Húsavík við Skjálfanda
 

 
Hjörtur Tryggvason kirkju- og kirkjugarðsvörður á Húsavík.

 

 

 

 

 

 

 
Húsavíkurkirkja. Teikning dr. Wolfgang Jakoby.

 

 

 

 

 
Minnisvarði um týnd sóknarbörn sem reistur var 1995. Teikning dr. Wolfgang Jakoby.

Húsavík við Skjálfanda á sér langa sögu. Þar byggði víkingurinn Garðar Svavarsson hús og hafði vetursetu um 870, en félagi hans, Náttfari, fór í Reykjadal með þræl og ambátt og gerðist fyrsti norræni landnámsmaður á Íslandi. Menjar um enn eldri búsetu hafa líklega eyðilagst við hafnarframkvæmdir fyrir 30 árum.
 
Kirkja mun hafa verið reist á Húsavík á tólftu öld og helguð Magnúsi Orkneyjarjarli. Hvort það var fyrsta kirkja á Húsavík veit nú enginn, en síðan þá hefur Húsavík verið kirkjustaður. Áður fyrr stóð kirkjan í miðjum gamla kirkjugarðinum, sem er norðan við sjúkrahúsið. Núverandi kirkja var vígð árið 1907, og stendur nú alllangt frá gamla kirkjugarðinum. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði kirkjuna, og þykir hún ein fegursta kirkja landsins. Sæti voru fyrir öll sóknarbörn Húsavíkursóknar í kirkjunni eða um 450.
Árið 1921 var nýr kirkjugarður tekinn í notkun á fallegum stað sunnan í Húsavíkurhöfða. Þaðan er fagurt útsýni inn til dala, yfir Skjálfandaflóann til Kinnarfjalla, og yfir allan bæinn og höfnina. Mikil vinna er lögð í að fegra og hirða kirkjugarðinn. Þar eru nú 1012 leiði, og rúm fyrir 1188 til viðbótar. Fyrir árið 2040 þarf að finna stað fyrir annan grafreit. Kirkjugarðurinn er afmarkaður á þrjá vegu með listilega gerðum garði, hlöðnum úr stuðluðu hrauni. Benedikt Björnsson garðyrkjustjóri hlóð garðinn. Að norðanverðu er 5-7 m breitt trjábeð, sem plantað hefur verið í á síðustu árum.
Í Húsavíkursókn búa 2680 manns. Síðustu árin hafa að jafnaði verið tvær jarðafarir á mánuði eða 24 - 25 á ári.
Legsteinar eru á 505 leiðum og krossar og önnur minnismerki á 240 leiðum. Minnisvarði um týnd sóknarbörn var reistur árið 1995. Hann er úr fallegu stuðlabergi, og er hæsti stuðullinn þriggja metra hár. Þá er nýreistur lítill minnisvarði um andvanafædd börn. Hann er úr nettum stuðlum, sem bændur á Fossi á Síðu gáfu garðinum.
Í garðinum er vandað þjónustuhús, 160 fermetra. Rishæð hússins er notuð sem safnaðarheimili. Klukkuturn, 10 metra hár með fjarstýrðri klukku, er í miðjum garði. Garðurinn er upplýstur með 7 götuljósum og 14 garðljósum, auk þess sem kveikt er á miklum fjölda lítilla ljósakrossa í byrjun aðventu og látið loga fram yfir þrettándann.
Trjábeð í garðinum eru 210 m að lengd, limgerði (mest blátoppur) 630 m. Malbornir gagnstígar eru 630 m og akvegir í garðinum 190 m.
Í gamla kirkjugarðinum eru legsteinar á 37 leiðum. Þar er einn mjög stór ljósakross, sem logar á um jólin. Garðurinn er sleginn þrisvar til fjórum sinnum á sumri og þar hafa verið gróðursettar trjáplöntur á síðustu árum.
Sigurður Pétur Björnsson, fyrrverandi bankaútibússtjóri, hefur í samvinnu við kirkjugarðsvörð gert tölvutæka legstaðaskrá fyrir nýja kirkjugarðinn. Einnig hefur hann safnað tiltækum upplýsingum um heimagrafreiti í Þingeyjarsýslum og gamla aflagða kirkjugarða. Kirkjugarðsvörður er Hjörtur Tryggvason, og er hann jafnframt kirkjuvörður Húsavíkurkirkju. Auk kirkjugarðsvarðar vinna að jafnaði 2-3 starfsmenn yfir sumarið í kirkjugarðinum.
 
Hjörtur Tryggvason