| |
|
Hof í Álftafirði |
Kirkjan
að Hofi í Álftafirði á sér langa sögu, en getið var um kirkju þar í kirknatali
Páls biskups frá árinu 1200. Sú bygging er þar stendur í dag var reist árið 1896,
á grunni torfkirkju sem rifin hafði verið árið áður. Prestsetur var að Hofi til
1905. Árið 1928 var byggð forkirkja og turninn færður. Síðast voru miklar
endurbætur gerðar á kirkjunni árið 1969. Sumarið 1996 var svo ráðist í
endurbætur og viðhald kirkjugarðsins. Gríðarlegur áhugi og eldimóður var í
aðstandendum og velunnurum kirkjunnar, sem ýtti mjög undir framkvæmdir við garðinn.
Ari Óskar Jóhannesson, hleðslumaður og smiður, var umsjónarmaður verksins og naut
við það dyggrar aðstoðar heimamanna. |
Miklu
var komið í verk í þessari atrennu. Meðal annars var garðurinn mældur upp og
gerður af honum uppdráttur og legstaðaskrá. Girðing umhverfis garðinn var
endurnýjuð ásamt sáluhliði, garðflötin hækkuð og hún tyrfð. Nýr og einkar
smekklegur göngustígur úr náttúruhellum var lagður um garðinn. Eins var ráðist í
lagfæringu gamals torfveggjar í kringum eldri hluta kirkjugarðsins. |
|
|