Prenta síðu á Gardur.is


Upplýsingar:
Nafn:
Salóme Kristjánsdóttir
Mynd:
Mynd vantar
Heimili:
Sveinsstöðum
Staða:
Staður:
Fæðingardagur:
10-03-1891
Kirkjugarður: Dagverðarneskirkjugarður Dánardagur: 29-07-1973
Reitur:
38
Jarðsetningardagur:
Annað:
Aldur: 82 ára


Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort

Söguágrip:

 

Einar G. Pétursson

Fáeinar athugasemdir um legstaðaskrá í Dagverðarnesi

 

Um jörðina.

Um Dagverðarnes er til örnefnalýsing nokkuð nákvæm eftir  Andrés Grímólfsson.[1] Einnig er nokkuð um Dagverðarnes í Sýslu og sóknalýsingum hins íslenska bókmenntafélags 1839–1855.[2]

            Seint á 17. öld bjó Eggert Björnsson á Skarði á Skarðsströnd, en um hann segir svo í Sýslumannaæfum:

Hann átti allar jarðir á Skarðsströnd og víðar, en Arnarbæli, sem þá heyrði til Skarðsströnd, fèkk hann eigi keypt; skyldi hann þá hafa átt að segja, er hann reið þar nærri: »Opt vekur þú mig, Arnarbæli.«[3]

Arnarbæli er næsta jörð við Dagverðarnes og eru í Þjóðskjalasafni mikið þras um landamerki milli þeirra jarða og eru sýnishorn af því prentuð í skýringum við sóknlýsingarnar, sem vísað var til hér að framan. Líklegt er Skarðverjar hafi þar verið að reyna að ásælast eitthvað af Arnarbæli.

 

Um kirkjuna og kirkjugarðinn

Í máldaga Skarðskirkju sem tímasettur er 1327, eru taldir upp bæir í sókninni þar sem bænhús voru og einnig talað um, að syngja skuli til kirkju í Dagverðarnesi.[4] Í þessum orðum felst, að kirkjan þar er hærra sett en bænhúsin.

Þegar kirkjan í Dagverðarnesi varð 50 ára sumarið 1984 var gefinn út platti með teikningu af kirkjunni eftir Lísbet Sveinsdóttur. Áletrun aftan á honum eftir undirritaðan er svohljóðandi:

Frá því um miðja 13. öld eru heimildir um hálfkirkju í Dagverðarnesi og ítök hennar. Kirkjunni var þjónað frá Skarði og voru bænhús á Ballará, Melum, Kvenhóli, Purkey, Hrappsey og Fremri-Langey. Kirkja var helguð Magnúsi Erlingssyni jarli í Orkneyjum (d. 1117). Hún verður fyrst sóknarkirkja með konungsbréfi frá 9. júní 1758, og vísiteraði Finnur Jónsson biskup hana 6. sept. sama ár. Þá áttu þangað sókn Purkey, Hrappsey, Arney, Fremri-Langey og Langeyjarnes, en sóknin komst ekki í núverandi horf fyrr en eftir að kirkjan í Búðardal var lögð niður með konungsbréfi 14. sept. 1849. Núverandi kirkja í Dagverðarnesi var vígð 22. júlí 1934 og kostaði kr. 4.777,26.

Bæirnir fyrir sunnan Klofning: Ormsstaðir, Stakkaberg, Kvenhóll og Hnúkur áttu áfram sókn að Skarði, sem er miklu lengri kirkjuvegur, og breyttist þetta ekki fyrr en eftir að kirkjan í Búðardal á Skarðsströnd var lögð niður með konungsbréfi 14. sept. 1849.[5] Friðrik Eggerz segir frá atburðum þegar kirkjan var lögð niður í Búðardal,[6] en þá lögðust fyrrnefndir bæir til Dagverðarnessóknar og að auki Melar og Ballará. Þetta sýnir vald stórbýlanna; kirkjan á Skarði og Skarðverjar máttu ekki missa tekjur svo að augljóst er að kirkjan í Dagverðarnesi hefur verið sett á stofn fyrir eyjamenn einkum, en ekki fyrir þá sem á landi bjuggu. Af þessu er ljóst, að Dagverðarnes á sér mjög stutta sögu sem sóknarkirkja og rakti Loftur Guttormsson engin dæmi um að sóknarkirkjur hefðu verið settar á stofn á 18. öld, en skömmu síðar voru mörg bænhús lögð niður.[7]

            Í áletruninni á plattanum stendur, að frá því um miðja 13. séu til heimildir um hálfkirkju í Dagverðarnesi og ítök hennar.[8] Talið var að hér væri nefndur Sturla Þórðarson, lögmaður og sagnaritari (d. 1284), en leidd hafa verið rök að því, að heldur hafi verið átt við alnafna hans, Sturlu Þórðarson sýslumann á Staðarfelli, sem dó á fyrri hluta 16.aldar.[9]

            Eins og áður sagði var hálfkirkjan í Dagverðarnesi var helguð Magnúsi Orkneyjajarli, en dýrkun hans var útbreitt í kringum Breiðafjörð og frá Skarði á Skarðsströnd er varðveitt mynd af honum á altarisklæði.[10]

            Af þessu sést, að kirkjugarður í Dagverðarnes er yngri en víðast annars staðar. Jarðvegur í garðinum er mjög grunnur og minnist ég þess að skömmu fyrir 1970 gróf ég hnédjúpa holu fyrir innyfli úr skepnum og sagði Guðmundur Ólafsson, sem síðar getur, að vart væru þær dýpri sumar grafirnar í kirkjugarðinum í Dagverðarnesi. Sýnir þetta hve grunnur jarðvegur er í kirkjugarðinum.

 

 

athugasemdir við legstaðaskrá

Áður en farið verður yfir legstaðaskrána er rétt að benda á, að þar er margt af fólki utan sóknar. Fyrst er þar að nefna, hve margir eru úr eyjunum: Fagurey, Rifgirðingum og Bíldsey. Þeir bæir tilheyrðu Snæfellsnesprófastdæmi. Engri vitneskju get ég bætt við um fólk þaðan, því að þar hef ég engar bækur til stuðnings. Ástæðan fyrir því að þetta fólk var jarðsett í Dagverðarnesi hefur eflaust verið sú, að auðveldara hefur verið að koma líkum þangað sjóleiðis heldur en að Bjarnarhöfn, Helgafelli eða Narfeyri. Einnig má nefna að kirkjugarður var líka í Stykkishólmi, en hann var lengi á stað, sem kallast í Maðkavík. Þar kaus fína fólkið í Stykkishólmi ekki að liggja grafið. Aftur á móti er meginheimild mín fyrir fyllri upplýsingum um fólk úr Dalasýslu bókin Dalamenn eftir Jón Guðnason, sem kom út 1961. Fólk úr öðrum sóknum er jarðað í Dagverðarnesi: Kjarlaksstaðir, Ytra-Fell og Víghólsstaðir eru í Staðarfellssókn. Búðardalur á Skarðsströnd var í Skarðssókn, en þess fólks er getið í Dalamönnum.

1) Fyrstur í legstaðaskránni er Benedikt Gabríel Jónsson (f. 26. 1. 1827, d. 9. 5. 1881). Frá honum segir m. a. í “Baukajónsætt” sem svo hefur verið kölluð í háði.[11] Benedikt fargaði sér á Ormsstöðum þar sem hann var til heimilis, en af því að hann stóð ekki fyrir búi er hans ekki getið í riti Jóns Guðnasonar, Dalamönnum, sem er eins og áður sagði meginheimildin um viðbæturnar og oft verður vitnað til hér á eftir. Umræður voru um það hvort Benedikt hefði verið grafinn innan garðs eða utan. Birtist grein um það eftir undirritaðan í Breiðfirðingi 1995 og var þar niðurstaðan að hann hlyti að hafa verið grafinn innan garðs.[12] Um það leyti sem hann dó kom tilskipun um að svo ætti að fara með menn, sem höfðu fargað sér. Það var svo fast í fólki, að þeir sem förguðu sér skyldu jarðaðir utan garðs, að sú sögn komst á kreik, að hann hlyti að hafa verið grafinn utan garðs. Benedikt Gabríel var langafi Sveins Einarssonar leikstjóra og skrifaði hann grein í sama árgang Breiðfirðings um langafa sinn og nefndi hana “Kirkjugarðar sögunnar.” Einnig eru í sama hefti birt bréf, sem Benedikt skrifaði dóttur sinni, Benediktu Gabríelu Kristjönu, ömmu Sveins, en bréfin eru varðveitt í fórum hans.

2–3) Þessi hjón, Hákon Oddsson og Kristín Jónsdóttir, voru frá Kjarlaksstöðum, sem eru í Staðarfellssókn. Maðurinn hét ekki Hallur (f. 22. apr. (skv. Dalamönnum, en ekki maí) 1824, d. 28. júní 1904), heldur Hákon Oddsson, sbr. Dalamenn, II, s. 184. Af dauða Hákonar er meir sagt í Breiðfirðingi 2004.[13]

8) Samkvæmt Íslendingabók var Guðfinna Lilja fædd 21. júní 1890, en samkvæmt Dalamönnum, II, s. 248, d. 2. okt. 1936. Jón Jóhann Ólafsson maður hennar er í sömu heimild sagður fæddur 10. nóv. 1889, en dó að því er segir í Íslendingabók 12. des. 1967. Er Jón með seinustu mönnum, sem jarðsettur var í Dagverðarnesi.

9) Hér hljóta að vera Skúli (Sigurður) Sívertsen í Hrappsey (f. 22. nóv. 1835, d. 29. des. 1912). Hlíf, en ekki Hlín, Jónsdóttir kona hans d. 25. febr. 1895, sbr. Dalamenn, II, s. 229. Sennilega hafa orðið hér línubrengl, þegar í legstaðaskránni stendur, að Skúli hafi dáið 25.5. 1895.

10) Lárus M. Johnsen (f. 28. sept. 1819, d. 12. jan. 1859), en af honum segir í Dalamönnum, II, s. 213. Hann er eldri en svo að hann sé í Guðfræðingatali, en er getið í Íslenzkum æviskrám, III, s. 388–89. Kona hans Katrín, dóttir Þorvaldar Sivertsens í Hrappsey, giftist síðar Jóni Árnasyni þjóðsagnaritara.

11) Magnús Einarsson var bóndi í Dagverðarnesi og samkvæmt Dalamönnum, II, s. 213, fæddur 7. jan. 1817, en ekki 6. jan. 1816; samkvæmt sömu heimild dó hann 17. júlí 1884 en ekki 7. júlí. Mikið af bréfum frá Magnúsi er í bréfasafni Jóns Árnasonar í Árnastofnun, en þau bréf voru áður í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn.

12–13) Hér eru hjónin Þorvaldur, ekki Þorvarður, Sivertsen og Kristín Skúladóttir Sívertsen frá Skarði á Skarðsströnd, en Þorvaldur var kenndur við Hrappsey. Í Dalamönnum, II, s. 228–29, er hann sagður f. 29. mars 1798, d. 30. apríl 1863. Kona hans Kristín er samkvæmt Dalamönnum, II, s. 229, d. 1. júlí 1851 en ekki 1852 eins og stendur í Íslendingabók.

Um Þorvald þyrfti afkomendur hans að rita meir en gert hefur verið til þessa, en hann var fyrsti þingmaður Dalamanna. Við jarðarförina hélt séra Friðrik Eggerz líkræðu, sem sögð var “oratorisk, originel og dæmonisk”. Hún er prentuð og hennar er líka getið í riti Steingríms J. Þorsteinssonar.[14]

14) Jóhannes Þórðarson (f. 1. jan. 1833, d. 4. mars 1888), sbr. Dalamenn, II, s. 203. Hann var langafi þess sem þetta skrifar. Um steininn yfir honum sagði fyrrnefndur Guðmundur Ólafsson, föðurbróðir minn, í bréfi til mín 10. des. 1962, að hann væri úr Harastaðaklifi, sem er milli Ytrafells og Harastaða. Þetta “er hella sem hefur legið flöt á leiðinu og skoðaði ég hana sumarið 1961 og var þá enginn stafur skemmdur og letrið er upphleypt. Steinninn er smíðaður af Sigurði Gíslasyni á Harastöðum.” Sigurður Gíslason var bóndi á Harastöðum á Fellsströnd (f. 2. jan. 1851, d. 24. jan. 1936). Líklegt að steinar með svipuðu lagi í kirkjugarðinum í Dagverðarnesi séu höggnir af honum.

17–19) Elís Jón Jónsson (f. 31. ágúst 1869, d. 9. jan. 1922) og Þórð Jónsson (f.  má lesa Dalamenn, II, s. 269–270. Um barnið, sem dó þriggja ára get ég ekkert sagt.

20) Elín Þórðardóttir (f. 24. mars 1867, d. 8. jan. 1952) var eiginkona Elísar Jóns Jónssonar og er hennar getið með manni sínum á sama stað í Dalamenn, II.

21) Ólafur Björnsson á Melum (f. 30. mars 1873, d. í ágúst 1904), sbr. Dalamenn, II, s. 262, en í legstaðaskrá stendur: (f. 3. apríl 1873, d. 5. júlí 1904).

22) Björn Hallgrímur Ólafsson frá Melum (f. 18. nóv. 1903, d. 7. ágúst 1921), sbr. Dalamenn, II, s. 262. Hann var sonur Ólafs í nr. 21.

23) Helga Jóhanna Guðmundsdóttir (f. 3. júní 1884, d. 5. júní 1951. Helga var dóttir Guðmundar Jónssonar í nr. 24, en hún var lengst af á Skarði á Skarðsströnd, sbr. Dalamenn, II, s. 310.

24) Guðmundur Jónsson (f. 11. maí 1852, d. 3. júní 1929), sbr. Dalamenn, II, s. 224. Guðmundur var faðir Helgu í 23 og Jónínu í 25.

25) Jónína Margrét Guðmundsdóttir, en samkvæmt Íslendingabók var hún (f. 21. september 1873, d. 8. apríl 1925). Svo kemur hér spurningin, er hér lík undir. Hér verð ég að segja undarlega sögu, sem ég sel ekki dýrari en ég keypti. Þegar litið er í Dalamenn, II, s. 262–63, er þar nefndur Guðmundur Benedikt Björnsson (f. 21. des. 1875, d. 9. sept. 1924). Sagt var að Guðmundur hefði farið í sjóinn og drukknað, en hann fannst aldrei. Eins og alltaf er þegar menn finnast ekki komast ýmsar sögur á kreik. Sögur voru um, að hann hefði flúið úr landi til Noregs, en fyrir því eru engar sönnur. Ekki er sagan búin, en eins og sést deyr konan veturinn eftir, og það heyrði ég að jarðarförin hefði verið sett á svið, en konan hefði líka farið úr landi. Ég heyrði að séra Ásgeir Ásgeirsson hefði aldrei fengið neitt dánarvottorð fyrir jarðarförina. Aðrir sögðu mér, að Ásgeir hefði haft einhver orð fyrir jarðarförina, sem hefðu átt að geta bent til þess, að hann hefði ekki talið sig vera að jarða lík, “hola niður þessu járnarusli.” Eitthvað hefur Guðfinna Ragnarsdóttir hugsað um málið, og mætti því spyrja hana.

26) Björnfríður Ólafía Valgeirsdóttir Ytrafelli (f. 22. sept. 1903, d. 24. maí 1927), sbr. Dalamenn, II, s. 146. Hún var systurdóttir Jónínu nr. 25 og Helgu nr. 23.

27) Elín Jóhannesdóttir Stakkabergi (f. 20.maí 1858, d. 27. mars 1888). Hún var dóttir Jóhannesar Þórðarsonar nr. 14, sbr. Dalamenn, II, s. 203.

28) Jón Jónsson í Purkey (f. í apr. 1812, d. 11. apr. 1888) sbr. Dalamenn, II, s. 223, en í legstaðaskránni stendur (f. 14. jan. 1812, d. 11. maí 1888).

29) Ástríður María Jónsdóttir (f. 13. sept. 1855, d. 3. okt. 1883). Hún gæti hugsanlega verið dóttir Jóns Bjarnasonar í Fremri-Langey, sbr. Dalamenn, II, s. 242–243.

33) Kristín Jónasdóttir (f. 22. júlí 1879, d. 24. febr. 1951), en ekki Jónsdóttir, var úr Köldukinn, sbr. Dalamenn, II, s. 109, en maður hennar var Guðmundur Jónsson á Breiðabólstað, sbr. sama rit, s. 116. Hún var seinast bústýra hjá Guðmundi syni sínum í Dagverðarnesi, sjá sama rit, II, s. 217. Hún var áður hjá Oddi Hákonarsyni á Kjarlaksstöðum, sjá Dalamenn, II, s. 185.

34) Helga Hólmfríður Jónsdóttir Purkey (f. 3. febr. 1895, d. 22. ágúst 1976), sbr. Dalamenn, II, s. 225. Hún er sennilega seinasta manneskjan sem jarðsett hefur verið í Dagverðarnesi.

38) Salóme Kristjánsdóttir (f. 10. mars 1891, d. 29. júlí 1973) og Sveinn Hallgrímsson (f. 17. nóv. 1896, d. 26. nóv. (20. samkvæmt legstaðaskrá). Þau bjuggu á Kvenhóli og byggðu nýbýli í landi jarðarinnar sem var kallað Sveinsstaðir eftir að Sveinn lést, sbr. Dalamenn, II, s. 209–210. Þau voru kynsæl og m. a. afi og amma Svavars Gestssonar nú sendiherra.

39) Gestur Magnússon Ormsstöðum (f. 9. febr. 1867, d. 25. jan. 1931). Hann var faðir Magnúsar Gestssonar, safnvarðar á Laugum og Baldurs bónda á Ormsstöðum, sbr. Dalamenn, II, s. 200.

40) Eggert Ísleifsson (f. 22. júlí 1901, d. 11. jan. 1915), sonur Ísleifs Jónsdóttur í Dagverðarnesi, sbr. Dalamenn, II, s. 215.

41) Eggert Thorberg Gíslason Fremri-Langey (f. 17. júní 1852, d. 18. maí 1928), sbr. Dalamenn, II, s. 243–244.

43) Andrés Gíslason (f. 4. sept. 1859, d. 27. júní 1929) og Jóhanna Bjarnadóttir (f. 10. júlí 1867, d. 10. des. (10. febr. í legstaðaskrá) 1954) búandi hjón í Hrappsey, sbr. Dalamenn, II, s. 230.

44) Finnur Finnsson (f. 24. maí 1858, d. 30. jan. 1935) og Helga Sigríður Jónsdóttir (f. 24. apr. 1854, d. 10. (13. í legstaðaskrá) sept. 1937), búandi hjón á Hnúki, sbr. Dalamenn, II, s. 257.

46) Guðfinnur Björnsson (f. 26. nóv. 1870, d. 15. apr. 1942). Þótt hann sé hér talinn úr Galtadal, réttara Litla-Galtardal, þar sem hann bjó lengst, dó hann á Ormsstöðum, sbr. Dalamenn, II, s. 175–76. Guðfinnur var faðir Björns Guðfinnssonar málfræðings og fleiri þjóðkunnra systkina.

Tómas Jóelsson Víghólsstöðum, ekki Vígólsstöðum (f. 8. sept. 1890, d. 26. apríl 1950), sbr. Dalamenn, II, s. 181.

47) Guðrún Soffía Jónsdóttir Blöndal (f. 4. júlí 1852, d. 31. ágúst 1923) og Jón Andrésson (f. 1. des. 1854, d. 27. okt. 1932) búandi hjón í Búðardal á Skarðsströnd, sbr. Dalamenn, II, s. 330. Telja má víst, að Björn Andrésson hafi verið bróðir Jóns, sem var frá Valdasteinsstöðum í Hrútafirði, en í Strandamönnum, s. 23, segir um Björn bróður Jóns “var á Skarðsströnd”.

48) Jónína Sigríður Jónsdóttir Purkey (f. 12. júní 1892, d. 27. ágúst 1967), sbr. Dalamenn, II. s. 225.

 

 

 

 

 

N: VI

Reglement eður Skikkun biskupsins og amtmannsins um Dagverðarnesskyrkju.

Finnur Jónsson superintendent Skálholtsstiftis og Magnús Gíslason amtmaður yfir Íslandi gjörum vitanlegt, að okkur er til handa komið hans kongel. majts vors allranáðugasta monarches, þess stórmegtuga herra og konungs Friderichs fimmta konungs til Danmerkur og Norvegs, Vinda og Gauta, hertoga í Slesvig, Holsten, Stormaren, og Dytmersken, Greve i Oldenborg og Delmenhorst, hans allranáðugasta rescript til vor af dato 9da Junii þessa árs, hvar um hæðst nefnd hans Majt befalar oss að regulera, hvornenn bænahúsið að Dagverðarnesi á Skarðsströnd, eftir hans Majts allranáðugustu resolution af 9da júní þessa árs skuli hér eftir vera og álítast sem almennileg sóknarkyrkja, í hverri heilög predikun og önnur guðleg þjónustugjörð, skuli fremjast eins sem á öðrum sóknarkyrkjum, so og kyrkjugarður gjörast, samt eftirskrifaðra jarða ábúendur, nefnil. heimagarðsins Dagverðarness og tilliggjandi hjábýli, samt Rappseyjar, Purkeyjar, Arneyjar, Litlu og Stóru Langeyjar, sovel sem Langeyjarnes, til kyrkjusóknar hér eftir takast frá Skarði á Skarðsströnd, og leggjast til Dagverðarness, sem þeirra réttu sóknarkyrkju. Því höfum við eftir hæðstnefndri kónglegri befalningu hér um gjört þá skipun og skikkun sem fylgir.

1o Kyrkjan að Dagverðarnesi skal hér eftir haldast og ver fjórðungakyrkja á móts við Skarðs- og Búðardalskyrkjur, til allrar prestlegrar þjónustu, utan kyrkju sem innan, og í henni fremjast heilög þjónustugjörð, eftir tiltölu, þó so, að Skarðskyrkja álitist sem höfuðkyrkja, Búðardals þar næst, og Dagverðarness hin þriðja.

2o Til Dagverðarness kyrkjusóknar liggja þessir bæir, heimagarðurinn með tilheyrandi af- og hjábýlum, eyjarnar Purkey, Rappsey, Arney, Litla og Stóra Langey, so og Langeyjarnes, frá þessum jörðum skulu allir sækja að Dagverðarnesi, sem þeirra réttu sóknarkyrkju.

3o Þeir skulu og greiða og gjalda fasta og lausa góts tíundir sínar til nefndrar Dagverðarnesskyrkju so vel sem ljóstolla og legkaup, og alla þá þjónustu sem þeir sinni réttu sóknarkyrkju eru skyldugir.

4o Oftnefndrar kyrkjusóknarmenn skulu nú strax og innan veturnátta uppbyggja kyrkjugarðinn að Dagverðarnesi, so stórar sem þeirra sóknarprestur með þeim álýtur nauðsynlegt, og hönum síðan ásamt kyrkjunnar moldum upp á eigin kostnað viðhalda, þó betalinglaust fyrir jarðar áverka.

5o Sá proprietarius sem mest á í jörðunni Dagverðarnesi og innan sóknar býr, skal uppbera innkvaðir kyrkjunnar, og fyrir þær árlegan reikning gjöra, sem innskrifast skal ásamt kyrkjunnara skjölum; í eina þar til innréttaða kyrkjubók. Annars tilsetur sá fornemsti jarðarinnar eignarmaður annan dánumann þar til. Að allt áður skrifað, sem af okkur er reglerað eftir konungslegri skipan, skuli óbrigðult haldast, bjóðum við hér með og befelum í hans kongl. Majts  háa nafni og staðfestum þetta bréf með undirskrifuðum nöfnum og hjá þrykktum signetum þann 15. augusti 1758.

Finnur Jónsson                                      Magnús Gíslason

            (L. S.)                                                  (L. S.)

 

Upplesið að Dagverðarnesi in ordinaria visitatione háæruverðugs biskupsins Hl Finns Jónssonar þann 6. septembris 1758.

            Jón  Bjarnason                                      Bogi Benedixson

 

 

N: VII

Uppskrift Dagverðarnesskyrkju og hennar eigna

Sama dag var húsið sjálft yfirskoðað og finnst það so á sig komið sem fylgir. Það er í 4um stafgólfum, en það innsta er lengst, af því að að í því er höggsperra, þiljað á baka til, og að framan verðu, og eru þó hvorutveggja þilið mjög gisið. Kórinn og eitt stafgólf að sunnanverðu er þiljað undir sillu yfir húsinu er reisifjöl, og fyrir dyrum hurð á járnum með skrá lykli og koparhring. Moldirnar eru sæmilegar, viðirnir eru veikir þó ófúnir það sjá má. Bresti hússins lofar sóknarfólkið með fyrstu hentugleikum að endurbæta, so það verði embættisfært innan næstkomandi veturnátta.

            Ornamenta eru altari og gráða þar fyrir framan, predikunarstóll, allt lítilfjörlegt, og yfir altari er máluð brík sæmileg. Til eru 2ær messingspípur önnur brotin á stéttinni þó bærilegar, klukka ein heil og hljóðgóð, kaleikur og patína hvortveggja af sylfri gyllt innan vel sæmilegt. Corporall af vírdregnu toye, undirfóðraður með lérefti, annar af tvinnadúk, fóðraður og með lérefti, báðir bærilegir. Hökull með rauðum plusskrossi, af mjög slitnu toye, undirfóðraður með bleiku lérefti mjög slitnu Richelín sæmilegt, altarisklæði af þrykktu cartuni brostað ??? í einum stað. Í bókum á kyrkjan alleinsta eirn grallara.

            Framanskrifuðu til staðfestingar eru vor undirskrifuð nöfn.

Finnur Jónsson                                                              Elen Benedixdóttir

Bogi Benedixson                                                                       Jón Bjarnason

Þorkell Jónsson                                                                        Bæring Bjarnason

Þorkell Ólafsson                                                                       Benedikt Hannesson



[1] Andrjes H. Grímólfsson. “Dagverðarnes.” Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1925–1926.s. 59

[2] Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Einar G. Pétursson sá um útgáfuna. Rv. 2003, sjá einkum s. 114–116 og skýringar s.134–137.

[3] Bogi Benediktsson á Staðarfelli. Sýslumannaæfir. Með skýringum og viðaukum eftir Jón Pétursson og Hannes Þorsteinsson. II. Rv. 1889–1904. s. 114.

[4] Diplomatarium Islandicum, Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörnínga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn. II. Kbh. 1893. s. 636.

[5] Lovsamling for Island. XIV. Kbh. 1856. s. 133–34.

[6] Friðrik Eggerz. Úr fylgsnum fyrri aldar. I. Rv. 1950. s. 384–387.

[7] Loftur Guttormsson. Frá siðaskiptum til upplýsingar. Rv. 2000. s. 222–225. (Kristni á Íslandi. III.)

[8] Diplomatarium Islandicum, Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn. VI. Rv.. 1900–1904. s. 1–4.

[9] Guðrún Ása Grímsdóttir. “Sturla Þórðarson.” Sturlustefna. Ráðstefna haldin á sjö alda ártíð Sturlu Þórðarsonar 1984. Rv. s. 23 neðanmáls; sbr. einnig Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. s. 134–135.

[10] Magnús Már Lárusson. “Sct. Magnus Orcadensis Comes.” Saga. Tímarit Sögufélags. 3 (1960–63). s. 470–503.

[11] Þóra Marta Stefánsdóttir. Niðjatal séra Jóns Benediktssonar og Guðrúnar Kortsdóttur konu hans. Rv. 1971. s. 33–34.


Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Engar myndir frá garði! Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Fjöldi þekktra legstaða:
60
Símanúmer:
Prófastsdæmi:
Vesturlandsprófastsdæmi
Netfang:
Heimasíða: