Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Tryggvi Þórhallsson
Heimili:
Laufási
Fæðingardagur:
09-02-1889
Staða:
Bankastjóri
Dánardagur:
31-07-1935
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
10-08-1935
Reitur:
I-210
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Þessi grein er tekin kostuð af KGRP.

Framkvæmdaglaður forsætisráðherra 1927?32:
Tryggvi Þórhallsson

Tryggvi Þórhallsson var fæddur í Reykjavík 9. febrúar 1889, elztur fjögurra barna Þórhalls (1855?1916) biskups og alþm. Bjarnarsonar, prófasts og skálds í Laufási, Halldórssonar, og voru forfeðurnir hver merkispresturinn eftir annan. Móðir Tryggva og kona biskups var Valgerður (1863?1913) Jónsdóttir, bónda á Bjarnastöðum í Bárðardal, Halldórssonar, en hún var fósturdóttir Tryggva Gunnarssonar bankastjóra og alþingsmanns. Þorkell Jóhannesson sagnfræðiprófessor kvað "það staðreynd, að úr Þingeyjarsýslu komu þeir menn tveir, sem á síðara hluta 19. aldar, og reyndar nokkru lengur, höfðu einna djúptækust áhrif um viðreisn og endurnýjung atvinnuvega vorra, þeir Tryggvi Gunnarsson og Þórhallur Bjarnarson. Það er hvorki sanngjarnt né reyndar unnt að skýra og meta ævi og starf Tryggva Þórhallssonar, án þess að minnast að nokkru þessara manna, er honum stóðu næstir allra, annar faðir hans, en hinn fóstri móður hans, nafni og náinn heimilisvinur í uppvexti." Segir Þorkell ekki orka tvímælis, að "hann var frá upphafi fast mótaður af áhrifum frá æskuheimili sínu og föður sínum fyrst og fremst." Var hinn glæsilegi gáfumaður Þórhallur áhrifamikill á þeim 32 árum sem hann var forstöðumaður prestaskólans og biskup landsins, en einnig sem baráttumaður fyrir bændastéttina og frumkvöðull að framförum í búskaparmálum, en sjálfur var hann þróttmikill framkvæmdamaður, sem hóf starfsferil sinn sem formaður á þilskipi, en um 20 ára skeið rak hann eitt af blómlegustu búum landsins á býli sínu Laufási í Reykjavík (sem Laufásvegur er kenndur við), var einn helzti hvatamaður að stofnun Búnaðarfélags Íslands, sat í stjórn þess alla tíð og áhrifamestur um öll þess efni, auk fleiri starfa í þágu landbúnaðarins; ennfremur var hann alþingismaður um 12 ára skeið. "Við handleiðslu og áhrif þessa manns, á stórbýlinu við bæinn, óx Tryggvi Þórhallsson upp" (ÞJ). Var hann tíður fylgdarsveinn í ferðum hans um landið, bæði á þingmannsárum í Borgarfirði og biskupstíð. Öðlaðist hann þar auga fyrir fegurð náttúrunnar og gagnsemi landsins, aðdáun á menningu bænda og umhyggju fyrir hag þeirra, sem fylgdi honum æ síðan.


Tryggvi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 30. júní 1908 með 1. einkunn. Nam svo guðfræði við Hafnarháskóla 1908?9, varð cand. phil. þar 1909 og cand. theol. frá Háskóla Íslands 19. júní 1912 með 1. einkunn. Fór hann á kristilegt stúdentamót í Noregi sama ár. Eftir Hafnarvistina vann hann mikið starf í Ungmennafélagi Reykjavíkur og átti sæti í ritnefnd Skinfaxa. Starf ungmennafélaganna stóð þá í miklum blóma, og fekk hann þar "sína fyrstu tamningu í félagsstarfi og forgöngu um sameiginleg mál æskunnar," varð þar einn af forystumönnum um hríð, enda "félagslyndur og undi sér vel innan um margmenni og var þar hrókur alls fagnaðar" (ÞJ). Varð samvinna þessi afdrifarík, því að margir þeirra, sem síðar fylktu liði um hann í stjórnmálum, höfðu kynnzt honum í ungmennafélagshreyfingunni. Var Tryggvi glaðvær maður, fullur af "krafti og fjöri, sem örvaði alla, er á mál hans hlýddu," og naut hann þess síðar í stjórnmálastarfi, ennfremur var hann "fríður sýnum og mikill á velli og þótti snemma hinn glæsilegasti maður, og laðaði þetta enn að honum menn" (ÞJ).


Tryggvi var biskupsritari og kennari við Barnaskólann í Reykjavík 1912?13, en síðan settur sóknarprestur í Hestþingaprestakalli í Borgarfirði 23. júní 1913, vígður 23. sama mánaðar og veittur Hestur 16. sept. sama ár; fekk lausn frá prestsskap 17. nóv. 1917 frá 1. júní 1918. Á Hesti gerðist hann framkvæmdasamur í búskap og naut þar fyrirmyndar úr föðurgarði, en einnig þess, að "hann sat þar hið næsta frænda sínum og mági, Halldóri Vilhjálmssyni [skólastjóra] á Hvanneyri, er sjálfur var einn hinn ötulasti búmaður sinnar tíðar og áhugamikill framkvæmdamaður" (ÞJ). Var Halldór kvæntur systur Tryggva, Svövu kennara, en hin systirin, Dóra, var kona Ásgeirs Ásgeirssonar, sem eins og Tryggvi var í senn guðfræðingur, kennari og alþingismaður, en síðar forseti Íslands.


Í Tryggva Þórhallssyni var mikil hneigð til sagnfræðirannsókna (einkum kirkjusögu) og kennslu. Þegar faðir hans andaðist, aðeins 61 árs, urðu breytingar á embættum við háskólann, er Jón Helgason tók við sem biskup og Sigurði P. Sívertsen var veitt það prófessorsembætti, sem Jón hafði gegnt. Var dósentsembættið í guðfræði, sem Sigurður gegndi, þá auglýst, en um það sóttu Tryggvi Þórhallsson, Ásmundur Guðmundsson (síðar prófessor og biskup) og Magnús Jónsson (síðar alþm. og prófessor). En Tryggvi hafði þá í millitíðinni verið settur sem dósent frá 18. des. 1916 (til 25. sept. 1917). Magnús varð hlutskarpastur, dómnefndin úrskurðaði hann "hæfastan að öllu athuguðu, en taldi þó, að háskólinn gæti verið fullsæmdur af hverjum umsækjendanna sem væri í kennaraembætti og lét þess sérstaklega getið, að ritgerð Tryggva Þórhallssonar bæri vott um einkar góða sagnaritarahæfileika" (ÞJ). Verkefnið í prófritgerð þessari var "aðdragandi og upptök siðaskipta, afstaða Gissurar biskups Einarssonar til kathólsku biskupanna, Ögmundar og Jóns, annars vegar, og konungsvaldsins hins vegar." Er ritgerð Tryggva ein þeirra þriggja til að hafa komið út á bók (reyndar löngu eftir hans dag). Töldu ýmsir, að við gætt gefði rangsleitni við stöðuveitingu þessa, "því að Tryggvi hafði kennt í deildinni við góðan orðstír og var talinn ágæta vel fallinn til guðfræðikennslu" (AK). Víst er, að þessi úrslit urðu Tryggva mikil vonbrigði, eftir að hafa yfirgefið söfnuð sinn og bú háskólastarfsins vegna, því að hann hafði við kennslu sína lagt grundvöll að ýtarlegum rannsóknum á kirkjusögu Íslands og tókst reyndar aldrei síðan að leggja með öllu á hilluna þrátt fyrir margháttuð ólík störf. En um leið má segja, að hér hafi átt sér stað afgerandi skil í örlagasögu hans, því að vant er að sjá, að áframhaldandi háskólaferill hefði leitt til þess, að innan áratugar yrði hann valdamesti maður landsins.


Tryggvi hafði nú tekið við föðurleifð sinni Laufási, enda hafði bróðir hans, Björn, sem var bústjóri þar, fallið frá á 25. ári, stuttu áður en faðir þeirra dó. Var Tryggvi þar bundinn sterkum böndum. En nú dró að umskiptum í lífi hans. Hin nýju samtök Framsóknarflokkurinn, sem Jónas frá Hriflu, Gestur á Hæli og Hallgrímur Kristinsson höfðu haft forgöngu um 1916?17, stofnuðu eigið málgagn, Tímann, í marz 1917. Guðbrandur Magnússon var ráðinn til að ritstýra honum til bráðabrigða, en þegar brást að fá Héðin Valdimarsson til starfsins, varð að leita annars ritstjóra. Guðbrandur var góðvinur Tryggva, og svo vildi til, að hann var gestur hans, þegar úrslitin réðust um dósentsstöðuna. Taldi Tryggvi sig þá "á krossgötum og yrði að hverfa að nýjum úrræðum, því að honum mundi verða þungt fyrir fæti að starfa á vegum kirkjunnar eftir þetta" (AK). Guðbrandur lagði þá að honum að verða ritstjóri Tímans. Kom það Tryggva á óvart, en gaf jáyrði sitt við því daginn eftir, að Guðbrandur hreyfði málinu við Tímamenn. Þótti þeim og Jónasi þetta happafengur, er fréttu, og stuðningsmenn fögnuðu honum mjög. Var hann ritstjóri blaðsins frá hausti 1917 til ágústmánaðar 1927, allt til þess er hann tók við starfi forsætisráðherra. "Þegar Tryggvi Þórhallsson tók við ritstjórn Tímans kom fram á sjónarsviðið einn frábærasti stjórnmálaforingi Íslands. Tryggvi var glæsilegur í sjón, fluggáfaður og fjöllesinn, einkum í íslenzkri sögu, léttur í lund og óvenjulega viðfelldinn í umgengni, afburða mælskumaður og áhugamikill að hverju sem hann gekk. Hann hafði flesta þá hæfileika til að bera, sem veitast aðeins fáum útvöldum og gera þá að sjálfkjörnum leiðtogum," sagði Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans, í bók sinni Sókn og sigrar. Kom fljótt í ljós, að hann var sókndjarfur í þjóðmálum "og þó svo léttvígur og vopnfimur, einkum í beitingu líkinga og dæma úr þjóðarsögunni, að unun var að. Flestar stjórnmálagreinar Tryggva frá þessum árum eru eins og snjallar ræður." Talaði hann þar jöfnum höndum til tilfinninga og skynsemi, var drengskaparmaður í umræðu og beitti ekki svigurmælum né persónuníði, heldur bar hreinan skjöld í starfi sem blaðamaður (AK). Jafnframt ritstjórninni var hann stundakennari í Samvinnuskólanum 1920?28 og var þar og á blaðinu samstarfsmaður Jónasar frá Hriflu. Voru þeir ólíkir menn, en bættu hvor annan upp í stjórnmálaskrifum og áttu ágætt samstarf á þeim árum. Lét Jónas svo um mælt, að öll ritstjórnarárin hafi aldrei heyrzt nein óánægjurödd um skrif eða ritstjórn Tryggva meðal samherja, en öllum fundizt einboðið og sjálfsagt, að hann væri öðrum færari til þess forystuhlutverks. Þótti hann og sjálfkjörinn sem aðalforingi flokksins, þegar hann tækifærið gafst til myndunar ríkisstjórnar. En rúm þrjú ár þar á undan stóðu hann og Jónas í afar höfðum flokkaátökum, eftir að Íhaldsflokkurinn tók við stjórnartaumum í marz 1924 undir forystu Jóns Magnússonar og síðar Jóns Þorlákssonar. "Stefnumunur stjórnar og stjórnarandstöðu hefur varla í annan tíma verið skýrari" (AK). Fann Tryggvi sér þá vígorðið: "Allt er betra en íhaldið," sem varð kjörorð Framsóknarmanna í þessari baráttu. "Stjórnmálaskrif þeirra Tryggva og Jónasar í Tímanum á árunum 1924?27 eru í raun fyrsti hiklausi og einbeitti stjórnarandróður sem háður var í íslenskri pólitík eftir flokkslínum" (AK).


Snemma árs 1918 hafði Tryggvi ritað hvatningargrein um hagi Búnaðarfélagsins og vildi efla það sem meginstoð búnaðarframfara á Íslandi. Með þeirri grein hans, samþykktum Þingvallafundar árið 1919, ákvörðunum Alþingis það sumar og á Búnaðarþingi hlaut félagið þann styrk sem þurfti til að stórefla starfsemi þess, m.a. til að veita bændum aðstoð sérfróðra ráðunauta. Tryggvi var fulltrúi á Búnaðarþingi frá 1919, í stjórn Búnaðarfélags Íslands 1924?35 og formaður þess öll árin 1925?35. Vann hann manna mest að eflingu félagsins og víðtækri þátttöku bænda í því. Hefur félagið heiðrað minningu hans með því að láta gera brjóstkynd af honum, steypta í eir. Áhrifa Tryggva kenndi m.a. í setningu jarðræktarlaganna árið 1923, og vann hann bændum áfram mikið lið á komandi árum, bæði sem blaðamaður, þingmaður, formaður Búnaðarfélagsins og landbúnaðarráðherra.


Hann var kosinn alþingismaður Strandamanna fyrsta vetrardag 1923 og var það allt til ársins 1934 (fyrir Framsóknarflokk og síðasta árið Bændaflokk, en náði reyndar ekki kosningu fyrir þann flokk 1934, þegar Hermann Jónasson felldi hann). Hann sat mörg ár í stjórn Framsóknarflokksins og var formaður hans 1927?32.


Í kosningunum 1927 fylgdu Tryggvi og Jónas stefnu sinni eftir með fundahöldum um land allt, og lagði Tryggvi þá mikið á sig, ferðaðist á hestbaki og varð oft að leggja nótt við dag til að halda áætlun, hvernig sem veðrum var háttað. Úr þeim harðsótta fundaleiðangri kom hann farinn að heilsu, var svo þungt haldinn af blæðingum innvortis, að óttazt var um líf hans. En hans glæsilega ræðumennska hafði unnið marga til fylgis við stefnu Framsóknarmanna, sem hrósuðu yfirburðasigri í kosningunum, fjölguðu þingmönnum sínum úr 15 í 19, en ríkisstjórnin féll. Með einróma samþykkt Framsóknarflokksins var Tryggva þá falin stjórnarmyndun. Við tók minnihlutastjórn þess flokks, en Alþýðuflokksmenn og einn óháður þingmaður sættust á að veita henni hlutleysi og jafnvel verja hana falli. Þann 28. ágúst 1927 var hann skipaður forsætisráðherra, atvinnu- og samgöngumálaráðherra, en var jafnframt fjármálaráðherra frá 12. des. 1928 til 7. marz 1929, var síðan forsætis-, dóms-, kirkju- og kennslumálaráðherra frá 20. apríl til 20. ágúst 1931, varð þá aftur forsætis-, atvinnu- og samgöngumálaráðherra. Var Jónas frá Hriflu í ríkisstjórn með honum auk fjögurra annarra, sem um skemmri tíma fylltu þessa þriggja manna ríkisstjórn. Meðal þeirra mála, sem Tryggvi hafði forgöngu um, voru efling nýrra mjólkurbúa, öflun rekstrarfjár handa landbúnaðinum til hinna nýju ræktunarframkvæmda, einkum með lögunum um Búnaðarbanka Íslands 1929, upphafið að vélvæðingu landbúnaðarins, vega- og brúagerð og símalagnir; einnig má nefna löggjöf um Áburðarverzlun ríkisins 1928 (sem tryggði bændum innflutning áburðar á hagstæðu verði, m.a. vegna nýræktunar), búfjárræktarlögin 1931, sem kváðu á um lögbundinn styrk til búfjárræktar, og endurskoðun ábúðarlaganna 1933. Þegar kreppan skall hér á upp úr 1930, féllu framleiðsluvörur bænda í verði um og yfir 50%. Komust þá margir í þrot um greiðslur af lánum sínum. Átti Tryggvi þá einna mestan þátt í undirbúningi kreppulaganna og kreppuhjálp landbúnaðarins. Tryggvi fekk lausn frá störfum 28. maí 1932, en gegndi þeim til 3. júní. Hann var forseti Sameinaðs þings 1933 og varaforseti þess 1927. Hann var skipaður í kæliskipsnefnd 1925; var starf hennar fólgið í breytingum á kjötverzlun Íslendinga við útlönd, með útflutningi frysts kjöts, og höfðu þær breytingar geysimikla þýðingu fyrir íslenzkan landbúnað. Þá var hann kosinn í Grænlandsnefnd og gengisnefnd 1925. Hann var formaður í stjórn Kreppulánasjóðs frá stofnun hans 1933 til æviloka 1935, vann mikið starf að undirbúningi laga um hann og að rannsóknum á högum landbúnaðarins. Hann var endurskoðandi Landsbankans um hríð.


Í næsta mánuði eftir að Tryggvi lét af störfum sem ráðherra var hann skipaður aðalbankastjóri Búnaðarbankans, 18. júní 1932, og gegndi því starfi til æviloka. Árið 1933 kom upp ágreiningur milli hans og ýmissa Framsóknarmanna, m.a. Jónasar, vegna skipunar nýrrar ríkisstjórnar o.fl., og leiddi það til þess, að nokkrir þingmenn og utanþingsmaðurinn Þorsteinn ráðherra Briem sögðu sig úr flokknum, og það sama gerði Tryggvi ásamt öðrum fylgismönnum og stofnaði með þeim Bændaflokkinn. Var hann formaður Bændaflokksins frá stofnun hans 1933 til æviloka. Þar sem hann náði ekki kosningu til þings 1934, en átti jafnframt við vaxandi heilsubrest að stríða, dró hann sig að mestu í hlé frá stjórnmálum. Sinnti hann einkum upp frá því stjórn Búnaðarbankans og Búnaðarfélagsins, sem og umsjón með framkvæmd kreppulöggjafarinnar um lánveitingu og skuldaskil bænda, en við straumhvörf þau, sem urðu á þeim árum í landbúnaðarmálum, tengist nafn hans helzt og hlutverk í íslenzkum stjórnmálum (ÞJ). Einnig átti hann stóran þátt í umbótum í samgöngumálum, sem kostuðu mikið fé og var framhaldið af miklu kappi. Hallmæltu sumir sjórninni fyrir "óspilunarsemi". Á heildina litið voru ríkisframkvæmdir og útgjöld mun meiri í stjórnartíð Tryggva en áður hafði verið. Taldi Þorkell Jóhannesson sagnfræðingur, að því hafi ekki einasta valdið hans mikla framkvæmdagleði og bjartsýni á að framkvæmdirnar yrðu lyftistöng nauðsynlegra framfara, heldur hafi hann einnig gengið fram í vitund þess, að allt frá kosningunum 1927, sem hófu hann til valda, hafði hann kennt þess sjúkdóms, sem átti aldrei eftir að skilja við hann til fulls og gæti á hverri stundu náð yfirhönd. "Hér var hver stundin dýrmæt manni, sem átti mikið verk fyrir höndum," og starfaði Tryggvi trúlega í þeirri vissu. En um þessa ungu og baráttuglöðu ráðherra, Tryggva og Jónas, segir Bergsteinn Jónsson sagnfræðingur: "Virtist engum standa á sama um orð þeirra og athafnir, sumir hófu þá til skýjanna, aðrir töldu heimsendi vísan, yrði þeim ekki komið frá og helst fyrir kattarnef." Sýnir þetta í hnotskurn þá hörðu baráttu, sem þá einkenndi íslenzk stjórnmál.


Á Alþingishátíðinni miklu 1930 var Tryggvi hinn glæsilegi höfuðsmaður þjóðarinnar, sem "lýsti friði og helgi Alþingis yfir nær þriðjungi alls landslýðs, er þá var viðstaddur" (ÞJ). "Luku allir upp einu máli um atgervi hans og forystuþrótt í þessum örlagasporum," ritaði Andrés Kristjánsson. "Vafalaust var þetta stærsta stundin á ævi hans," sagði Þorkell Jóhannesson, sem fór ítarlegum orðum um þetta í sinni ágætu ritgerð um Tryggva. Flutti þó Ásgeir Ásgeirsson aðalhátíðarræðuna á Lögbergi.


Þingrofsmálið er einn stærsti viðburðurinn í sögu konungsríkisins Íslands 1918?1944. Vorið 1931 dró til stórtíðinda vegna kosningalaga. Sjálfstæðis- og Alþýðuflokksmenn lögðu áherzlu á fjölgun þingmanna úr þéttbýli, en ríkisstjórn Tryggva bar fram frumvarp um stjórnarskrárbreytingu sem fæli í sér lækkun aldurstakmarks til kjörgengis og kosningaréttar niður í 21 ár og að fella niður landskjör. Um það voru allir þingflokkar sammála, en Framsóknarmenn stóðu gallharðir gegn breytingartillögu Alþýðuflokksmanna, sem m.a. kvað á um að fjölga þingmönnum Reykjavíkur um meira en helming til jöfnunar atkvæðavægis. Þá lýsti Alþýðuflokkurinn því yfir, að hann myndi greiða tillögu um vantraust á stjórnina atkvæði, ef fram yrði borið. Sex þingmenn Sjálfstæðisflokks báru fram vantrauststillögu 11. apríl. Skyldi umræða um hana standa 14. s.m. Á þeim þingfundi, sem var útvarpað, kvaddi Tryggvi sér hljóðs utan dagskrár, þegar eftir fundarsetningu Ásgeirs Ásgeirssonar, og las upp konungsbréf um að Alþingi væri rofið og nýjar kosningar boðaðar 12. júní. "Að því er best verður séð hefur Tryggvi Þórhallsson verið höfundur þeirrar ráðagerðar að rjúfa Alþingi áður en stjórnarskrárbreytingin og vantraust á ríkisstjórnina yrði samþykkt þar" (AK). Olli sú tilkynning miklu uppnámi í þingsalnum. Hrópuðu nokkrir um stjórnarskrárbrot, þar eð ekki væri búið að samþykkja fjárlög, og sumir höfðu í heitingum, en Ásgeir gekk þegar úr forsetastóli. Hélt Tryggvi fljótlega heim til sín í Ráðherrabústaðinn að Tjarnargötu 32, en nokkur mannfjöldi "fylgdi honum eftir með heitingum og hrópum" (AK). Þegar hann kom heim, upp á tröppurnar, stillti hann um sinn æsing mannfjöldans með stuttri ræðu þar sem hann á hógværan hátt skýrði ástæður sínar til þingrofsins. Voru áhrifatök hans slík, að hann fekk menn að síðustu til að hrópa húrra fyrir ættjörðinni. En næstu vikuna var heitt í kolunum. Var farin fjöldaganga að heimili Tryggva til að mótmæla þingrofinu og heimili hans "umsetið óvígum her sem lét ófriðlega" (AK). Bergsteinn Jónsson segir uppnám hafa verið "meðal almennings í Reykjavík, einkum kjósenda Sjálfstæðisflokksins, sem stóð dögum saman fyrir æsingum og ólátum við bústað forsætisráðherra." En í kosningunum fekk Framsóknarflokkurinn óvenjulegt þjóðartraust og hreinan meirihluta í Sameinuðu þingi, þó aðeins í krafti 35,9% kjörfylgis, með 21 þingmann kjördæmakjörinn, en Sjálfstæðisflokkur hlaut 43,8% atkvæða, þó aðeins 12 þingmenn kjördæmakjörna. Lá við borð, að Framsókn gæti myndað hreina meirihlutastjórn, en Tryggvi var áfram forsætisráðherra fram í júní á næsta ári. Við tók samsteypustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Ásgeirs Ásgeirssonar. Frá framhaldinu í ferli Tryggva hefur verið sagt hér á undan.


Tryggvi var maður vel ættfróður og sögufróður. Hann fekkst við rannsóknir um íslenzka kirkjusögu á 14. og 15. öld og var þar nokkuð á veg kominn. Eftir hann er til í handriti verikið Ættir Strandamanna. Samkeppnisritgerð hans vegna dósentsembættisins kom löngu síðar út á prenti: Gissur biskup Einarsson (Rvík, 1989). Grein hans: Brandur Jónsson biskup á Hólum, í Skírni, 97. árg. 1923, er til sérprentuð (Rv. 1923). Þá gaf hann út ritið Tryggvi Gunnarsson. Endurminningar (Rv. 1918, sérprent úr Tímanum). Hann var ritstjóri Tímans tíu ár (I. árg. 36. tbl.?XI. árg. 37. tbl.). Auk blaðagreina eru ýmis önnur skrif eftir hann á prenti: ein ræða í Mannfundum, Rv. 1954, greinar í Morgni, 9. árg. (um Harald Níelsson, áður pr. í Tímanum), Nýju kirkjublaði, 7., 10. og 11. árg. (þ.á m. greinarnar Þórður blindi, 1915, og Musteri Salómós, Sálnabindi og fjöruegg og Kristindómur og hernaður, 1916), í Óðni, 20. árg. 1924 (æviágrip Kristleifs Þorsteinssonar á Stóra-Kroppi), Skinfaxa, 2., 3. og 22. árg. (hann var í ritnefnd tímaritsins 1912?13, þ.e. 3. og 4. árgangs), Skírni 1919 (ritdómur um Árferði á Íslandi í 1000 ár eftir Þorv. Thoroddsen), 1929 (ritdómur um Dómkirkjuna á Hólum í Hjaltadal eftir Guðbrand Jónsson), 1936 (greinin Ómagahald og matgjafir) og allmargar greinar í Framsókn og Búnaðarritinu.


Tryggvi var heiðraður með ýmsum hætti. Hann hlaut stórkross Dannebrogorðunnar 1928, stórkross Fálkaorðunnar 1929, stórkross Leópoldsorðunnar belgísku, finnsku Hvítu rósarinnar, Norðurstjörnunnar sænsku og Krúnuorðunnar ítölsku.


Andrés Kristjánsson dró saman marga efnisþætti í meitlaðum dómi um Tryggva: "Hann var gáfað og menntað glæsimenni, áhrifaríkur kennimaður í þjóðkirkjunni, ritsnjall og gunnreifur þjóðmálaritstjóri, dáður flokksforingi og forsætisráðherra á einhverju mesta umbrota- og framfaraskeiði aldarinnar þegar þjóðin reis til stórvirkja og öflugrar framsóknar úr ösku fátæktar og kyrrstöðu." Í þessum dómi er þó litið fram hjá þeirri miklu vélvæðingu og framförum í sjávarútvegi, sem þá þegar hafði hleypt nýju blóði í íslenzkt atvinnulíf, stuðlað að örum vexti kaupstaða og myndun verkalýðsstéttar. En einhver mestu afrek Tryggva voru í þágu landbúnaðarins, sem tók þá að vélvæðast og naut við nýframkvæmdir bænda og margs kyns umbætur í framfaraátt þeirrar stjórnarstefnu sem Tryggvi og liðsmenn hans hrundu í framkvæmd. "Hann er í röð mikilhæfustu og áhrifamestu mótunarmanna hins íslenska, fullvalda ríkis á tímabilinu milli sjálfstæðisheimtar og lýðveldisstofnunar. Á skammri ævi auðnaðist honum það hvort tveggja að boða þjóðinni áhugamál sín og koma mörgum þeirra fram eða áleiðis til framkvæmda" (AK).


Hann andaðist langt fyrir aldur fram, 46 ára, þann 31. júlí 1935, og varð þjóð sinni harmdauði. Banameinið var innvortis blæðing, og hafði hann kennt þess meins síðan 1927, en engin bót varð á því ráðin. Kona hans (16. sept. 1913) var Anna Guðrún Klemensdóttir, f. 19. júní 1890, d. 27. jan. 1987, glæsileg mannkostakona, sem var honum nær jafnaldra, en lifði mann sinn rúma hálfa öld, dóttir Klemens Jónssonar, sýslumanns, bæjarfógeta og amtmanns á Akureyri, landritara, alþm. og ráðherra Íslands, og 1. k.h. Þorbjargar Stefánsdóttur sýslumanns Bjarnarsonar; var Anna hálfsystir Agnars Kl. Jónssonar sendiherra. Börn þeirra Tryggva (öll að auki skírð ættarnafninu Bjarnar, en notuðu það ekki) voru sjö talsins: Klemens (1914?1997), cand. polyt., hagstofustjóri, kvæntur Guðrúnu Steingrímsdóttur (rafmagnsstjóra, Jónssonar). Valgerður (1916?1995), skrifstofustjóri Þjóðleikhússins, gift dr. Hallgrími tónskáldi Helgasyni. Þórhallur, f. 1917, bankastjóri Búnaðarbanka Íslands í Rvík, kvæntur Esther Pétursdóttur, BS í röntgentækni. Agnar, f. 1919, frkvstj. búvöru- og útflutningsdeilda SÍS, búsettur í Kópavogi, kvæntur Hildi Þorbjarnardóttur. Þorbjörg, f. 1922, frkvstj. Fjölritunarstofu Daníels Halldórssonar, var gift dr. Ívari Daníelssyni, lyfsala í Rvík, þau skildu. Björn (1924?2004), cand. juris, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands í Rvík, kvæntur Kristínu Bjarnadóttur. Anna Guðrún, f. 1927, barnakennari, gift dr. Bjarna Guðnasyni norrænufræðingi, prófessor og alþm.


Jón Valur Jensson tók saman.


Helztu heimildir:

Kennaratal II, og (Þórhallur faðir hans) 307.
Guðfræðingatal 1847?1976, s. 416?17 og (Þórhallur faðir hans) 474?5.
Alþingismannatal 1845?1975, s. 409?411 og (Þórhallur faðir hans) 440?1.
Íslenzkar æviskrár V, 33.
Hver er maðurinn? II, 296.
ÞJ = Þorkell Jóhannesson prófessor: Tryggvi Þórhallsson, upphafl. birt í Andvara, endurpr. í Merkum Íslendingum VI (1957), 477?501.
AK = Andrés Kristjánsson: Tryggvi Þórhallsson, í: Þeir sem settu svip á öldina, ritstj. Sigurður A. Magnússon, Rv. 125?139; ennfremur er þar niðjatal Tryggva í tvo ættliði eftir Guðjón Friðriksson, s. xii-xiii.
Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson: Íslandssaga til okkar daga (Sögufélag 1991), bls. 383, 384, 387?9, 393, 447?8, 475, 479.
Jakob F. Ásgeirsson (ritstj.): 20. öldin, brot úr sögu þjóðar, Rv. 2000, bls. 95.
http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=582 (með mynd).
http://is.wikipedia.org/wiki/Tryggvi_Þórhallsson
Um frekari heimildir um Tryggva vísast til Guðfræðingatals og Alþingismannatals, en ekki sízt má nefna minningarrit Búnaðarfélagsins á aldarafmæli þess 1937.

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10996
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is