Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör


    

    

     
Upplýsingar:
Nafn:
Sigurður Ásmundsson
Mynd:
Mynd vantar
Heimili:
Melgerði 3
Staða:
Staður:
Reykjavík
Fæðingardagur:
01-02-1894
Kirkjugarður: Hafnarfjarðarkirkjugarður Dánardagur: 01-02-1985
Reitur:
A 17-30
Jarðsetningardagur:
08-02-1985
Annað:
Aldur: 91 árs

Umsókn um ævidrög Senda athugasemd.

Kort af kirkjugarðinum:
Opna PDF kort:

Söguágrip:
";;"

Staðreyndir um Kirkjugarð Hafnarfjarðar

Kirkjugarðurinn í Görðum á Álftanesi var útfarargarður Hafnfirðinga fram til ársins 1921, eins og annarra íbúa Álftanesshrepps hins gamla. Sumarið 1913 var Garðakirkjugarður orðinn of lítill og var þess vegna stækkaður nokkuð. Eftir að Fríkirkjan reis 1913 og Hafnarfjarðarkirkja (Þjóðkirkjan) 1914 þótti Hafnfirðingum óhentugt að þurfa að notast við Garðakirkjugarð. Leiðin var löng og ógreiðfær í gegnum hraunið meðfram sjávarsíðunni og þegar komið var að Dysjamýri tók Dysjabrú við, upphlaðin moldargata sem varð eitt moldarflag í votviðrum einkum þegar frost fór úr jörðu.

Kirkjugarður Hafnarfjarðar vígður

Haustið 1919 kusu söfnuðir kirknanna í Hafnarfirði fimm manna nefnd sem leggja átti drög að nýjum kirkjugarði. Bæjarstjórn lagði til kirkjugarðsstæði uppi á Öldum ofan og sunnan bæjarins á þeim stað sem kallast frá fornu fari Hvíldarbörð. Nafnið vísar til túnbala og moldarbarða þar sem bændur í kaupstaðarferð, vermenn og aðrir lestarmenn voru vanir að gera stans og hvíla sig áður en lagt var á Selvogsgötuna sem lá um austanverð börðin. Þótti garðstæðið hentugt, því undir moldarbörðunum var komið niður í þurran deigulmó, svo grafirnar voru þurrar.
Garðurinn var gerður samkvæmt fyrirmælum biskups og í samræmi við reglugerð um kirkjugarða frá 16. ágúst 1902. Framkvæmdir gengu vel og var Kirkjugarður Hafnarfjarðar vígður 3. mars 1921 að viðstöddu fjölmenni. Séra Árni Björnsson prófastur flutti vígsluræðuna og lík Einars Jóhannessonar Hansen var jarðsett. Hann telst því vera vökumaður garðsins. Söngflokkar beggja kirkna sungu við athöfnina. Þrátt fyrir tilkomu nýja kirkjugarðsins á Öldum fóru oft fram jarðarfararathafnir að Görðum, einkum framanaf. Þrátt fyrir að Garðakirkja hefði verið aflögð 1914, var hún notuð áfram sem útfararkirkja þegar svo bar undir. Síðasta athöfnin í Garðakirkju fór fram í maí 1937.

Flutningatæki

Fyrstu árin voru hestvagnar notaðir til að flytja líkkistur frá kirkjum bæjarins í kirkjugarðana, en árið 1938 festi Haukur Jónsson trésmíðameistari kaup á líkvagni af Ford-gerð. Þetta farartæki gegndi hlutverki sínu í 30 ár og er nú í vörslu Byggðasafns Hafnarfjarðar. Árið 1968 var nýr líkvagn keyptur og var hann í eigu kirkjugarðsins sem annaðist flutningana án endurgjalds. Var þessi vagn endurnýjaður 1991 en seldur árið 1997, þegar Kirkjugarði Hafnarfjarðar var gert að hætta allri starfsemi sem útfararþjónustuaðilar inna af hendi. Í stað líkbílsins voru fest kaup á pallbíl sem nýta má með ýmsu móti í þágu kirkjugarðsins.

Minningareitur og duftreitur

Annan dag Hvítasunnu, þann 1. júní 1998, sem bar upp á 90 ára afmæli Hafnarfjarðarbæjar, vígði séra Gunnar Kristjánsson prófastur Kjalarnessprófastsdæmis Minningarreit um horfna, drukknaða og látna ástvini í fjarlægð. Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hannaði reitinn og séra Gunnar valdi áletranir og táknmynd á steininn. Nærri minningarreitnum er verið að vinna að sérstökum reit fyrir duftker.

Helstu framkvæmdir

Hvað helstu framkvæmdir varðar í gegnum tíðina, þá má geta þess að steingarðurinn sem umlykur gamla garðinn á tvo vegu var steyptur 1934-35 og stækkaður 1945. Þá var einnig reist skýli fyrir gæslumann garðsins, en árið 1954 var annað skýli reist með klukknaporti. Við jarðarfarir er klukku þeirri sem þar hangir hringt, en skýlið hefur verið notað sem áhaldageymsla og vinnuskúr sumarfólks frá 1982. Árið 1969 ákvað stjórnin stækkun garðsins og byggingu líkhúss með kapellu og nokkru síðar var farið að aka fyllingarefni í reitinn suðvestan garðsins. Árið 1977 hófust framkvæmdir við garðinn og byggingu þjónustuhúss. Var fyrsti hluti nýja garðsins tekinn í notkun sumarið 1982 og seint sama ár var húsið tilbúið. Það hýsir skrifstofu fyrir presta og kapellu, lítið líkhús og áhaldageymslu. Arkitektar voru Þorvaldur S. Þorvaldsson og Manfreð Vilhjálmsson, byggingameistari var Hjálmar Ingimundarson, en Sigurður Arnórsson sá um aðdrætti og hafði eftirlit með smíðinni. Árið 1997 var hafist handa við að lagningu varanlegrar raflagnar í jörðu og uppsetningu ljósastaura í garðinum og lauk þeirri vinnu 1. desember 1998. Þörfin fyrir stærri kirkjugarði leiddi til þess að hafist var handa við enn frekari stækkun 2003. Gamla starfsmannaskýlið hefur þjónað tilgangi sínum í hálfa öld en stendur ekki lengur undir lágmarks kröfum um aðbúnað. Þessvegna hófst í ágúst 2005 vinna við rúmlega 150 fm starfsmanna- og þjónustuhús við nýja innkeyrslu í garðinn á móts við Hvammabraut. Húsið verður fullbúið vorið 2006 og þar verður jafnframt klukknaport kirkjugarðsins.

Stærð garðsins og skráning gagna

Elsti garðurinn er 1,8 hektarar að stærð og þar eru 3400 grafarstæði og nýrri hluti garðsins er 2,2 hektarar og þar eru rúmlega 2000 grafarstæði og enn bætast við um 600 grafarstæði á nýjustu reitunum. Fyrirhugað er að stækka garðinn enn frekar og mun nýi hlutinn verða norðaustan Kaldárselsvegar þar sem gert er ráð fyrir 3500 grafarstæðum. Næsta verkefni verður að marka Kirkjugarði Hafnarfjarðar nýtt svæði í upplandi bæjarins og kemur Kjóadalur helst til greina.
Frá upphafi var legstaðaskrá Kirkjugarðs Hafnarfjarðar rituð í þar til gerða legstaðabók. Veturinn 2000-2001 var skráin færð inn í tölvugrunn og er nú aðgengileg öllum landsmönnum á veraldarvefnum á slóðinni gardur.is.

Kirkjugarðsverðir og starfsfólk

Það hafa fjórir menn gegnt stöðu kirkjugarðasvarðar við Kirkjugarð Hafnarfjarðar frá vígslu hans. Fyrstur var Jón Þorleifsson 1921-54, síðan Gestur Gamalíelsson 1955-82, þá Sigurður Arnórsson 1982-97 og núverandi kirkjugarðsvörður er Arnór Sigurðsson, sem tók við starfinu af föður sínum 1997. Kirkjugarðsvörður er í raun forstöðumaður garðsins og ábyrgur fyrir starfsemi hans. Yfir vetrartímann eru þrír fastir starfsmenn í garðinum, þ.e. kirkjugarðsvörður og tveir til viðbótar, en á sumrin fjölgar starfsfólki sem annast umhirðu garðsins um 8-10 manns.

Stjórn Kirkjugarðs Hafnarfjarðar

Árið 1930 kusu söfnuðir Hafnarfjarðarkirkju og Fríkirkju sameiginlega kirkjugarðsstjórn til að sjá um rekstur garðsins og framkvæmdir í honum. Jón Þorleifsson kirkjugarðsvörður var kjörinn fyrsti formaður kirkjugarðsstjórnar en meðstjórnendur voru Finnbogi J. Arndal og Sigurgeir Gíslason frá Hafnarfjarðarkirkju og Friðfinnur V. Stefánsson og Guðmundur Einarsson frá Fríkirkjusöfnuði.
Formennsku í kirkjugarðsstjórn hafa gegnt Jón Þorleifsson 1930-54, Jón Gestur Vigfússon 1955-65, Jón Pálmason 1965-75, Eggert Ísaksson 1975-95 og Jónatan Garðarsson frá 1996.
Núverandi stjórn er þannig skipuð: Jónatan Garðarsson formaður frá Ástjarnarsókn, Hallgrímur Jónasson frá Víðistaðasókn, Hjalti Jóhannsson frá Fríkirkjusöfnuði og Magnús Sigurðsson frá Hafnarfjarðarsókn.

Kirkjur, söfnuðir og helgir staðir

Hafnarfjörður skiptist í þrjú prestaköll, Hafnarfjarðar-, Víðistaða- og Ástjarnarbrauð, en að auki eru nokkur trúfélög og söfnuðir í bænum, þar á meðal Fríkirkjusöfnuður og kaþólskur söfnuður.

Fríkirkjan var reist 1913 eftir teikningu Davíðs Kristjánssonar og vígð 14. desember sama ár. Turninn var stækkaðu 1931og viðbætur byggðar við kirkjuna 1982. Fríkirkjan var endurvígð 1998 eftir endurbætur á innviðum hennar. Altarismyndina málaði Ágúst Lárusson og myndir á predikunarstól og skírnarfonti málaði Hanna Davíðsson.

Hafnarfjarðarkirkja var byggð árið 1914 og vígð 20. desember það ár. Arkitekt var Rögnvaldur Ólafsson húsameistari ríkisins. Altari kirkjunnar, altaristafla, gráður ásamt pílárum, skírnarsár og predikunarstóll komu úr Garðakirkju sem var lögð niður þegar Hafnarfjarðarkirkja var vígð.

Bygging Víðistaðakirkju hófst 1981 eftir teikningum Óla G.H. Þórðarsonar og var kirkjan vígð 28. febrúar 1988. Langveggi Víðistaðakirkju prýða freskumyndir eftir Baltasar Samper.

Haustið 2001 var Ástjarnarsókn stofnuð til að þjóna nýju byggðahverfunum í Áslandi og á Völlum. Nýrri kirkju hefur verið mörkuð lóð við Kirkjuvelli suðvestan við íþróttamannvirki hverfanna og þar mun væntanleg kirkjubygging rísa.

Kaþólsk kapella, áföst við St. Jósefsspítala, var blessuð 5. september 1926 en aflögð eftir að kaþólsku systurnar seldu íslenska ríkinu spítalann 1988. Þá var hafist handa við byggingu nýrrar kirkju eftir teikningum Knúts Jeppesen. Sankti Jósefskirkja var vígð 3. júlí 1993 og 4 árum síðar voru krossferilsmyndir eftir svissnesku listakonuna Bradi Barth settar upp. Nunnur hafa stafrækt Karmelklaustur frá árinu 1946. Árið 1950 fannst líkneski heilagrar Barböru í tóft í Kapelluhrauni þar sem talið er að kaþólsk kapella hafi staðið.

Krýsuvíkurkirkja er í umsjá Þjóðminjasafns Íslands og þjónað af prestum Hafnarfjarðarkirkju yfir sumartímann. Beinteinn Stefánsson byggði kirkjuna 1857 en hún var afhelguð 1929. Krýsuvíkurkirkja var endurvígð eftir endurbætur 31. maí 1964. Þar er forn kirkjugarður sem síðast var jarðsett í 1997.

Á Hvaleyrargranda var fyrsta lútherska kirkja landsins, Hannenforder Kirche sem þýskir kaupmenn byggðu 1533-37. Kirkjuhúsið stóð til 1608 og þar mun hafa verið kirkjugarður að því er sagnir herma. Ennfremur var hálfkirkja og kirkjugarður á Hvaleyri sem lítið er vitað um þar sem kirkjan var aflögð 1765.

Kirkjugarður Hafnarfjarðar á Öldum var vígður 1921 og tók við af Garðakirkjugarði sem grafarkirkjugarður Hafnfirðinga. Áfram var jarðsett í Garðakirkjugarði um árabil og hann endurvígður og stækkaður 1976.

Jónatan Garðarsson tók saman


Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Frá Hafnarfjarðarkirkjugarði [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Arnór Sigurðsson
Fjöldi þekktra legstaða:
7202
Símanúmer:
Prófastsdæmi:
Kjalarnesprófastsdæmi
Netfang:
Heimasíða: