Stofnun Kirkjugarðasambands Íslands
 
Fljótlega eftir að undirritaður kom til starfa sem forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma í ársbyrjun 1995 fann hann fyrir ákveðinni einangrun eða einsemd, þegar málefni kirkjugarða voru annar vegar. misleg aðkallandi sameiginleg verkefni voru fyrirliggjandi á þeim vettvangi, en engin samstaða var fyrir hendi milli forsvarsmanna kirkjugarða og engar samræmdar aðgerðir voru mögulegar. Þessi brýnu verkefni voru á sviði fjármála, sameiginleg verkefni á sviði faglegra mála er varða þróun og umhirðu kirkjugarða og síðast en ekki síst sameiginleg mál á sviði minjaverndar.
 

 
Frá Stofnfundi Kirkjugarðasambands Íslands (KGSÍ) á Hótel Holti.
Ljósm. Ingimundur Magnússon.
 
Undirbúningur að stofnun Kirkjugarðasambandsins
Undirritaður hafði samband við nokkra stjórnarmenn í kirkjugörðum víðs vegar um landið og sama tilfinning var í brjóstum flestra, sem rætt var við, þ.e.a.s. að stofna þyrfti samband, sem hefði eftirfarandi markmið:
 
1. Að efla samstarf starfsmanna og stjórna kirkjugarða.
2. Að gæta hagsmuna kirkjugarða á sviði fjármála gagnvart stjórnvöldum.
3. Að gangast fyrir upplýsingastarfsemi í þágu kirkjugarða, í því skyni að miðla hagnýtum upplýsingum á milli þeirra og ná fram hagkvæmni í rekstri og betri þjónustu.
Þegar ljóst var að almennur áhugi var fyrir hendi, var haldinn undirbúningsfundur að stofnun kirkjugarðasambands, þann 10. og 11. júní 1995. Fundurinn var haldinn á Akureyri og þar mættu fulltrúar 20 kirkjugarða. Undirbúningsvinna tókst vel og á fundinum var kosin nefnd, sem skyldi vinna að undirbúningi stofnfundar. Nefndina skipuðu: Guðmundur Rafn Sigurðsson, frkvstj. Skipulagsnefndar kirkjugarða, Benedikt Ólafsson frá Kirkjugörðum Akureyrar og undirritaður.
 
Stofnun Kirkjugarðasambands Íslands
Kirkjugarðasamband Íslands var síðan stofnað í Reykjavík, þann 9. desember 1995 og voru stofnfélagar 22 talsins. Undirbúningsnefndin var kosin í fyrstu stjórn sambandsins. Fyrsti aðalfundur sambandsins var haldinn á Egilsstöðum 8. júní s.l. og var hann vel sóttur.
 
Innganga í norræna kirkjugarðasambandið
Þess má geta að KGSÍ var tekið inn í norræna kirkjugarðasambandið (NSKK - Nordiska förbundet för kyrkogrdar och krematorier) á fundi í Finnlandi í sumar. Aðalfundur KGSÍ, sem haldinn verður á Höfn í Hornafirði 7. júní 1997, mun velja fulltrúa á fund norrræna sambandsins í Kaupmannahöfn næsta haust.
Hvernig hefur til tekist?
En hvernig hefur til tekist fram að þessu? Hverju hefur Kirkjugarðasambandið áorkað?
Undirritaður telur að fyrsta markmið með stofnun KGSÍ hafi náðst, þ.e.a.s. að efla samstarf starfsmanna og stjórna kirkjugarða. Þeir fundir, sem haldnir hafa verið á vegum sambandsins, hafa þjappað félagsmönnum saman og góður hópur, sem lætur sér málefni kirkjugarða miklu varða, er nú fyrir hendi. Einnig er búið að vinna mikla forvinnu varðandi fjármál garðanna. Upplýsingum um tekjurýrnun síðustu ára hefur verið komið á framfæri til réttra yfirvalda.
 
Kirkjugarðarnir eru margir og mismunandi
En betur má ef duga skal. Mikil verkefni eru framundan varðandi ýmis málefni kirkjugarða. Kirkjugarðar á Íslandi eru um 300 talsins. Flestir þeirra eru litlir sveitakirkjugarðar, sem er stýrt af sóknarnefndum á viðkomandi stöðum, en aðeins fáir þeirra hafa sérstaka kirkjugarðsstjórn. Þrátt fyrir mikinn stærðarmun, er það miklu fleira, sem tengir kirkjugarða á Íslandi saman, en það sem aðskilur þá. Eitt af þessum sameiginlegu málum er samvinna um viðhald garðanna og minjavernd.
Eins og áður sagði, er mun algengara að sama stjórn sé bæði yfir safnaðarmálum og kirkjugarðsmálum. Sóknarnefndirnar eru bæði ábyrgar fyrir vörslu kirkjugarðsgjalda og fyrir vörslu sóknar- eða safnaðargjalda. Þessir tveir sjóðir eiga að vera algjörlega aðskildir í bókhaldi sóknarnefnda, enda eru verkefni þeirra gjörólík. Nokkur brögð hafa verið að því að sóknarnefndir blandi þessum sjóðum saman, þannig að kirkjuhúsið og safnaðarstarfið sé rekið fyrir fé frá báðum sjóðunum. Þetta veldur því að lögbundin verkefni kirkjugarða sitja á hakanum og þetta samkrull skekkir, jafnt rekstur safnaðarins og rekstur kirkjugarðsins. Mjög brýnt er að koma þessum málum í lag og skerpa þá vitund sóknarnefnda að grundvallarmunur sé á kirkjugarðsgjaldi og sóknargjaldi og undirstrika að verkefnin séu aðskilin, þar sem sama stjórn fer með báða málaflokkana.
 

 
Fulltrúar og makar þeirra á ráðstefnu norræna kirkjugarðasambandsins (NSKK) í Finnlandi.
 
Tveir ólíkir og aðskildir sjóðir
Allir íbúar landsins, sem eru frá 16 ára aldri til 67 ára aldurs, greiða kirkjugarðsgjald. Kirkjugarðsgjaldinu er ætlað að standa straum af eftirfarandi verkefnum: Hönnun og gerð nýs kirkjugarðs (á móti sveitarfélagi), viðhaldi hans og þróun, grafartöku, kirkjuþjónustu, þar sem grafarkirkja er og skrifstofuhaldi, þar sem það er fyrir hendi o.fl. Þessi verkefni eru tíunduð í lögum um kirkjugarða nr. 36 frá 1993. Sóknargjöld/safnaðargjöld eru félagsgjöld og eru þau greidd til þess trúfélags, sem viðkomandi er skráður í. Mörg trúfélög geta verið innan sömu sóknar og þar geta einnig verið einstaklingar, sem eru utan trúfélaga. Safnaðargjöld renna til trúfélaganna en gjöld þeirra sem eru utan trúfélaga renna til Háskóla Íslands.
Safnaðargjöld standa straum af eftirfarandi verkefnum: Byggingu og rekstri safnaðarheimilis og kirkju, greiðslu aðstoðarfólks við safnaðarstarf kirkjunnar o.fl.
Fyrir tilstuðlan KGSÍ hefur Kirkjuráð skipað nefnd, sem hefur það verkefni að fara ofan í rekstur kirkjugarða á landinu með aðstoð ríkisendurskoðunar. Þannig verður hægt að sjá hvernig tekjunum hefur verið varið og hvernig gjöld og tekjur mætast. Nefndin mun skila niðurstöðum sínum fyrir næsta aðalfund KGSÍ og munu þær sýna hvernig fjárhagsleg staða garðanna er og hvað þurfi að bæta varðandi fjármálastjórnun á hverjum stað. Nefndina skipa: Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Skipulagsnefndar kirkjugarða, Hjalti Zóphóníasson, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og undirritaður.
Hvað er framundan?
Forgangsverkefni KGSÍ verður að vinna að leiðréttingu þeirrar skerðingar, sem gengið hefur yfir kirkjugarða á síðustu árum. Einn liður í þeirri baráttu er að miðla upplýsingum. Fréttablaðið Bautasteinn verður sent til allra presta landsins, til allra formanna sóknarnefnda, til allra oddvita sveitarstjórna og til allra alþingismanna.
Í KGSÍ eru nú 25 kirkjugarðar víðsvegar af landinu og þeir hafa innan sinna vébanda meira en 80% af gjaldendum. Það er vilji þeirra fulltrúa, sem eiga aðild að sambandinu, að efla það með því að fjölga aðildarfélögum. Til að mynda eiga Vestfirðir engan fulltrúa í sambandinu og þarf að bæta úr því. Félagsgjöldum er stillt í hóf. Hver kirkjugarður greiðir grunngjald að upphæð kr. 1.000 og síðan eina krónu fyrir hvern gjaldanda. Auðvelt er að ganga í KGSÍ. Undirritaður veitir allar upplýsingar í síma 585-2700.
 
Þórsteinn Ragnarsson
formaður KGSÍ