Prenta síðu á Gardur.is

- Ingjaldshólskirkjugarður

Söguágrip:

                                                INGJALDSHÓLSKIRKJA

                                                                 1903

 

      Snemma  hefur verið kirkja á Ingjaldshóli. Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar 1211 er  Ingjaldshóls getið og í Sturlungu er minnst á prest á Ingjaldshóli að nafni Halldór Oddsson  um 1200. Sóknarkirkja  var byggð þar árið 1317 og var hún vígð þann 13. október.

     Ingjaldshóll var lengi í eigu Sturlunga. En frá 1350, eða  allt fram á  siðbreytingu var staðurinn í eigu Helgafellsklausturs. Síðan varð hann eign konungs þar sem fulltrúar hans og sýslumenn voru staðsettir.

     Fyrsta kirkja á Ingjaldshóli sem eitthvað er vitað um er frá 1696. Hún var stór og sterkleg kirkja byggð úr timbri.  Á nýársdag árið 1700 voru  360 kirkjugestir við messu, sem gefur til kynna hversu stór hún var.

     Tvær altaristöflur úr þeirri kirkju eru varðveittar í  núverandi kirkju. Önnur er með mynd af tveimur englum, sól og mána. Sú altaristafla er sennilega eldri en kirkjan frá 1696. Hin  altaristaflan er frá 1709 og sýnir hún guðspjallamennina fjóra.  Var hún gjöf frá Nikolai Winge, sem var danskur kaupmaður í  Rifi.

     Önnur kirkja var byggð á  Ingjaldshóli árið  1742 og enn önnur árið 1782. Yfirsmiður hennar var Ólafur Björnsson á Munaðarhóli. Hann hafði lært tréskurð erlendis.  Var  kirkjan vönduð að gerð og með miklum útskurði. Sumt af honum er varðveitt á þjóðminjasafninu. Bæði prédikunarstóllinn og altarið í núverandi kirkju eru úr þeirri kirkju.

     Kirkjuklukkurnar eru tvær. Önnur er frá árinu 1736  og  hin frá 1743, var sú gjöf frá Guðmundi  Sigurðssyni sýslumanni. Á klukkuna er sálmur grafinn, sem danskur biskup að nafni Borson samdi.

     Fleiri hlutir hafa varðveist frá fyrri tíma. Til að mynda skírnarskál sem er frá árinu 1894. Fóturinn er þó mun yngri. Ein ljósakróna er frá 1888 og önnur frá 1914. Auk þess má nefna líkneski af guðspjallmönnunum, sem  varðveitt eru á þjóðminjasafninu og áður prýddu prédikunarstól kirkjunnar.

     Þórarinn B. Þorláksson einn af helstu brautryðjendum í íslenskri málaralist málaði nýjustu altaristöfluna árið 1903.  Fyrirmyndin var altaristaflan í Dómkirkjunni í Reykjavík, sem danski málarinn Wegner málaði. Sýnir hún upprisu Krists.

      Núverandi kirkja var  byggð  1903  og  vígð  11. oktober  sama  ár. Kirkjan er steinsteypt og samkvæmt  athugunum  Harðar  Ágústssonar, er hún elsta steinsteypta kirkja landsins og  líklega sú elsta í heimi.   Lárus Skúlason  safnaðarfulltrúi var forgöngumaður um að ráðist var í byggingu kirkjunnar. Jón Sveinsson  byggingameistari  úr Reykjavík teiknaði kirkjuna og Albert Jónsson    múr og steinsmiður sá um byggingu hennar. Árið 1914 fór framm viðgerð og breytingar samkvæmt teikningum og fyrirsögn Rögnvaldar  Ólafssonar  húsameistara  ríkisins. Önnuðust það verk, Vigfús Jónsson og Teitur Stefánsson  hækkuðu þeir  meðal  annars turninn og byggðu söngloft.

     Á Ingjaldshóli ólst upp Eggert Ólafsson skáld og  nátturufræðingur. Listamaðurinn  Páll á Húsafelli gerði minnisvarða um hann og konu hans Ingibjörgu Guðmundsdóttur og stendur hann á Ingjaldsóli. Minnisvarðarnir eru höggnir í stein. Milli þeirra má sjá yfir til Skorar  á Barðaströnd  sem  Eggert og eiginkona hans lögðu upp frá, út á  Breiðafjörðinn  þaðan  sem þau áttu ekki afturkvæmt.

     Þegar kom fram á 4. áratug  tuttugustu  aldar fór kirkjan á Ingjaldshóli að eiga undir högg að sækja, því hún þótti of langt fyrir utan þéttbýlið,  rétt væri að  reisa kirkju  niður á Hellissand.  Af því varð þó aldrei en árið  1993  hófust framkvæmdir við byggingu safnaðarheimilis til lausnar á  aðstöðuleysi safnaðarins   og  tryggja þar  með kirkjuna í  sessi á Ingjaldshóli.

Safnaðarheimilið var svo vígt  19. október 1997. Arkitekt  hússins  var  Magnús H.Ólafsson.  Byggingameistarar voru Ómar og Smári J. Lúðvíkssynir. Smári sem var formaður sóknarnefndar var einnig byggingastjóri.

    Í safnaðarheimilinu eru  tveir fornir legsteinar sem  fluttir voru úr kirkjugarðinum þar sem kirkjur stóðu áður fyrr. Annan þeirra lét Eggert Ólafsson  gera  yfir gröf Guðmundar Sigurðssonar sýslumanns tengdaföður síns árið 1753. Hinn er frá árinu 1694 og var  yfir gröf  Magnúsar Jónssonar  lögmanns.

     Í safnaðarheimilinu er einnig málverk af Kristófer Kólumbusi, sem listmálarinn Áki Grönz  málaði. En samkvæmt munnmæla sögum frá síðari hluta 15. aldar, fór Kólumbus til Íslands til að rannsaka  leið norrænna sæfara til norður Ameríku. Sagt er að hann hafi komið að Ingjaldshóli árið 1477 og haft þar verursetu.

 

 

                                                        Saga  kirkjugarðsins.

 

       Á  Ingjaldshóli er að líkindum einn af elstu kirkjugörðum  á  Íslandi eða allt frá því á 13. öld eða fyrr,  margir telja þar eitt fegursta kirkju og grafar stæði  landsins. Kirkjan stóð öld eftir öld í garðinum eða fram að 1903. að núverandi kirkja var byggð á hólnum fyrir norðan  kirkjugarðinn.

      Í  vísitasíum liðins tíma kemur fram  að  torfveggir í kringum kirkjugarðinn  séu   illa farinir   og   engan veginn  gripheldir og  úr  því þurfi að bæta.  Á  árunum  1930-1936  er ráðist í það stórvirki að  steypa  vegg  umhverfis kirkjugarðinn. Safnað var gjafa  fé og  gjafadagsverkum. Konur í Kvenfélagi Hellissands voru duglegar að leggja þessu góða  málefni lið og  gáfu flest  dagsverkin, sem þær létu  svo karlana sína vinna.  Ef þær voru spurðar hvaða aðferð þær hefðu beitt, þá var svarið: við höfðum okkar aðferðir og  þær hrifu. Steypti garðurinn var ca. 250m  langur vel þykkur og á köflum töluvert hár. Búið er að stækka  garðin síðan.  Í  kirkjugarðinum má skoða  sögu fyrri tíma, upphlaðin  leiði  sum  í röðum sem vitna um plágur sem gengu yfir,  í  garðinum má sjá um 300 upphlaðin  leiði  sem eru ómerkt  og núlifandi fólki gleymd.  Um miðbik síðustu aldar var steypt umgjörð um fjölda  leiða en í dag heyrir það sögunni til.  Það var lán að sóknarnefndir ljáðu aldrei máls á því að slétta út garðinn sem víða  hefur þó verið gert,  þar með varð bjargað sögulegum minjum.  Kirkjugarðurinn er nú friðlýstur.

      Sumarið 2001. var vígður minningareitur í  kirkjugarðinum  um þá sem ekki hafa fengið leg í vígri mold, ( þeirra sem ekki hafa fundist, annað hvort í sjó eða á landi ).   Reiturinn er gerður úr sæbörðu  grjóti. Lionskl.Nesþinga  hafði forgöngu og  framkvæmd þessa verks.

      Á  árinu 2007. var hafist handa við að teikna upp leiði og  gera  legstaða skrá, lauk  því verki á árinu 2008. þetta verk annaðist Smári Jónas Lúðvíksson.

 

 

 


Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Minnka kort/ til baka

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum: Víðmyndir úr garðinum:
Mynd frá Ingjaldshólskirkjugarði. [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað:
Heimasíða kirkjugarðsins:[Skoða:]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ari Bent Ómarsson
Fjöldi þekktra legstaða:
527
Símanúmer:
866-6939
Prófastsdæmi:
Vesturlandsprófastsdæmi
Netfang:
Heimasíða:
https://www.gardur.is/gardur.php?gID=219
       
Einföld leit
Ef ekki finnst það sem leitað er að má reyna Flóknari leit sjá hér

Nafn eða
byrjun á nafni/ nöfnum:
Fæðingardagur:
Dánardagur: