Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Guðrún Lárusdóttir
Heimili:
Ási
Fæðingardagur:
08-01-1880
Staða:
Alþingismaður
Dánardagur:
20-08-1938
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
27-08-1938
Reitur:
V-108
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Þessi grein er kostuð af KGRP.

Guðrún Lárusdóttir
Hugsjónarkona, þingmaður og rithöfundur


Guðrún Lárusdóttir var fædd 8. janúar 1880 á Valþjófsstað í Fljótsdal, dóttir Lárusar Halldórssonar, prófasts þar og alþingismanns, síðar fríkirkjuprests í Reykjavík, og k.h. Kirstínar Katrínar Pétursdóttur organleikara Guðjohnsens. Voru þau af ýmsum af þekktustu ættum landsins, og erfði Guðrún lifandi trú úr báðum ættum. Hún naut ágætrar fræðslu í föðurgarði eins og systkini hennar öll. Hún var húsfreyja í Ási á Sólvöllum í Reykjavík frá 1906 til æviloka, var einnig rithöfundur, virkur leikmaður í kristilegu starfi, vann að safnaðar- og bindindismálum og lagði mikinn skerf til félags- og mannúðarmála. Var hún einn helzti oddviti kvenna í þeim efnum. Um hana var sagt: "Hún var óvenjuleg kona, að ýmsu leyti talsvert lík Ólafíu Jóhannsdóttur. Guðrún var rithöfundur, Ólafía ágætlega ritfær. Báðar voru flugmælskar, höfðu ríka líknarlund, gátu ekkert bágt séð, risu gegn hvers konar spillingu og óréttlæti af brennandi vandlætingu og létu ekkert á sig fá, þó að því væri stundum misjafnlega tekið." Guðrún var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1912-18 og í skólanefnd jafnlengi. Fátækrafulltrúi var hún 1912-23 og aftur frá 1930 til æviloka 1938. Hún var landskjörinn alþingismaður frá 1930 til dánardags. Var í stjórn KFUK frá 1922 og formaður 1928-38. Þá var hún formaður Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík frá 1926, sömuleiðis til æviloka. Var félagi í IOGT frá 1899 og starfaði þar talsvert um hríð. Hún stóð að stofnun Húsmæðrafélags Reykjavíkur og var fyrsti formaður þess 1935-38. Frú Guðrún drukknaði ásamt tveimur dætrum sínum í Tungufljóti 20. ágúst 1938. Var það eitt fyrsta mikla bílslys á Íslandi, áfall fyrir marga og þótti mikið tjón landinu. Sr. Friðrik Hallgrímsson lýsti henni svo í líkræðu, að hún "sameinaði á aðdáunarverðan hátt trúaralvöru og bjartsýnt glaðlyndi."

Ritstörf Guðrúnar voru henni bæði nautn og nauðsyn og öfluðu henni vinsælda víða um land. Frumsamdar bækur hennar: Ljós og skuggar I-III, 1903-5, Sólargeislinn hans, 1905 og aukin 1938, Fermingargjöfin, 1906, Sönn jólagleði, 1912, Á heimleið, 1913 (dönsk þýðing 1916), í leikformi Lárusar Sigurbjörnssonar 1939, Sigur, 1917, Tvær smásögur, 1918 (færeysk þýðing 1957), Brúðargjöfin, 1922, Fátækt, Þess bera menn sár I-III, 1932-35, Systurnar, 1938, og Ritsafn I-IV (skáldsögur fyrir unglinga, erindi og hugvekjur, alls yfir 1600 bls., en þó ekki með öllum verkum hennar), 1949. Þýddar bækur hennar voru: Spádómar frelsarans, 1900, Tómas frændi eftir H.B. Stowe, 1901, hluti af Sögum eftir Topelius, 1919, og Móðir og barn (endursamin), 1932.

Guðrún giftist árið 1902 Sigurbirni Ástvaldi Gíslasyni, stofnanda og forstjóra Elli- og hjúkrunarheimilisins Grundar, sem síðar tók vígslu sem heimilisprestur þar. Þau áttu tíu börn, þar af fimm sem dóu á barnsaldri eða ung og barnlaus, en meðal hinna voru Lárus rithöfundur og borgarskjalavörður og Gísli í Ási, forstjóri Grundar. Fleiri meðal barna og afkomenda þeirra hjóna hafa verið þekktar persónur í þjóðlífinu.


Helztu heimildir:
Hver er maðurinn? I. bindi, bls. 239.
Reykjavík. Bæjar- og borgarfulltrúatal 1836-1936, bls. 103.
Alþingismannatal 1845-1975, 145.
Íslenzkar æviskrár II, 198.
Knudsensætt II, 392-405 (þau hjónin og niðjar þeirra).
Lárus Sigurbjörnsson: 'Móðir mín -- tilraun til lýsingar og skilnings', í ritinu Móðir mín, Rv. 1949.
Æviminningabók Menningar- og minningarsjóðs kvenna, I (1955), 107-9 (eftir mann hennar).
Sr. Jón Kr. Ísfeld: Afkastamikill mannvinur, starfssaga séra Sigurbjörns Á. Gíslasonar (1976), bls. 15 og 85.


Jón Valur Jensson ættfræðingur tók saman.
 

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10996
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is