Öflugur þjónn Krists í
mannúðarstörfum: Sigurbjörn Á. Gíslason Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason var fæddur á nýársdag 1876 í Glæsibæ í
Sæmundarhlíð í Skagafirði. Foreldrar hans voru Gísli Sigurðsson (1828?1896),
sjálfseignarbóndi þar, síðar bóndi að Neðra-Ási í Hjaltadal, og kona hans
Kristín Björnsdóttir (1845?1906) frá Brekkukoti í Blönduhlíð. Varð þeim átta
barna auðið, en fjögur þeirra dóu í bernsku, og var Sigurbjörn elztur þeirra sem
lifðu. Þegar hann var á sjötta ári, fluttist fjölskyldan búferlum að Neðra-Ási,
sem var vildisjörð. Hann þótti þroskavænlegur unglingur. Fermdur var hann hjá
sr. Zóphóníasi Halldórssyni í Viðvík, sem einnig sagði honum til undir skóla að
nokkru leyti, en aðallega naut hann tilsagnar sr. Hallgríms Thorlacius, sem þá
var prestur að Ríp. 1891 fór hann í Latínuskólann (Lærða skólann í Reykjavík),
þá 15 ára. Faðir hans lézt, er hann var í 4. bekk; mun hann þá hafa reynt hvað
hann gat til að létta undir með systkinum sínum og móður, sem bjó áfram, en
stúdent verður Sigurbjörn 1897 með I. einkunn. Þegar á skólaárunum starfaði hann
í bindindissamtökum, frá 1891, en hóf störf í Góðtemplarareglunni árið 1892 og
stofnaði t.d. stúku í Skagafirði. Í Lærða skólanum hafði hann einkum áhuga á
stærðfræði. Hæfileikar hans á því sviði fengu m.a. þá viðurkenningu Björns
Jenssonar, kennara í greininni, að hann valdi hann til að kenna börnum sínum
stærðfræði. Eftir stúdentsprófið stóð hugur Sigurbjörns helzt til háskólanáms í
stærðfræði eða eðlisfræði, en efnin leyfðu ekki þá utanferð sem slíkt nám
krafðist. Hann valdi því að ganga í Prestaskólann í Reykjavík og lauk þaðan
kandídatsprófi aldamótaárið 1900 með hárri I. einkunn. Hélt hann uppi
barnaguðsþjónustum með öðrum stúdentum í Reykjavík og á Seltjarnarnesi á
Prestaskólaárunum. Einn kennari Sigurbjörns,
Jón Helgason,
síðar biskup, hafði hvatt nemendur sína til að kynnast kirkjulegu starfi á
Norðurlöndum. Skrifaði Sigurbjörn móður sinni, að sig langaði til að sigla. Tók
hún þá lán, 260 krónur, og sendi honum. Hafði hann með aðstoð Jóns Helgasonar
fengið starf sem heimiliskennari hjá presti á Jótlandi, en ferðaðist jafnframt
næstu fjórtán mánuðina (1900?1901) um Danmörku, Noreg og Svíþjóð til að kynna
sér kirkjulega starfsemi, naut til þess styrkja frá danska ríkinu og kallaði það
sjálfur námsdvöl. Með þessu lagði hann í raun grunninn að ævistarfi sínu:
utanförin varð honum mikill aflvaki, hann kynntist þar frjálsri
safnaðarstarfsemi, sótti mjög fundi og samkomur heimatrúboðsins og varð virkur
þátttakandi í því. Náms- og fyrirlestraferðir Sigurbjarnar áttu eftir að verða
miklu fleiri: 1905 (á alþjóðaþing Christian Endeavours í Berlín), 1909, 1914
(fulltrúi Íslands á hástúkuþingi í Osló), 1918 til Kanada (í boði ísl. lúthersku
kirkjufélaganna), 1920, 1923, 1928 (á þing KFUK í Búdapest), 1932, 1936 (á þing
Sunnudagaskólanna í Osló), 1947 (á fund Sameinuðu Biblíufélaganna í Skotlandi),
1951 (Jórasalaför), 1956 og 1957, en þessar ferðir fór hann aðallega til að
kynnast kristindóms-, mannúðar- og uppeldismálum og sækja norræna fundi um
líknar- og trúmál "og eignaðist með þessum hætti víðan sjóndeildarhring og mikla
þekkingu" (ÞSt); flutti hann þá oftast mörg erindi um Ísland og trúarefni. Í fyrstu utanförinni veitti hann því athygli, að fólk, sem hann hitti, talaði um
trúarvissu, og fór þá að spyrja sjálfan sig, hvers vegna hann hefði ekki þessa
vissu; þá kom upp í hugann, að í Helgakveri er talað um fullvissu í trúnni á náð
og réttlætingu Guðs fyrir sakir Jesú Krists. Sigurbjörn ályktaði, að ekki væri
þetta trúarvilla, og baráttan í huga hans var á enda, er hann upplifði þessa
vissu á fjölsóttri trúarsamkomu presta í stórri kornhlöðu, átti þar sína
"úrslitastund frammi fyrir frelsara sínum. Hann tók þá ákvörðun að hann skyldi
segja allt af létta um trú sína þegar hann kæmi til Íslands, hvað sem það
kostaði" (BA). Hér heima sem víðar á þessum tíma í norðurhluta Evrópu var aldamótaguðfræðin
(sem einnig kallaðist frjálslynda guðfræðin eða nýguðfræðin) í miklum uppgangi
meðal kirkjumanna. Báru fulltrúar hennar brigður á sannleiksgildi Biblíunnar og
töldu sumir sig geta teflt fram trúarkenningu Jesú gegn kenningu postulanna,
drógu meginatriði trúarjátninganna í efa og jafnvel "hvort nokkuð væri hæft í
lýsingum guðspjallanna á ævi Jesú eða hann hefði yfirleitt verið til" (BA).
Hafði Jón Helgason fyrstur bent Sigurbirni á misfellur nýguðfræðinnar. Heim
kominn átti hann kost á prestsembætti hjá kirkjufélagi Vestur-Íslendinga, en
hafnaði því. Einnig bauðst honum stuðningur til stofnunar alþýðuskóla á Íslandi,
en hafnaði því líka, sem og að gerast prestur Þjóðkirkjunnar. Hann hafði tekið
þá ákvörðun að vinna sem guðfræðilærður leikmaður (JKÍ). Mun hann lengst af
eftir þetta hafa framfleytt sér og sinni stóru fjölskyldu með kennslu, ásamt
nokkrum styrk fyrir sum þeirra verkefna sem hann tók að sér í kristilegu starfi.
Var hann stundakennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1897?1900, 1902?4 og
1907?19, en kennslugreinar hans þar voru stærðfræði, náttúrufræði, latína, saga,
íslenzka, danska og eðlisfræði. Þá kenndi hann við barnaskólann í Reykjavík árin
1902 og 1903, æskulýðsskólann að Bergsstaðastræti 3, Rvík, 1904?6, við
Kennaraskólann 1908?9 og kenndi stærðfræði við Verzlunarskólann 1920?21. Hann
var settur aukakennari við Vélstjóraskóla Íslands 1915, skipaður frá ársbyrjun
1917 og fekk lausn frá því starfi frá 1. okt. 1945, þá nær sjötugu. Þar kenndi
hann bæði stærðfræði og eðlisfræði við góðan árangur, og minntust nemendur hans
með virðingu. En í kennslu sinni fyrir yngra fólkið gaf hann út sex litlar
reikningsbækur, 6 hefti á árunum 1911?14, og komu sum þeirra í fleiri útgáfum,
svo vinsæl voru þau, þóttu skýr og auðveld í notkun (JKÍ). Víkjum aftur frá starfsferli hans að heimahögum og hugsjónastörfum. Hann gekk að
eiga hæfileikamikla hugsjónakonu, Guðrúnu
Lárusdóttur, árið 1902, og eignuðust þau til ársins 1924 tíu börn, en þrjú
þeirra dóu í bernsku. Var heimili þeirra fyrst að Þingholtsstræti 3 og um tíma
að Þingholtsstræti 11, en svo byggðu þau húsið Ás við Sólvallagötu (eftir
æskuheimili hans í Hjaltadal), næst húsinu Hofi, þar sem foreldrar Guðrúnar áttu
heimili, og fluttust þangað inn árið 1906. Síðar átti mikið áfall eftir að
skella á fjölskyldu þessari með óbætanlegu manntjóni. Eftir heimkomuna frá Danmörku "fer hann fljótlega að taka til hendi í kristilegu
starfi og byrjar að vitna um frelsara sinn. Hann leggur land undir fót, heldur
fyrirlestra og prédikar og breiðir út kristilegar bækur, sem mikil þörf var á,
m.a.s. meðal presta, sem tóku honum mjög vel, að hans eigin sögn, jafnvel þrátt
fyrir ólíkar skoðanir, "og aldrei kom til verulegra átaka" að hans eigin sögn
(VSV).
Prestum sem öðrum útvegaði hann kristileg rit, guðspjöll, Biblíur o.fl. á
ýmsum tungum. Hann var formaður Kristilegs smáritafélags 1904?06 og Kristilegrar
safnaðarstarfsemi í Rvík 1906?08. Þá var hann meðal stofnenda kristilega
tímaritsins Bjarma 1907 og varð seinna ritstjóri þess (1918?35) og eigandi, en
fól það svo á hendur áhugasömum heimatrúboðsmönnum (sjá
BA, bls. 22). "Hann sótti um fjárstyrk til danska heimatrúboðsins, þó að
margir hér á landi töluðu illa um það, og veittu Danir honum þúsund króna styrk
á ári í 20 ár" (BA). Með þeim styrk (frá 1902 til 1925) og öðrum (1902?12) frá
Friðriki konungi VIII ferðaðist hann um landið í hartnær 30 sumur til að flytja
kirkjuræður og vekja áhuga á kristilegu sjálfboðastarfi innan Þjóðkirkjunnar.
Hann hóf sjálfur útgáfu smárita, og var fyrsta ritið Jólagjöfin (1901), með
þýddum sögum. "Einn veturinn [1901?2] predikaði hann annan hvern sunnudag í
Dómkirkjunni. Sama vetur hélt hann samkomur í góðtemplarahúsinu með Friðriki
Friðrikssyni æskulýðsleiðtoga og hugsjónakonunni miklu, Ólafíu
Jóhannsdóttur. Hann stofnaði félag þar sem þátttakendur stóðu fyrir utan
illræmda drykkjukrá í bænum og reyndu að tala um fyrir mönnum sem ætluðu þangað
inn. Þetta starf bar þann árangur að kránni var lokað" (BA). Það tengist einnig
því líknarstarfi hans að vinna í þágu fátækra, fanga og atvinnulausra. Sigurbjörn var fulltrúi Biblíufélags Skotlands 1910?45 og Brezka og erlenda
Biblíufélagsins 1920?47. Formaður sóknarnefndar Dómkirkjusafnaðarins 1917?47 og
sat í þeirri nefnd öll árin 1908 til 1950. Formaður Samverjans í Rvík 1913?23,
en það var stórtækt mannúðarfélag á sinni tíð. Formaður stjórnar Elliheimilisins
frá 1923, Sjómannastofunnar í Rvík 1930?58 (í stjórn frá 1923), formaður
sóknarnefnda- og prestafunda 1925?34 og sat í undirbúningsnefnd hinna almennu
kirkjufunda (sem voru hugmynd hans) frá 1934 til 1950, formaður 1947?50. Hann
var formaður Kristniboðsfélags karla í Rvík um 12 ár og fyrsti formaður Sambands
íslenzkra kristniboðsfélaga (SÍK), 1927?37, seinna gerður að heiðursfélaga. Sat
í stjórn Hins íslenzka Biblíufélags frá 1946 til dánardags. Var skipaður í nefnd
til að gera tillögur um uppeldi vangæfra barna 1930. Formaður Barnaverndarráðs
Íslands 1932?36. Féhirðir Líknarsjóðs Íslands 1946?dd. Þá var hann stofnandi og
formaður Finnlandshjálparinnar 1945?50 og 'Bræðrahjálpar' íslenzkra presta, sem
sá um fatagjafir til norska presta 1945 og ungverskra presta 1957 (en þegar þar
var komið sögu, hafði hann sjálfur tekið prestsvígslu, 1942). Hér hafa þá verið talin upp hin meiri háttar opinberu störf, sem hann innti af
hendi, m.a. að félagsmálum. En Sigurbjörn var ótrúlega starfssamur maður og
hugkvæmur, eins og ýmsir hafa borið vitni um, og sá þess miklu víðar stað en hér
er komið fram. Þar á meðal voru tvær merkar hugmyndir sem hann kynnti í
sóknarnefnd Dómkirkjunnar 1932, önnur um "foreldrasamband kristinna foreldra",
hin um athugun á ráðningu karls eða konu til heimsókna í söfnuðinum, "líkt og
leikir sálgæzlumenn geri í söfnuðum erlendis," en um þetta talaði hann fyrir
daufum eyrum (ÞSt). "Á sameiginlegum fundi presta og sóknarnefndar Dómkirkjunnar
og prests og safnaðarstjórnar Fríkirkjunnar haustið 1936 vildi Sigurbjörn
Ástvaldur láta athuga hversu rík ástæða væri til að stofna hér "kristilegt
útvarpsnotendafélag" líkt og þá hafði verið gert á öðrum Norðurlöndum. Voru
tveir menn settir til að vinna að málinu, en framkvæmdir urðu engar, vegna þess
að hann gat ekki verið alls staðar sjálfur." Þá hafði hann "manna beztan
skilning á þörf presta til endurmenntunar og ekki sízt þörf þeirra fyrir að
kynna sér safnaðarlíf og þjónustu hjá kirkjum annarra þjóða. Beitti hann sér
fyrir því, að prestum safnaðarins stóð til boða styrkur til slíkra ferða öðru
hvoru" (ÞSt). Og hann barðist ekki aðeins fyrir trúna og eflingu kristins siðar.
Hann hafði mikla samúð með einstæðingum, fátæklingum, föngum og öðrum, sem áttu
við erfiðleika að stríða, sat í mörgum nefndum sem komið var á laggirnar til að
hjálpa slíku fólki og varð umfram allt upphafsmaður elliheimilisins Grundar. Allt frá því að hann hóf að annast barnaguðsþjónustur með guðfræðistúdentum árið
1897, vann hann að almennu trúmálastarfi, m.a. í sunnudagaskólum í Rvík í um 40
ár og í starfi kristniboðsfélaga. Hvatti hann presta mjög til að stofna og
starfa við sunnudagaskóla, og gerðu það nokkrir, auk þess sem leikmenn störfuðu
þar. Þá útvegaði hann sömu skólum ýmis gögn til notkunar við þar starf og var
þegar árið 1906 orðinn einkasali á Íslandi að "Ljósgeislum", hinum alkunnu
smámyndum úr Biblíunni; á baki þeirra voru ritningartextar með spurningum og
svörum á íslenzku, en þessu var útbýtt í sunnudagaskólum í meira en hálfa öld
(alls voru það 40 samstæður með þrettán myndum í hverri samstæðu). Hann gekkst
fyrir því, að dönsk sunnudagaskólabörn sendu íslenzkum börnum fallegt,
myndskreytt rit, Jólakveðju, á hverju ári 1911?39 (nema 1918); frumsamdi hann
sjálfur mikið af efni hennar. Formaður sunnudagsskólanefndar Þjóðkirkjunnar var
hann 1943?48. Í Góðtemplarareglunni var hann regluboði sumrin 1897 og 1898, og til eru
líflegar svipmyndir úr ferðum hans í 25 ára minningarriti reglunnar. Hann var
umdæmistemplar í Rvík í nokkur ár og í framkvæmdanefnd Stórstúku Íslands 1914?15
og 1926?7. Voru þau hjónin voru bæði þátttakendur í reglunni, sem studdi ýmis
mannúðarmál. "Á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar varð mikið atvinnuleysi og
dýrtíð. Marga skorti fæði og skæði. Þá var stofnuð nefnd innan reglunnar. Hún
var kölluð Samverjanefnd og safnaði fötum og úthlutaði meðal þurfandi fólks. Hún
gaf fátæku fólki málsverð í matstofu, sem hún kom á fót," (BA) og hélt nokkrar
fjöldaskemmtanir með veitingum. "Þau 10 ár, sem Samverjinn starfaði, gáfust
honum alls 56.000 kr. í peningum og matvörum," ennfremur var úthlutað kolum,
matvælum og söfnunarfé. Allt starf nefndarinnar og vinna við framleiðslu o.fl.
var unnið endurgjaldslaust (JKÍ). Hjálpin var einkum ætluð fátækum börnum og
gamalmennum, og lögðu prestar Reykjavíkursafnaðanna félaginu drjúgt lið með
söfnun á peningum og mat (ÞSt). "Þegar nefndarmenn voru að störfum, kynntust
þeir bágum kjörum margra gamalmenna. Samverjanefndin hóf að vinna að því að koma
upp elliheimili. Nefndin náði settu marki. Elliheimilið Grund varð til í húsi
við Kaplaskjólsveg í Reykjavík. Þar voru átta svefnstofur fyrir 23 vistmenn.
Heimilið var vígt 29. október 1922" (BA) við hátíðlega athöfn, þar sem ræðumenn
voru séra Jóhann Þorkelsson dómkirkjuprestur, séra Bjarni Jónsson, Sigurður
Jónsson, settur borgarstjóri, Ólafía Jóhannsdóttir og Sigurbjörn Á. Gíslason.
María Pétursdóttir var ráðin forstöðukona, en hún hafði verið fyrsta ráðskona
Samverjans. Meðalaldur umsækjenda var 79 ár, en vistgjöldin 2 kr. til 2,50 á
dag. Þörfin á slíkri þjónustu knúði Sigurbjörn og samverkamenn hans bráðlega til
að byggja mun stærra hús. Eftir ótrúlega baráttu og þrautseigju var Grund við
Hringbraut í Reykjavík vígð árið 1930, en Knud Zimsen borgarstjóri hafði lagt
til að elliheimilið fengi þá lóð. Var Sigurbjörn jafnan formaður stjórnarinnar,
en fyrsti ráðsmaður var Haraldur Sigurðsson. Þegar hann lézt 1934, bað
Sigurbjörn son sinn, Gísla, 27 ára, að taka að sér ráðsmennskuna til
bráðabirgða. Svo fór, að Gísli, sem var Verzlunarskólamaður með framhaldsnám úr
Þýzkalandi og reynslu af rekstri hér heima, ílentist í stöðunni upp frá því og
reyndist snjall rekstrarstjóri. Saman höfðu þeir feðgar því stjórn mála á Grund.
Þann 23. ágúst 1942 var Sigurbjörn vígður prestsvíglu sem heimilisprestur
Grundar, og gegndi hann því starfi til dánardags. Má það heita langur ferill (um
27 ár) í prestsþjónustu hjá manni, sem vígðist til hennar 66 ára gamall, um það
leyti sem 21. aldar maðurinn fer á eftirlaun. Frá upphafi var starfið á Grund
rekið í kristilegum anda; helgistundir, kristniboðskynning og guðsþjónustur
settu svip sinn á heimilislífið, og þar hafa aðrir prestar haft sérþjónustu að
Sigurbirni gengnum. Í ágústmánuði 1938 varð Sigurbjörn fyrir því mikla áfalli að missa konu sína og
tvær dætur í hörmulegu slysi, þegar bíll þeirra steyptist út í Tungufljót á leið
þeirra frá Geysi til Gullfoss. Bílstjórinn og Sigurbjörn björguðust, en gátu
ekki bjargað mæðgunum. Var önnur dóttirin með barni. Eftirminnilegur var
trúarvitnisburður Sigurbjörns á næstu dögum og vikum eftir þessa hrikalegu
atburði, bæði í kirkjugarðinum við jarðarförina og predikun hans í útvarpi
skömmu síðar. Yfirskrift orða hans var: "Drottinn var í djúpinu." Ritstörf Sigurbjörns voru margháttuð, bæði þýðingar og frumsamin rit, svo sem
Smásaga úr Reykjavíkurlífinu (1902), George Müller (1911), Frá Titanic-slysinu
(1912), Um Zinsendorf og bræðrasöfnuðinn (1912), Nýtt og gamalt I?V (1913?19),
Sonur hins blessaða (1927), Aðalmunur gamallar og nýrrar guðfræði (1928),
Hegningarhúsvistin í Reykjavík (1928), Drottinn var í djúpinu (1938),
Höggormseðlið segir til sín (1939) og Elli- og hjúkrunarheimilið Grund 10 ára
(1940). Einnig greinar í blöðum, tímaritum og safnritum. ? "Sigurbjörn var það
vel að sér í grísku og í fræðum um forn handrit Biblíunnar, að hann leyfði sér
að gagnrýna opinberlega nýja þýðingu Biblíunnar á íslenzku skömmu eftir
aldamótin og taldi sig sjá þar fingraför nýguðfræðinnar, enda fór svo, að
Biblíufélagið stöðvaði söluna og lét gera breytingar á þýðingunni samkvæmt
tillögum hans" (BA). Honum hlotnaðist ýmis heiður um dagana: Heiðursfélagi Stórstúku Íslands, Brezka
og erlenda Biblíufélagsins, Hins ísl. Biblíufélags og SÍK. Riddari Fálkaorðunnar
1930 og stórriddari 1947. Kommandör Dannebrogorðunnar. Kommandör Ljónsorðunnar
finnsku 1948. La Croix de Merité Hongroise 1930. Þrátt fyrir margháttaðan heiður var séra Sigurbjörn afar yfirlætislaus maður.
"Ég hef aðeins einu sinni orðið móðgaður, það var þegar ég var lokaður úti úr
tugthúsinu. ? Ég hafði í mörg ár heimsótt fangana, en var allt í einu bannað
það. ? Nú held ég því áfram." Svo mælti hann í viðtali við Vilhjálm S.
Vilhjálmsson árið 1955 og var þá nær áttræðu. Sýnir þetta vel elju og ósérhlífni
þessa alþýðlega manns í hugsjónastarfi hans. Hann andaðist 2. ágúst 1969, 93 ára gamall. "Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason vildi
byggja líf sitt á trúnni á Jesúm Krist og hjálpræði hans. Hann fól frelsaranum
alla hluti og þráði að láta gott af sér leiða meðal samferðamannanna, ekki sízt
þeirra sem minna máttu sín. Þetta mótaði allt líf hans. Allt fram á þennan dag
hefur Guð veitt blessun af því starfi sem hann studdi og veitti forystu. Þess
vegna er hans minnzt með þakklæti og virðingu" (BA). Kona hans (27. júní 1902),
Guðrún
Lárusdóttir, f. 8. jan. 1880, d. 20. ág. 1938, rithöfundur og síðar
alþingiskona, var dóttir hjónanna Kirstínar Pétursdóttur, tónskálds og organista
Gudjohnsen, og manns hennar sr. Lárusar Halldórssonar fríkirkjuprests. Börn
þeirra voru tíu: Lárus (1903?1974), cand. phil., skjalavörður í Rvík, Halldór
Ástvaldur (1905?1983), verzlunarftr. þar, Kristín Guðrún (1906?1908), Gísli, f.
1907-1994, forstjóri Grundar, Kristín Sigurbjörg (1909?1919), Friðrik Baldur
(1911?1988), stórkaupmaður í Rvík, Kirstín Lára,
(1913 - 2005) gift Ásgeiri dýralækni
Einarssyni, Guðrún Valgerður, f. 1915, drukknaði með móður sinni 1938, gift
Einari auglýsingastjóra Kristjánssyni, Sigrún Kristín, f. 1921, drukknaði einnig
1938, ógift, Gústav (1923?1925). Jón Valur Jensson tók saman. Heimildir: Jón Kr. Ísfeld (ritstj.): Afkastamikill mannvinur ? starfssaga séra Sigurbjörns
Á. Gíslasonar, Rvík 1976 (172 bls., þar af 40 bls. eftir aðra höfunda, sem eru:
sr. Finn Tulinius, sr. Ágúst Sigurðsson, Jón Gunnlaugsson, Guðrún Guðmundsdóttir
frá Melgerði, Gísli Sigurbjörnsson, sr. Helgi Hálfdanarson, sr. Lárus
Halldórsson og sr. Ingólfur Ástmarsson). JKÍ = þáttur ritstjórans, s. 5?130. Sr. Björn Magnússon: Guðfræðingatal 1847?1976, 353?5. Kennaratal á Íslandi II, 111?12; V, 143. Kvennaskólinn í Reykjavik 1874?1974 (Rvík, Almenna bókafélagið, 1974), bls. 292.
Tuttugu og fimm ára minningarrit góðtemplara á Íslandi, 1884?1909, Rv. 1909, s.
152?3. BA = sr. Benedikt Arnkelsson: Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason ? líf hans mótaðist
af trúnni, Heimilispósturinn, 34. árg., 9.-12. tbl., sept.?des. 1998, s. 15?22
(úr erindi sem höf. flutti á fundi í KFUM, er haldinn var í Ási, Hveragerði, í
marz 1998) = http://www.grund.is/posturinn/hp1298.pdf Stærðfræðingur og stríðsmaður Guðs (viðtalsþáttur, skráður 1955), í: Vilhj. S.
Vilhjálmsson: Grær undan hollri hendi. Tuttugu og átta viðtöl og frásagnir,
Setberg, Rv. 1964, s. 171?6. Sr. Þórir Stephensen: Saga Dómkirkjunnar (1996), þ.e. þessi kafli bókarinnar,
sem er á netinu: Líknarþjónustan í samfélaginu (m.a. sérþáttur um SÁG: Kristinn
vökumaður), http://www.domkirkjan.is/B042.html Ýtarlega skrá um bækur, þýðingar og greinar séra Sigurbjörns er að finna í
Guðfræðingatali, Kennaratali og bókinni Afkastamikill mannvinur (129?30).
|