Prenta síðu á Gardur.is



Einstaklingurinn:
Nafn:
Ingibjörg H Bjarnason
Heimili:
Fæðingardagur:
14-12-1868
Staða:
Forst Kvennask Rvk
Dánardagur:
30-10-1941
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
00-00-1941
Reitur:
R-412
Annað:

Ítarefni. Þessi grein er kostuð af KGRP.

Kvennaskólastjóri, fyrst kvenna alþingismaður:
Ingibjörg H. Bjarnason

Ingibjörg Hákonardóttir Bjarnason var fædd á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1867, dóttir Hákonar Bjarnasonar (f. 11. sept. 1828, d. 2. apríl 1877, varð úti eftir skipsstrand á Mýrdalssandi), kaupmanns þar og á Bíldudal, og k.h. Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur (f. 16. des. 1834, d. 11. jan. 1896), sem bæði voru af prestum komin. Börn þeirra hjóna voru 12 talsins, en sjö dóu í æsku. Hin fimm urðu þjóðkunn og tóku upp ættarnafnið Bjarnason. Voru albræður Ingibjargar dr. Ágúst H. Bjarnason, prófessor í heimspeki, Lárus hæstaréttardómari og alþm., Brynjólfur kaupmaður og Þorleifur yfirkennari. Ingibjörg ólst upp frá eins til 12 ára aldurs á Bíldudal, en 1880 fluttist móðir hennar til Reykjavíkur til að koma börnunum til mennta. Ingibjörg gekk á næsta ári í Kvennaskólann í Rvík og lauk þaðan prófi 1882. Var hún síðan við nám árin 1882?84 í kvenlegum listum ásamt dönsku, ensku og teiknun hjá Þóru, dóttur Péturs biskups Péturssonar. Eftir það hélt hún til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn 1884?5, en varð að hverfa heim vegna veikinda móður sinnar. Fór aftur á sömu slóðir 1886 til náms í ýmsum greinum, þ.á m. leikfiminám og lauk prófi í þeirri grein við Institut Paul Petersen; mun hafa verið fyrst íslenzkra kvenna til að ljúka prófi í þeirri grein. Dvaldist hún í Khöfn við nám og störf til 1893, en móðir hennar hélt þar heimili fyrir börn sín sem voru þar við nám. Enn síðar dvaldist Ingibjörg erlendis 1901?3 og kynnti sér skólahald, einkum í Þýzkalandi og Sviss.


Hún fluttist heim 1893, var við kennslustörf í Rvík til 1901, kenndi m.a. leikfimi við Barnaskólann, en í Kvennaskólanum kenndi hún á árunum 1893?1901 svo fjölbreyttar greinar sem leikfimi, bróderí, útsaum, léreftasaum, hvítbróderí, teiknun, dans, heilsufræði og dönsku. Þá tóku við tvö utanferðarár, unz hún var aftur kennari við Kvennaskólann 1903?6, á síðustu árum Þóru Melsteð sem forstöðukonu (sjá æviþátt hennar, undir Thora Melsteð). Hún var ráðin sem forstöðukona skólans 1906 og gegndi því starfi til æviloka. "Forstöðukvennaskiptin urðu slétt og felld, þrátt fyrir kynslóðaskiptin. Frú Þóra vildi, að frk. Ingibjörg tæki við, enda mun hún af flestum hafa verið talin nær sjálfkjörin til starfsins og ekki verið því mótfallin sjálf" (AE). Lýsti Þóra Ingibjörgu þannig í riti um skólann 1874?1906: "Mér er kunnugt um þrek hennar, þekkingu og dugnað, hún hefur kennt bæði við kvennaskólann og víðar og áunnið sér almanna lof." Setti hún fljótt mark sitt á skólann, m.a. með ýtarlegri skólaskýrslum og nýbreytni í náminu, en um leið var nauðsynlegt að afla frekari fjárveitinga frá Alþingi til reksturs skólans, og var skólinn settur í nýju húsnæði, sem var reyndar í eigu Steingríms Guðmundssonar trésmiðs, við Fríkirkjuveg þann 6. okt. 1909. Var hann nú ekki einungis einn fjölmennasti skólinn, heldur einnig "fjölmennasta heimili í Reykjavík" vegna heimavistarinnar, og krafðist allt þetta sem og naumur fjárhagur ýtrustu skipulagningar af Ingibjörgu (AE). Þá var tekin upp kennsla í þýzku, enskukennsla aukin, hjúkrunarkennsla hafin fyrir allar námsmeyjar og sumt í verklegu kennslunni og trúfræði fellt niður, meðfram í sparnaðarskyni; skólareglur voru einnig gerðar ýtarlegri. Árið 1925 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um að ríkisstjórnin tæki að sér Kvennaskólann. Voru Jón Magnússon forsætisráðherra og Ingibjörg, sem þá sat á þingi, bæði meðmælt frumvarpinu, en það það mætti harðri mótspyrnu, einkum Jónasar frá Hriflu, og var það fellt eftir þriðju umræðu á jöfnum atkvæðum. Má lesa um þetta o.fl. í sögu skólans í ritinu Kvennaskólinn í Reykjavík 1874?1974. En vorið 1930 keypti skólinn húsið á Fríkirkjuvegi með stuðningi Alþingis og Reykjavíkurborgar. Ingibjörg var stöðuglynd og sýndi reglufestu í skólahaldinu, bar umhyggju fyrir námsmeyjunum, var til fyrirmyndar um starfshætti bæði skólans og heimavistarinnar og hafði forgöngu um að kennsla var tekin upp í svo þörfum greinum sem hjúkrun í heimahúsum, meðferð ungbarna og hjálp í viðlögum. Hún fór í margar utanlandsferðir í skólastjóratíð sinni til að kynna sér hið markverðasta í skóla- og uppeldismálum. Hún var fyrsti og eini heiðursfélagi Nemendasambands skólans, sem stofnað var 1937, og sást á því, hvern hug og virðingu eldri nemendur báru til hennar.


Ingibjörg var umbóta-, kvenréttinda- og félagsmálakona. Hún tók á yngri árum mikinn þátt í starfsemi Thorvaldsensfélagsins og sat í stjórn þess; var hún valin til að halda ræðu fyrir minni félagsins á 25 ára afmæli þess. Þá starfaði hún mikið í Lestrarfélagi kvenna í Reykjavík og Hinu íslenzka kvenfélagi. Hún átti mestan þátt í stofnun Hins íslenzka heimilisiðnaðarfélags 1913, sem formaður nefndar um undirbúning og lagasetningu þess félags (aðrir í nefndinni voru Matthías Þórðarson þjóðminjavörður og Jón Þórarinsson fræðslumálastjóri).


Íslenzkar konur fengu kosningarétt til Alþingis með lögum, sem undirrituð voru af konungi þann 19. júní 1915, og hefur sá dagur síðan verið hátíðardagur kvenna. Það skilyrði var þó sett, að þær skyldu vera orðnar fertugar að aldri, en því var breytt 1920 í kjölfar Sambandslaganna, og hefur síðan ríkt jafnrétti kynjanna að þessu leyti. Kosningarétti kvenna var fagnað á miklum fjöldafundi þann 7. júlí 1915 eftir hátíðargöngu um miðbæ Reykjavíkur, en hornaflokkur lék undir íslenzk lög. Fór fundurinn fram á fánum skreyttum Austurvelli, og gekk sendinefnd fimm kvenna inn í þinghúsið og færði sameinuðu þingi fagurt, skrautritað ávarp frá íslenzkum konum. Hafði Ingibjörg orð fyrir þeim og gerði það með virðuleik og skörungsskap (hinar nefndarkonurnar voru Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Elín Stephensen, Kristín Jacobson og Þórunn Jónassen). Forseti Sameinaðs Alþingis þakkaði með stuttri ræðu, sem og ráðherra, Einar Arnórsson, og voru konur hylltar af þingheimi með þreföldu húrrahrópi. Á Austurvelli söng kvennakór kvæði ort í tilefni dagsins, lesið var upp skeyti til Kristjáns konungs X og drottningar frá kvennafundinum og ávarpið til Alþingis, en síðan fluttu Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Ingibjörg H. Bjarnason ræður. Var samkoman "ein sú fjölmennasta sem sést hafði hér á landi, ef ekki sú fjölmennasta ? og aldrei höfðu áður sést svo margar og jafn-prúðbúnar konur. Þá var þetta í fyrsta sinn sem íslenzki fáninn ... var hafður uppi á fjölmennri útisamkomu sem viðurkenndur sérfáni Íslands," en konungur hafði undirritað frumvarp þess efnis þann hinn sama 19. júní.


Konur vildu nú minnast þessarar miklu réttarbótar á einhvern hátt, sem verða mætti þjóðinni allri til heilla. Þær ákváðu að beita sér fyrir byggingu landspítala. "Með því væri réttarbót þessari reistur verðugur minnisvarði" (SBT). Það var Ingibjörg sem hafði forgöngu um söfnun fjár til stofnunar sjúkrahússins; var hún formaður landspítalasjóðsnefndar frá stofnun sjóðsins 19. júní 1915 til æviloka. Vann hún að því með oddi og egg að koma byggingu spítalans í framkvæmd. Þá var hún einnig formaður Minningargjafasjóðs landspítala Íslands frá upphafi hans til æviloka, en fé hans var lagt til framfærslu fátækum sjúklingum. Þakkaði Guðmundur Hannesson prófessor íslenzkum konum heiðurinn af því, að spítalinn tók til starfa, þær söfnuðu með margra ára erfiði 300.000 kr., sem reið baggamuninn.


Árið 1922 var Ingibjörg fyrst kvenna kjörin til setu á Alþingi, fulltrúi hins ópólitíska kvennalista eða C-listans, sem boðinn var fram á vegum hluta kvennahreyfingarinnar. Var hún landskjörinn alþingismaður 1922?30 og skipaði sér sæti í Íhaldsflokknum, síðar Sjálfstæðisflokknum. Helztu hugsjónamálin voru landspítalamálið, bætt fátækralöggjöf og eftirlit með umkomulausum börnum og gamalmennum, en hún beitti sér einnig fyrir öðrum þjóðþrifamálum, m.a. þeim sem vörðuðu réttarbætur kvenna, menntamál og listir. "Hún leit ekki á sig fyrst og fremst sem málsvara kvenna í landinu, heldur þingmann allrar þjóðarinnar" (SBT). Hún var 2. varaforseti Efri deildar Alþingis 1925?27. "Hún flutti merkt frumvarp um skipun opinberra nefnda árið 1927. Í því fólst áskorun til ríkisstjórnarinnar um að konur fengju sæti í nefndum sem skipaðar væru á vegum þingsins og vörðuðu almenning. Hún sagði að konur hefðu beðið eftir því að vera kallaðar til samvinnu um fleira en það eitt að kjósa í þau 12 ár sem þær hefðu haft kosningarétt, en án árangurs. Þessi tillaga hennar náði ekki fram að ganga á þingi" (Heimastjorn.is). Sagnfræðingur, sem lítur til baka, lýsir ástandinu þannig: "Þegar Ingibjörg H. Bjarnason var kjörin á þing árið 1922 voru flestir þeirra karla sem stutt höfðu kvenréttindin horfnir á braut, enda voru róttækustu tillögur hennar felldar, jafnvel umræðulaust. Það þurfti ekki að ræða svona kvenréttindaraus. ?Hér er fullkomið jafnrétti milli karla og kvenna og hefur lengi verið," skrifaði Morgunblaðið árið 1926. Tímar bakslags og andstöðu gengu í garð, og þeir tímar stóðu fram yfir 1960" (Kristín Ástgeirsdóttir, í erindi um íslenzka karla og réttindabaráttu kvenna). ? Ingibjörg átti sæti í landsbankanefnd 1928?32 og menntamálaráði 1928?34, einnig í fjárveitinganefnd efri deildar og lengst af í menntamálanefnd. Sama ár og hún lét af þingstörfum var önnur sjálfstæðiskona kjörin til þingsetu, en það var Guðrún Lárusdóttir rithöfundur (sjá æviágrip hennar). Ingibjörg gegndi þó áfram störfum sem skólastjóri Kvennaskólans allan þennan tíma og til æviloka, en hún lézt þann 30. október 1941, á 74. aldursári. Hafði hún verið afburðakennari, ströng, en full umhyggju, réttlát í skiptum við starfsfólk og nemendur skólans og skildi aðeins eftir bjartar minningar. Við skólastjórn Kvennaskólans, eftir fráfall hennar, tók Ragnheiður Jónsdóttir, sem þar hafði kennt áratugum saman og verið sem hægri hönd hennar.


Ingibjörg var kona aðsópsmikil og verður jafnan talin í fremstu röð kvenna sem gáfu sig að þjóðmálum, eftir að konum var veittur kosningaréttur 1915. Hún var fríð kona og virðuleg og hélt þeim einkennum fram á elliár. Hún var ein af þeim konum, er settu svip á bæinn (SBT). Á efri árum sínum gaf hún stóran sjóð, 15.000 krónur, til að styrkja framhaldsnám námsmeyja skólans erlendis. Og í erfðaskrá sinni afleiddi hún skólann að eignum sínum að undanskildu því, sem hún ánafnaði ættingjum og vinum. "Náði því umhyggja frk. Ingibjargar H. Bjarnason fyrir Kvennaskólanum í Reykjavík út yfir gröf og dauða" (SBT). ? Ingibjörg var ógift og barnlaus.


Jón Valur Jensson tók saman.


Helztu heimildir:


Kennaratal I, 304.
Íslenzkar æviskrár V, 379 (IHB), 358?9 (Hákon Bjarnason).
Sigríður Briem Thorsteinsson: 'Ingibjörg H. Bjarnason' (= SBT), í ritinu Kvennaskólinn í Reykjavik 1874?1974 (Rv. 1974), s. 207?224 (með mynd, einnig mynd af henni ásamt Þóru Melsteð og Ásthildi Thorsteinsson, s. 221). Þá er víðar fjallað um Ingibjörgu í því 335 blaðsíðna riti, einkum í löngum kafla Aðalsteins Eiríkssonar (AE), 'Saga skólans', bls. 154 o.áfr.
http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=263
http://www.kvennanet.is/sjalfstaediskonur_a_althingi/
http://kona.bok.hi.is/Kosningarettur/Konur%20fagna.htm ? byggt á Kvennablaðinu 16. júlí 1915.
http://heimastjorn.is/myndbond/nr/110
Kristín Ástgeirsdóttir: 'Íslenskir karlar og réttindabarátta kvenna' (erindi flutt 2004): http://www.feministinn.is/kveikjur/
Einnig ber hér að vísa til æviþáttar Ingibjargar eftir Björgu Einarsdóttur: 'Einingartákn íslenskra kvenna. Ingibjörg H. Bjarnason (1868-1941)' í riti hennar Úr ævi og starfi íslenskra kvenna II, Rv. 1986.

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10996
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is