Járnminnismerki frá öld eims og eisu
 
Kafli úr bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði eftir Björn Th. Björnsson
 


Járnmonumentumið um Steingrím biskup.
Ljósm. Pétur Maack.
Listgrein sú sem tekur til minningarmarka um látna menn er á erlendum tungum kölluð Sepulkralkunst (þ.) eða sepulchral art (e.), af latneska orðinu sepulcrum, gröf eða grafstúka, t.d. helgra manna í kirkjum. Þótt grein þessi sé nærri jafngömul manninum og risi hæst með Egyptum, þar sem kalla má að öll list helgaðist minningu dauðra, taka orð þessi í venjulegum skilningi aðeins til vestrænnar grafhefðar, klassiskrar fornaldar Grikkja og Rómverja, og upp frá því kristinnar menningar. Um aldaraðir var nær einvörðungu um steinhöggsverk að ræða, legsteina, lágmyndir á grafhýsum, minningarsúlur og höggmyndir af hinum látnu eða til táknrænnar minningar þeirra. Graflist nýklassiska tímabilsins, sem reis með borgaralegri lýðveldishugsjón á 18. öld, leitaði fanga í klassiskri fornöld, bæði um efni, form og táknræn skreyti, og rótfesti þau í kristinni vitund síns tíma. Af hinu sama leiddi, að steinhögg, og þá ekki síst marmarahögg, var haft í mikum metum, Meðal annarra sem hófust á þeirri bylgju var hálflandi okkar, Albert Thorvaldsen. Hreinleiki hins klassiska forms - "Edle Einfalt, stille Größe", svo vitnað sé í kjörorð Winckelmanns - leystist þó upp á öðrum og þriðja áratugi 19. aldar fyrir áhrif nýrrar valdastéttar og nefnist í listasögunni "empire" eða keisarastíll með skírskotun til Napóleons. Hann er oft íburðarmikill, jafnvel þunglamalegur, en byggist þó enn á klassiskum grunni.
En rétt um þetta leyti var ný öld að ganga í garð í Vestur-Evrópu, öld eims og eisu, Iðnbyltingin sem svo hefur verið nefnd. Á fjölmörgum sviðum var ævafornt starf handverksmannsins rekið í útlegð, en gufuaflið, vélin og fjöldaframleiðslan dýrkuð sem guðleg dagrenning nýrra tíma. Allt handgert þótti nú gamaldags, sveitalegt, en verksmiðjuframleiðsla fín. Umbreyting þessi teygði áhrif sín út í svo til allar verkgreinar, að minnsta kosti þær sem hagnað var af að hafa, og minningarmörk kirkjugarðanna fóru heldur ekki varhluta af því. Stórfelld breyting varð á járnsteyputækni, mótasmíð, deiglu og herzluofni, svo að nú var unnt að steypa sama meginformið aftur og aftur, svo sem járnkrossa á leiði, en þó með breyttum áletrunum í hvert sinn. Eins var hér hægt, sem illmögulegt var í steinsmíði, að mynda hvers konar gagnbrotið verk, spírur og fíngert flúr, og er af þeim sökum ekki að undra þótt framleiðsla þessi endurvekti margbrotin gotnesk skreyti. En nýgotíkin var ekki aðeins af þeim möguleikum tækninnar runnin. Eftir fall Napóleons, sem litið var á sem einskonar persónugerving empire-stílsins, leituðu Þjóðverjar og áhrifasvæði þeirra andsvars við "frönsku hefðinni" með endurvakningu hins gotneska, sem þeir trúðu að væri "germanskur" stíll. Því er það einmitt slíkt flúr sem setur mark sitt á járnkrossa kirkjugarðanna næstu áratugi.
Þegar mikið átti við að hafa, var samt ekki aðeins um krossa að ræða, heldur heil "monument" sem steypa varð í mörgum hlutum eftir vandaðri forteikningu og sérgerðum mótum. Svo vill til, að í kirkjugarðinum á Hólavelli er eitt slíkt "monument", og raunar þesskonar sem myndi sóma sér sem aldaprýði í hvaða kirkjugarði Norðurálfu sem væri. Það stendur hægra megin við stíginn frá aðalhliði við Suðurgötu að klukknaporti og næst því, í reit R 311.