Guðmundur Rafn Sigurðsson landslagsarkitekt |
|
- Umhverfi og umhirða kirkjugarða verði þannig
árið 2000 að við getum stolt skilað góðu
verki inn í nýja öld, segir Guðmundur Rafn Sigurðsson.
-
- Skipulagsnefnd kirkjugarða hefur yfirumsjón með 300
kirkjugörðum í landinu auk fjölda niðurlagðra
kirkjugarða og heimagrafreita. Guðmundur Rafn Sigurðsson landslagsarkitekt
hefur starfað sem framkvæmdastjóri nefndarinnar um fjögurra
ára skeið með aðsetri á biskupsstofu. Að
beiðni heimamanna hefur Guðmundur Rafn heimsótt u.þ.b.
100 kirkjugarða á ári og gerir því iðulega
stuttan stans í Reykjavík.
- "Þessi ferðalög eru vissulega dálítið
þreytandi, en samt sem áður hafa þau veitt mér
mikla ánægju og leitt mig á fund fólks og á
vit staða, sem ég hefði ekki látið mig dreyma
um að heimsækja, en vildi ekki hafa misst af að kynnast,"
sagði Guðmundur Rafn í samtali á biskupsstofu.
-
- Í mörg horn að líta
- Af starfslýsingu má ráða að margt er á
könnu framkvæmdastjórans. Hann á að sjá
um eftirlit kirkjugarða um allt land, gera eða láta gera
uppdrætti, skrár og verkáætlanir, útbúa
leiðbeiningar og efna til námskeiða um hvaðeina sem
snertir umhirðu og útlit kirkjugarða. Fyrir utan ráðningar
og reddingar í sambandi við lagfæringar kirkjugarða
ber framkvæmdastjóranum að veita ráðgjöf
og fylgjast með því að áætlanir standist.
Þá er honum ætlað að meta lánsumsóknir
og mæla með og samþykkja lántökur og styrkveitingar
úr kirkjugarðasjóði. Og er þá aðeins
stiklað á stóru.
- "Yfirleitt er það sett sem skilyrði fyrir fjárveitingum
úr kirkjugarðasjóði, að ég fylgist vel
með fyrir hönd sjóðsstjórnar hvernig styrkveitingar
nýtast. Þannig kem ég yfirleitt á staðinn
áður en framkvæmdir hefjast, a.m.k. einu sinni meðan
á þeim stendur ef um viðamikil verk er að ræða,
og loks þegar verkið er tekið út og áður
en til lokagreiðslu kemur. Þetta hefur gefið góða
raun, veitir bæði aðhald um framkvæmdahraða og
gefur góða yfirsýn."
-
- Umhverfi og umhirða
- Eins og kunnugt er hafa kirkjugarðsgjöld verið skert verulega
á síðustu árum og þar af leiðandi hafa
tekjur kirkjugarðasjóðs rýrnað, um leið og
lagðar hafa verið á hann nýjar skyldur. Þetta
er að sjálfsögðu bagalegt að dómi Guðmundar
Rafns vegna þess að mörg brýn verkefni bíða
úrlausnar:
- "Víða um land má sjá fallega og vel hirta
kirkjugarða og margt hefur áunnist á síðustu
árum. En fjölmargt þarfnast úrbóta og lagfæringa
vegna þess að tímans tönn nagar sífellt mannanna
verk. Það ætti því að vera markmið
okkar er störfum að þessum málum, að á
kristnitökuafmælinu árið 2000 verði umhverfi
og umhirða kirkjugarða almennt komið í það
gott horf, að við getum stolt skilað þeim inn í
nýja öld."
|