Áhrifamikill stjórnmálamaður:
Jónas frá Hriflu
Jónas Jónsson var fæddur 1. maí 1885 í Hriflu í Bárðardal (Ljósavatnshreppi,
S-Þing.), sonur Jóns bónda þar Kristjánssonar og k.h. Rannveigar Jónsdóttur.
Hann lauk gagnfræðanámi á Akureyri 1905. Kennari við unglingaskólann á
Ljósavatni 1905?6. Dvaldist 1905?9 erlendis við framhaldsnám, í lýðháskólanum í
Askov á Jótlandi 1906?7, í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn 1907?8. Naut styrks
úr landssjóði til að kynna sér skólamál í Þýzkalandi og Englandi 1908?9, var þá
í Berlín, Oxford (eitt misseri á Ruskin College), í Lundúnum og París. Var
kennari í Kennaraskólanum frá 1909, skipaður þar aukakennari 9. okt. 1911 og
fekk lausn frá því starfi 26. sept. 1918. Skólastjóri Samvinnuskólans frá
stofnun haustið 1918 til 1927 og aftur 1932?55. Landskjörinn alþingismaður
1922?33. Alþingismaður Suður-Þingeyinga 1933?49. Dóms- og kirkjumálaráðherra 28.
ág. 1927?20. apríl 1931 og aftur 20. ág. 1931?28. maí 1932, en falið að gegna
embættinu áfram til myndunar nýs ráðuneytis 3. júní s.á. Kosinn 1925 í
milliþinganefnd um bankamál, sat í dönsk-íslenzku ráðgjafarnefndinni 1926?39, í
Alþingishátíðarnefnd 1926?30, í
Þingvallanefnd 1928?46,
milliþingaforseti Efri deildar 1932 og 1933.
Sat í Menntamálaráði 1934?46 og í Orðunefnd 1935?44. Tók sæti í bankaráði
Landsbankans 1927 og 1936. Í skipulagsnefnd atvinnumála 1934. Í bæjarstjórn
Reykjavíkur 1938?42. Í skipulagsnefnd bygginga við Lækjargötu 1943. Forseti Hins
ísl. þjóðvinafélags 1940?41. Formaður Framsóknarflokksins 1934?44.
Jónas lézt í Reykjavík að kveldi hins 19. júlí 1968 og hafði óumdeilanlega verið
einn megináhrifavaldur í stjórnmálum okkar á 20. öld, enda sagður (af Halldóri
Laxness) sterkasti persónuleiki síns tíma hérlendis. Hann var vel menntaður og
lesinn, gæddur miklu starfsþreki og framkvæmdavilja, var "stór í öllu", vinum
sínum ljúfur og tryggur, en andstæðingum oft óvæginn og langrækinn (ÞÞ). Hann
var hneigður til lista og einkum bókmennta, hafði óviðjafnanlega samtalsgáfu,
ofurgnótt hugmynda og segulafl sem heillaði bæði jábræður hans og andstæðinga,
eins og Halldór Kiljan Laxness lýsti honum, en hann kvað búa "eitthvert
óútreiknanlegt snilldareðli djúpt í manninum." Um leið var hann umdeildur öðrum
fremur, var m.a. harðlega gagnrýndur af Halldóri síðar. En "meðan áhrif Jónasar
voru mest, mátti það teljast til undantekninga að hitta mann, sem gat rætt um
hann ástríðu- og hitalaust" (Skúli á Ljótunnarstöðum). Tilþrifamestur var hann
allra, sem gegnt hafa embætti kennslumálaráðherra. Veitti hann Gagnfræðaskólanum
á Akureyri réttindi til að útskrifa stúdenta 22. okt. 1927, og var það upphaf
Menntaskólans á Akureyri. Lét ennfremur setja lög um byggingu fyrir Háskóla
Íslands og fekk Reykjavíkurborg til að tryggja henni landrými. Hann var
brautryðjandi um stofnun heimavistarbarnaskóla og héraðsskóla, hafði forgöngu um
byggingu sundhallar í Reykjavík, Þjóðleikhúss og Arnarhváls, lét setja lög um
Menningarsjóð og Menntamálaráð og tryggði þeim fjárráð til listaverkakaupa,
rannsókna og námsstyrkja. Hann studdi mjög stofnun ríkisútvarps og byggingu
Hallgrímskirkju og að Gutenberg yrði ríkisprentsmiðja. Hann hafði forgöngu um
friðun Þingvalla og ruddi brautina fyrir Byggingar- og landnámssjóð. Sem
dómsmálaráðherra var hann og athafnasamur, lét t.d. endurskipuleggja lögreglumál
í Reykjavík og skipa þar lögreglustjóra (Hermann Jónasson, sem átti svo eftir að
taka við forystu í flokki hans) og stórefldi Landhelgisgæzluna, m.a. með smíði
nýs varðskips. Þó mættu ýmsar stjórnarathafnir hans andstöðu, m.a.
embættisveitingar, þar sem oft var gengið fram hjá eldri og reyndari mönnum til
að skipa þá, sem Jónas taldi hæfari í ábyrgðarstörf, en aðrir töldu fylgismenn
hans. Hann gat verið óvæginn í málflutningi og þótti einráður og ráðríkur,
jafnvel í eigin flokki, þrátt fyrir að hann ætti manna auðveldast með að kynnast
fólki, enda var hann í virku sambandi við geysilegan fjölda manna víða um land.
Sjálfur varð hann fyrir árásum frá pólitískum andstæðingum og gat þá orðið
harðskeyttari en flokksmönnum hans líkaði, enda tók hann ekki vel gagnrýni
þeirra og átti það til að vera skapbráður. Aðalhríðin gegn Jónasi var gerð 1930.
Gengu læknar þar fram fyrir skjöldu, í miðri deilu þeirra við Jónas um veitingu
læknisembætta. Reyndu þeir að lýsa hann geðveikan og fá hann með því móti til að
draga sig í hlé, en hann svaraði með frægri grein í Tímanum, 'Stóra bomban', sem
skrifuð var af mikilli snilld og þó hófsemd, og "gat ekki hvarfað að nokkrum
manni, að þar héldi "brjálaður" maður á penna. Fekk Jónas samúð almennings og
styrktist í sessi" (JFÁ), eins og í ljós kom, er hann vann mikinn sigur í
landskjörinu 1930. Þremur árum síðar klofnaði Framsóknarflokkurinn, en staða
Jónasar var áfram sterk, en ekki lengi úr því. Þótt hann næði formannssætinu
1934, fekk hann ekki sæti í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks, sem
mynduð var eftir kosningar það ár, og olli því andstaða Alþýðuflokksins og
vissra manna í hans eigin flokki. Þegar hann lét í ljós hug á því að verða
forsætisráðherra eftir kosningarnar 1937, var þingflokkurinn því andvígur. Olli
því m.a. andstaða hans við kommúnista og þreifingar hans eftir samstarfi við
Sjálfstæðisflokkinn. Það var þó hann, sem átti meiri þátt í því en nokkur annar,
að Þjóðstjórnin var mynduð 1939, og sýndi hann þar samningahæfni sína. En
óbilgjarn þótti hann, er hann árið 1942 opnaði málverkasýningu í Alþingishúsinu
og í búðarglugga í Austurstræti til háðungar nokkrum helztu
framúrstefnu-listmálurum landsins. Tókst honum þá að sameina gegn sér
frjálslynda menn og kommúnista, og skrifuðu 66 listamenn og rithöfundar undir
ákæruskjal til Alþingis gegn honum sem formanni Menntamálaráðs. Til fulls
ósættis kom milli Jónasar og annarra forystumanna Framsóknarflokksins, sem
felldu hann úr stóli flokksformanns 1944, en hann hélt ódeigur uppi ádeilu á þá
í skrifum á næstu árum. Eftir heimsstyrjöldina var hann mikill málsvari varins
lands og aukinnar samvinnu við Bandaríkin, oft með harðri gagnrýni á sósíalista
og Sovétríkin, en lét af þingmennsku 1949 og var eftir það virkari á ritvelli en
í stjórnmálum. Jónas var maður heilsuhraustur, stundaði sund og hestamennsku,
gönguferðir og ferðaðist mikið.
Á ritferli Jónasar markaði árið 1909 tímamót. "Hann birti þá ritdóm í blaðinu
Ingólfi, sem vakti feiknarmikla athygli" (ÞÞ) og varð til þess, að honum var
boðin ritstjórn málgagns ungmennafélaganna, Skinfaxa. Áhrifamesta grein hans þar
birtist 1911 og nefndist: "Eru fátæklingar réttlausir?" Hafði hann sannfærzt um,
að samtök verkamanna væru forystulítil og þyrftu á leiðsögn að halda til að bæta
kjör þeirra. Fekk hann leyfi til að sækja fundi í Dagsbrún, flutti þar allmörg
erindi, hvatti verkamenn til stéttvísi og átaka og átti mikinn þátt í því, að
þeir buðu fram til bæjarstjórnar og Alþingis í Reykjavik 1916, þar sem þeir náðu
góðum árangri. Hann lagði á ráðin um stofnun og fyrsta verkfall Hásetafélagsins,
1916, sem lauk með sigri þess, og var kosinn annar fulltrúi þess á stofnþing
Alþýðusambands Íslands 1916. Þar fekk hann það hlutverk að semja uppkast að
lögum þess, studdist þá við enska fyrirmynd, og varð það því bæði
verkalýðssamband og flokkur, en Alþýðuflokkurinn var önnur greinin á meiði þess.
Hann átti einnig hugmyndina að Framsóknarflokknum sem frjálslyndum miðflokki,
sem aðallega styddist við bændur og tvær félagsmálahreyfingar, samvinnumanna og
ungmennafélaganna. Óháður bændalisti til landskjörs 1916 varð undanfari
stofnunar Framsóknarflokksins sem þingflokks í des. 1916; átti Jónas stóran þátt
í stefnuskránni, sem flokkurinn setti sér, og vali Sigurðar á Yztafelli í
ráðherrastól 1917. Þá varð Jónas mestur ráðamaður Tímans í aldarfjórðung og
einna ritfimastur íslenzkra blaðamanna sem rituðu um stjórnmál, en skrifaði
einnig um bókmenntir og listir, auk markverðra afmælisgreina og snjallra
eftirmæla, þ.á m. um helztu andstæðinga hans eins og Jón Þorláksson. Hann varði
einnig samvinnuhreyfinguna, en það var hann, sem átti hugmyndirnar að heildsölu
kaupfélaganna og Samvinnuskólanum. Við þann skóla var hann dáður kennari, einkum
í félagsfræði, og urðu margir nemendur öflugir stuðningsmenn hans.
Ritstörf Jónasar voru mikil og víðfeðm, og eru þessi helzt: Íslandssaga handa
börnum I?II, Rvík 1915?16, 2. útg. 1920?21, 3. útg. 1924 og 1927, 4. útg. 1928.
Dýrafræði I?II, Rv. 1922?24, 2. útg. 1928 og III. hefti 1926. Komandi ár I-V,
1923. Samvinna og kommúnismi, Rv. 1933. Þróun og bylting, svar til Einars
Olgeirssonar, Rv. 1933. Merkir samtíðarmenn (Komandi ár V), Rv. 1938. Vordagar,
1939 (Komandi ár III). Fegurð lífsins (Komandi ár IV), Rv. 1940. Verður
þjóðveldið endurreist? Rv. 1941. Rauðar stjörnur, Rv. 1943. Íslenzkir
samvinnumenn, Rv. 1943. Snorrahátíðin 1947?48, 1950. Varnarlaust land, Rv.
1948?9. Landhelgisgæzla og strandferðir, 1950. Nýtt og gamalt (Komandi ár I),
1952. Þjóðleikhúsið, 1953. Nýir vegir, 1955. Saga Íslendinga, VIII. bindi, Rv.
1955. Einar Benediktsson, ljóð hans og líf, Rv. 1955. Austrið eða vestrið, Ak.
1956. Má kirkjan lifa? Rv. 1956. Albert Guðmundsson, 1957. Íslenzk bygging,
brautryðjendastarf Guðjóns Samúelssonar (texti og ritstjórn með Ben. Gröndal),
Rv. 1957. Bylting á Íslandi, Rv. 1958. Vínland hið góða (Komandi ár VI), Ak.
1958. Aldamótamenn, þættir úr hetjusögu, I?III, Ak. 1959?62. Óttalegur
leyndardómur. Hvers vegna eru Reykvíkingar svona góðir? Rv. 1962. Aldir og
augnablik, 1964. Dásvefn og vaka (Komandi ár VII), Rv. 1968. Samferðamenn,
minningarþættir, Ak. 1970. Einnig ýmis sérprent, t.d. Ísland og Borgundarhólmur,
Rv. 1946 (úr Ófeigi), og Þróun og saga, Rv. 1954 (úr Landvörn). Ritaði mikinn
fjölda greina í blaðið Tímann frá stofnun þess 1917 til fyrra hluta árs 1943 og
síðan í Dag, einnig mjög mikið í Samvinnuna, Tímarit ísl. samvinnufélaga,
Mánudagsblaðið o.fl. rit. "Líklega hefur enginn Íslendingur skrifað eins margar
greinar og hann" (Br.Tob.). Hann var ritstjóri Skinfaxa 1911?17, Tímarits ísl.
samvinnufélaga 1917?26, Samvinnunnar frá stofnun 1926?7 og 1931?46, Ófeigs,
tímarits um þjóðmál, 1944?56 og Landvarnar, I. árg. (6 tbl.), Rv. 1946, og
(ásamt Helga Lárussyni) I.?VII. árg., Rv. 1948?53. Hann gaf ennfremur út þessi
rit: Nýju skólaljóðin, Ak. 1924, Úrvalsljóð Einars Benediktssonar (Íslenzk
úrvalsljóð, 7), Rv. 1940, Ljóð og sögur eftir Jónas Hallgrímsson, Rv. 1941,
Hjálmar Jónsson frá Bólu. Ljóðmæli (Íslenzk úrvalsrit), 1942 og Ljóðmæli
Matthíasar Jochumssonar (Íslenzk úrvalsrit), 1945.
Kona Jónasar (8. apr. 1912) var Guðrún, f. 5. okt. 1885, d. 15. jan. 1963,
glæsileg, stórbrotin kona, sem stóð jafnan sterk við hlið manns síns,
Stefánsdóttir bónda á Granastöðum í Kaldakinn Sigurðssonar og k.h. Steinunnar
Jónsdóttur. Þau áttu tvær dætur, Auði kennara og Gerði húsmóður.
Jón Valur Jensson ættfræðingur tók saman.
Helztu
heimildir:
Brynleifur Tobíasson: Hver er maðurinn?
II (1944), bls. 7.
Ólafur Þ. Kristjánsson: Kennaratal
I (1958), 401?2, og IV (1987), 289.
Íslenzkir
samtíðarmenn II (1965), 428?9.
Alþingismannatal 1845?1975 (1978),
254?5. Þar er einnig ýtarleg skrá um heimildir um Jónas og ritskrá hans heldur
fyllri en hér er rakin.
Þórarinn Þórarinsson ritstjóri: 'Jónas Jónsson', í
Þeir settu svip á öldina ? íslenzkir stjórnmálamenn, ritstj. Sig. A.
Magnússon, Rv. 1983, bls. 87?101 (einnig ágrip af niðjatali hans eftir Guðjón
Friðriksson, s. xi-xii). Eftir þeirri skilmerkilegu grein er tekið hér ágrip
upplýsinga um frumkvöðulsstarf Jónasar í verkalýðsmálum, stofnun ASÍ og
Framsóknarflokksins, ýmislegt um stjórnmálastörf hans, mannlýsingar o.fl.
Ýtarlegra heimildarrit er Jónas Jónsson frá
Hriflu. Ævi hans og störf, Rv. 1965, Jónas Kristjánsson
(handritasérfræðingur, bróðursonur Jónasar frá Hriflu) annaðist útgáfuna, Rv.
1965. Þar er m.a. Ritaskrá Jónasar Jónssonar, bls. 149?212.
Indriði G. Þorsteinsson:
Samtöl við Jónas,
1977.
Yngri og ýtarlegri ævisaga hans er eftir Guðjón
Friðriksson sagnfræðing:
Saga Jónasar frá Hriflu,
I?III, Rv. 1991?3 (nöfn einstakra binda:
Með sverðið í annarri hendi og
plóginn í hinni. Dómsmálaráðherrann. Ljónið öskrar).
Á vefslóð Alþingis er æviskrá Jónasar:
http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=351 (en þar er lítið um rit hans).
Einnig er smávegis tekið hér upp úr tveimur ritum: Hannes Hólmsteinn
Gissurarson: Kiljan, 1932?1948,
ævisaga Halldórs Kiljans Laxness, Rv. 2004, s. 389?92 o.v., og Jakob F.
Ásgeirsson (ritstj.): 20. öldin, brot úr
sögu þjóðar, Rv. 2000, bls. 86.
|