftir vegna mislingasóttar, og varð ekkert úr ráðagerðum um að hún fylgdi í kjölfar föður síns. Ólst hún síðan upp með frænku sinni Sólveigu Guðlaugsdóttur á Seyðisfirði og sótti þar barnaskóla. Þær fluttust til Reykjavíkur 1889 og settust að í Tjarnargötu 4, húsi Steingríms Thorsteinssonar, skálds og rektors; hélt Sólveig þar uppi veitingasölu fyrir kostgangara, en einnig í Góðtemplarahúsinu. Stefanía lauk barnaskólamenntun sinni í Reykjavík, þar sem nú stendur Pósthúsið í miðbænum, og einnig námi í Kvennaskólanum. Hún mun hafa liðsinnt fósturmóður sinni við rekstur greiðasölunnar. Frá 1896 tóku við húsmóðurstörfin og uppeldi sjö barna, sem henni fæddust á næstu árum (eitt þeirra dó í frumbernsku). Leiklistin, sem átti eftir að afla henni frægðar, var jafnan viðbót við hennar daglegu störf. Þó voru störfin í leikhúsinu henni aldrei neitt tómstundagaman, heldur setti hún listina ofar öllu, eins og sannur atvinnumaður væri.


Snemma árs 1889, í Pakkhúsinu á Seyðisfirði, hafði Stefanía í fyrsta sinn séð leikrit á sviði. Var það Hrekkjabrögð Scapins, gamanleikur eftir Molières í þýðingu Matthíasar Jochumssonar. Kann það að hafa kveikt í henni leiklistaráhugann, a.m.k. minntist hún þess oft seinna. Hún lék sitt fyrsta hlutverk 16 ára að aldri í Reykjavík 30. jan. 1893, Hortenzu í leikritinu Betzy, sem sýnt var í Góðtemplarahúsinu, og vakti þá þegar eftirtekt, m.a. kvað Klemens Jónsson síðar landritari svo að orði, að hún hafi þá sýnt, "að hún var leikkona af Guðs náð". Enn betur vann hún þó hugi og hjörtu Reykvíkinga síðar á þeim sama vetri í þriðja hlutverki sínu, sem vinnustúlkan Georgette í leikþættinum Frúin sefur eftir Frits Holst. Helgaði hún eftir það leiklistinni allar tómstundir sínar. Hún dvaldist vetrarlangt í Kaupmannahöfn 1904?5 til þess að kynna sér leiklist, bæði á æfingum og sýningum og fekk kennslu í framsögn hjá Jerndorff leikara. Má segja, að það hafi verið fyrsta viðleitni Íslendings til að nálgast vissa menntun í þessari grein. ("Það er þó ekki fyrr en Haraldur Björnsson og Anna Borg ljúka leikaranámi við skóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn árið 1927 að Íslendingar eignast fyrstu menntuðu leikarana," J.Við.Js.) Sumarið 1914 fór hún aftur utan og sótti tíma í danslist hjá Walbom ballettstjóra og námskeið í nýtízkudönsum og danskennslu. Heimkomin setti hún upp dansskóla í Iðnó, hin fyrsta hér á landi. Hún bauð einnig upp á gamanvísnasöng, og orti Þorsteinn Gíslason skáld flestar vísurnar fyrir hana. Einnig var hún eftirsóttur upplesari á fundum og samkomum.


Um Stefaníu er sagt, að með henni hafi hafizt nýtt tímabil í íslenzkri leiklist. Var hún meðal helztu stofnenda Leikfélags Reykjavíkur 11. janúar 1897, starfaði með því frá upphafi, var í raun kjarninn í hópnum og lék þar fjölda vandasamra hlutverka, mörg af fágætri snilld. Nokkur hlutverk lék hún að auki annars staðar, m.a. í Iðnó, á 20. öld; fyrir stofnun Leikfélagsins hafði hún leikið a.m.k. 22 hlutverk í jafnmörgum leikritum. Ásamt Árna Eiríkssyni, Jens Waage og Guðrúnu Indriðadóttur "mótaði [hún] og fylgdi eftir mjög metnaðarfullri stefnu í verkefnavali [L.R.] og gerði í raun engu minni kröfur til sín en atvinnuleikarar nútímans" (J.Við.Js.). Einar H. Kvaran hældi henni snemma fyrir leikhæfileika ? taldi hana "að öllum líkindum [taka] fram öllum íslenzkum stúlkum, sem nokkurn tíma hafa sýnt sig á leiksviði." Hann átti síðar eftir að minnast hennar með enn eindregnari hætti:


"Ég sá hana fyrst í gamansömu hlutverki. Og nú er fljótt yfir sögu að fara. Ég gleymdi allri gagnrýni. Ég hlustaði og horfði hugfanginn. Þegar fyrsta kvöldið, sem ég sá hana leika, var ég ekki í neinum vafa um það, að hér var á ferðinni hæfileiki, sem skipa mátti með því bezta í veröldinni, ef hann fengi að njóta sín að fullu. Gamanið varð létt hjá henni eins og gleðin í barnssálunum. [...] Mér fannst öll þessi fegurð og allur þessi léttleikur og öll þessi listræna gleði og allur þessi yndisleikur vera eins og einhver ný opinberun, sem verið væri að veita yfir þann litla og að öllu leyti fátæklega bæ, sem Reykjavík var þá. Eða eins og einn af mestu gáfumönnum þjóðar vorrar, Þorsteinn skáld Erlingsson, orðaði það: Hér var um nýtt landnám að tefla. "Leiklistin á Íslandi er landnám Stefaníu," segir hann í bundnu máli og óbundnu. Og það er hverju orði sannara. Við höfum eignazt góða leikendur síðan. Það er mjög fjarri mér að draga úr því. En hún var fyrsta landnámskonan. Hún var morgunroðinn. Hún var vorið."


Hinn frægi, danski leikari Poul Reumert, tengdasonur Stefaníu, skrifaði endurminningar sínar. Þar er mynd af henni glæsibúinni og hún kölluð "Islands største skuespillerinde." Fleiri fögrum orðum fer hann um þá aðdáun og ást sem menn báru til hennar, jafnvel þeir sem aðeins sáu hana einu sinni á leiksviði, og vitnar m.a. í þessi dæmigerðu ummæli: "Já, hún var guðdómleg, hún frú Stefanía."


25 ára leikafmælis hennar 1918 var hátíðlega minnzt í Reykjavík. Leikfélag Íslendinga í Winnipeg bauð henni vestur um haf, og fór hún þangað með þremur börnum sínum í september 1920, dvaldist þar árlangt og lék í Winnipeg og víða í byggðum Íslendinga í Bandaríkjunum og Kanada við góðan orðstír. Hitti hún þá m.a. föður sinn eftir 33ja ára aðskilnað. Alls lék hún í sjö mismunandi leikritum í fjölda leiksýninga í Vesturheimi frá 26. okt. 1920 til 18. ágúst 1921 og lagði þar í raun harðar að sér en heilsa hennar þoldi. Í leikdómi í blaðinu Wynyard Advance, sem var birtur í þýðingu í Morgunblaðinu eftir heimkomu hennar, sagði svo:


"Frú Stefanía er blátt áfram aðdáanleg. Það er ekki að ástæðulausu að hún hefir hlotið nafnið "drottning leiksviðsins" á Íslandi, því að beztu leikkonur annarra þjóða mega gæta sín á samanburði við hana. Ég hefi séð frægar leikkonur, bæði á sviðinu og kvikmyndatjaldinu, en engin ber af henni, nema hvað snertir nafnfrægðina. Ef forsjónin hefði gefið henni betra starfssvið, mundi nafn frú Stefaníu vera á hvers manns vörum í hinum menntaða heimi."


Stefanía átti hlutverk í einni kvikmynd, Sögu Borgarættarinnar (Nordisk Filmkompagni, 1919), þar sem hún lék Kötu gömlu. Var myndin sýnd um 50 sinnum í Reykjavík fyrri hluta árs 1922. Þá mun hún einnig hafa verið með vísi að skólahaldi með tilsögn í undirstöðuatriðum framsagnar og sviðsframkomu nálægt 1920. Fengu nokkrir, sem síðar urðu þekktir leikarar, sína fyrstu tilsögn í þeim leiklistartímum. Hún gegndi formennsku í L.R. einn vetur og hafði þá forgöngu um aukið tónlistarhald og ballettsýningu. Heimsóknir hennar til Akureyrar um miðjan annan áratuginn urðu ennfremur bein kveikja að stofnun Leikfélags Akureyrar, og þar að auki var það hún sem blés lífi í Leikfélag Reykjavíkur þegar það var að lognast út af í byrjun 3. áratugarins. Stefanía og maður hennar voru bindindisfólk; starfaði hún mikið og lengi í Góðtemplarareglunni, þar sem eiginmaður hennar var lengi stórritari Stórstúkunnar.


Á efri árum varð hún alvarlega veik, hafði leikið sitt síðasta hlutverk, Dagnýju í Víkingunum á Hálogalandi, leikárið 1922?23, en sjúkdómur hennar ágerðist svo, að sumarið 1925 hélt hún til lækninga á Ljóslækningastofnun Niels Finsen í Kaupmannahöfn. Var hún skorin upp eftir áramótin og lézt fjórum dögum síðar úr lífhimnubólgu, langt fyrir aldur fram, á 50. aldursári, þann 16. janúar 1926 í Kaupmannahöfn. Var lík hennar flutt heim með "Íslandi", sama skipi og hún hafði komið með um sumarið. Fór útför hennar fram með mikilli viðhöfn í Dómkirkjunni 9. febrúar að viðstöddu fjölmenni, og urðu margir frá að hverfa. Var hennar víða minnzt að verðleikum og af miklum söknuði. Æviminning hennar kom út sama ár (Frú Stefanía Guðmundsdóttir leikkona, 26 s. með myndum), en vegleg ævisaga hennar árið 1997 (sjá heimildaskrá). Stúkan Einingin í Reykjavík stofnaði sjóð að upphæð 1200 kr. til minningar um hana. Annar sjóður var stofnaður af Önnu Borg og Poul Reumert 1938 "í minningu um frú Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu" til eflingar leikmennt á Íslandi. Áhrif þessa brautryðjanda í leiklistinni verða seint metin til fulls. Allt frá upphafi til hins síðasta var leikferill hennar nánast óslitinn frægðarferill, og skáld eins og Þorsteinn Erlingsson, Guðmundur skólaskáld og Þorsteinn Gíslason mærðu hana í ljóðum. Káinn orti þessa vísu í vesturför hennar:


Þú komst til að leika, ég kom til að sjá,
sú kvöldstund mér gleymist ei fljótt,
því listin og snilldin þín lýsti mér þá
eins og leiftur um koldimma nótt.


Þegar Sigurður Grímsson, lögfræðingur og skáld, sem um langt árabil skrifaði leiklistargagnrýni, minntist hennar í 'Gömlum leikhúsminningum' í Lesbók Morgunblaðsins 1962, sagði hann m.a.: "Frú Stefanía bjó tvímælalaust yfir ríkari eðlisgáfu til leiklistar en ég veit dæmi til um nokkurn annan íslenzkan leikara. [...] Hún var fríð sýnum, hafði laglega söngrödd, þýðan málróm og mjúkar og fallegar hreyfingar. En mest var þó um það vert, að hún hafði fágaðan listasmekk, ríkar tilfinningar og næman skilning á hlutverkum sínum og bar þá virðingu fyrir leiklistinni, að hún lagði sig alla fram, í hvaða hlutverkum sem hún lék." Leikur hennar í hlutverki Steinunnar, ástmeyjar Lofts í Galdra-Lofti Jóhanns Sigurjónssonar, sem L.R. frumsýndi á annan dag jóla 1914, var Sigurði minnisstæðast af öllu, sem hann hafði augum litið á íslenzku leiksviði um ævina, þar hafi hún leikið á "alla strengi mannlegra tilfinninga á þann hátt, sem snillingum einum er fært."
Eiginmaður Stefaníu (24. okt. 1896) var Borgþór Jósefsson (1860?1934), verzlunarmaður og síðar bæjargjaldkeri í Reykjavík, lengi gjaldkeri L.R. Börn þeirra voru: Emilía Borg píanókennari, leikkona í hjáverkum, ógift; Ágúst, dó 3ja mánaða; Þóra Borg leikkona, rak snyrtistofu í Reykjavík, gift Gunnari Einarssyni, Óskar Borg (tók fyrstur upp ættarnafnið Borg), lögfræðingur og framkvæmdastjóri, kvæntur Elísabetu Flygenring; Anna Borg, alkunn og rómuð leikkona við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn, gift Poul Reumert, einum fremsta leikara Dana (hún ritaði endurminningar sínar, sem út komu 1965); Áslaug Borg ljósmyndari, ógift, var lengst í Kaupmannahöfn; Geir Borg, hagfræðingur og framkvæmdastjóri í Kol og salt h/f, fyrr kvæntur Guðrúnu Ragnars, en síðan Bergljótu Wathne.


Jón Valur Jensson tók saman.


Heimildir:

Jón Viðar Jónsson, fil.dr.: Leyndarmál frú Stefaníu ? Stefanía Guðmundsdóttir leikkona, samtíð og samferðamenn. Reykjavík: Mál og menning 1997, 440 bls. + lxiv myndasíður; í bókarlok eru skrár um hlutverk hennar, leiksýningar og leikferðir, einnig ættskrár (í samantekt Jóns Vals Jenss.) sem sýna ættstofna og afkomendur Stefaníu og frændsemi hennar við þekkt fólk.
Jón Viðar Jónsson hafði áður skrifað doktorsritgerð, sem út kom á sænsku (þótt ekki sé notuð hér sem heimild): Geniet och vägvisaren : om den isländska skådespelerskan Stefanía Guðmundsdóttir (1876-1926) och författaren och regissören Einar H. Kvaran (1859-1938). Stockholm: Teatervetenskapliga institutionen, 1996, 322 bls. með myndum.
Hver er maðurinn? II, 243; Íslenzkar æviskrár IV, 343.
www.gegnir.is
Björg Einarsdóttir: 'Leiklistin var landnám hennar ? Stefanía Guðmundsdóttir', í bókinni Úr ævi og starfi íslenskra kvenna, I (1984), s. 370?93.
Poul Reumert: Masker og Mennesker. Anden gennemsete og forøgede udgave. Gyldendal 1959, s. 167 og myndasíða við s. 161.
Um menntun Stefaníu Guðmundsdóttur er fjallað á vefsíðunni http://www.me.is/ERLSAM/Comenius03/stefania/ (höfundar ekki getið; þar eru tvær góðar myndir af henni).
Á vefsíðunni http://umm.is/UMMIS/Listamenn/Listaverkstakt/1928 er málverk Ragnars Páls Einarssonar af Stefaníu (1989 ? nánari uppl. á vefsíðu http://umm.is/UMMIS/Listamenn/Myndverk/1928 ).
Jón Viðar Jónsson: 'Valur Gíslason', á http://www.leikminjasafn.is/merkisda/vglistam.html

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10998
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is