Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Thora Melsteð
Heimili:
Fæðingardagur:
18-12-1823
Staða:
Dánardagur:
21-04-1919
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
00-00-1919
Reitur:
Z-224
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Neðangreind ævidrög eru kostuð af KGRP:

Fyrsta forstöðukona Kvennaskólans í Reykjavík:
Þóra Melsteð

Thora Charlotte Amalie Grímsdóttir (Johnson), síðar Melsteð, var fædd 18. desember 1823 í Skelskør á Sjálandi, dóttir Gríms Jónssonar, bæjarfógeta þar, sem skömmu síðar varð amtmaður Norður- og austuramtsins, og k.h. Birgitte Cecilie, f. Breum, prestsdóttur frá Jótlandi, sem var norsk í föðurætt, en józk að móðurkyni. Var Þóra yngst sjö systkina og fluttist hingað til Íslands 18 vikna með foreldrum sínum. "Geit var höfð með í ferðinni, og skipsdrengurinn mjólkaði hana tvisvar á dag handa hvítvoðungnum ... Litla stúkan þreifst vel á geitarmjólkinni, var frísk og hress í sjóvolkinu á fyrstu ferð sinni til Íslands," sem tók um það bil fjórar vikur (GPH). Hér dvaldist hún með foreldrum sínum á Möðruvöllum í Hörgárdal til 10. aldursárs. Þegar hún var tveggja ára, brann amtmannssetrið til kaldra kola, en nýtt hús, Friðriksgáfa, var reist í staðinn; Jónas Hallgrímsson orti um það kvæði sem hann nefndi Möðruvallasteinhús. Þóra hlaut mjög trúarlegt uppeldi hjá móður sinni, sem sagði börnum sínum margar sögur úr Biblíunni, aldrei nein ævintýri. Einnig söng hún með þeim sálma fagurri röddu, og segist Þóra hafa "skynjað trúna af lífi og sál." Þrátt fyrir aðkenningu hennar til þunglyndis og tilheyrandi umkvartana síðar á ævinni "gætir hvergi minnsta hiks í trúarlífi hennar, það virðist einn sterkasti þátturinn í skapgerð hennar" (GPH, 12). Auk þess að leiðbeina börnum sínum í hannyrðum kenndi móðirin þeim undirstöðuatriði í almennri þekkingu, svo sem teikningu. Var mikið teiknað á Möðruvöllum, og á 9. ári gefur Þóra föður sínum listilega vel gerðar myndir á afmæli hans (sjá GPH, 13). Báðir foreldrarnir tömdu þau við að hugsa og búa þau undir fræðslu, en Þóra lærði að lesa 5?6 ára gömul. Hún var rólynt og dreymið barn og kvaðst hafa leitað oft í "frjálsræði hinnar fögru náttúru Guðs". Ein barna þeirra amtmannshjóna staðfestist hún hér á landi til lengdar, en tvö þeirra dóu barnung. Níu ára gömul hélt hún með fjölskyldunni aftur til Danmerkur, þar sem Grímur varð þá bæjarfógeti í Middelfart. Til er vitnisburður frá konu, sem varð Þóru samferða til Hafnar, um að þessi stúlka hafi þá verið "eins og hafin yfir allan hversdagsleikann," og lærði konan af henni "kynstrin öll af versum og vísum, sem litla telpan þuldi og fór svo fagurlega með" (GPH). Hefur hún trúlega kynnzt bæði Jónasi Hallgrímssyni og frænda sínum Grími Thomsen í heimsóknum þeirra að Möðruvöllum. Í Middelfart hlaut hún góða menntun og lærði þá m.a. þrjú 'lifandi' tungumál, frönsku, þýzku og ensku. Þegar faðir hennar hélt enn til Íslands 1842, þar sem hann tók aftur við amtmannsstarfinu, varð Þóra eftir ásamt öðrum úr fjölskyldunni og stundaði nám í Kaupmannahöfn til 1846, í hannyrðum og ýmsum bóklegum fræðigreinum, m.a. sömu þremur tungumálum. Sumarið 1847 kom hún ásamt Ágústu systur sinni heim til 'einbúans' föður þeirra í Friðriksgáfu. Voru það gleðifundir. Þá er hún 23ja ára, "nettlega vaxin, fríð og spengileg, og dökkt, mikið hárið liðast um vangann" (GPH). Fóru þær systur margar ferðir um landið með föður sínum og tóku þátt í húshaldi hans, en hann var þá heilsuveill orðinn. Eftir áfallið mikla, þegar hann var hrópaður af í norðurreið bænda 1848, og lát hans 1849 varð Þóra heimilismaður hjá föðursystur sinni Ingibjörgu og manni hennar, Þorgrími Tómassyni (foreldrum Gríms skálds), á Bessastöðum. Ágústa systir hennar hélt telpnaskóla í Reykjavík 1851-54 í Dillonshúsi við Suðurgötu (húsið er nú á Árbæjarsafni), og kenndi Þóra þar frá hausti 1852; þar hlutu 20-30 dætur "betra fólks" fræðslu í mörgum greinum, m.a. tveimur tungumálum, frönsku og þýzku. Sumarið 1853 deyr móðir þeirra systra, en skólinn hætti síðan af óvissum ástæðum, sennilega mest vegna fjárskorts, um haustið 1854. Höfðu þær systur sótt um árlegan styrk til konungs, en áttu erfitt með að afla sér nauðþurfta, enda létu foreldrar þeirra engan arf eftir sig. "Eiríkur Magnússon í Cambridge kveður svo að orði um telpnaskólann löngu síðar, að þær systur hafi fyrstar hafið "disciplineraða skólafræðslu kvenna á Íslandi" og lagt þar "gjörva hönd á gott verk"" (GPH, 24).


Var nú Þóra næstu árin lengstum hjá frænku sinni á Bessastöðum, var þó með hugleiðingar um að hverfa til kennslustarfa í Danmörku sumarið 1858, en ekki varð úr, og gekk hún svo í hjónaband með Páli Melsteð á næsta ári. Í morgungjöf færði hann henni Brattholt í Biskupstungum. Hann var þá ekkjumaður, 47 ára, en brúðurin tæpra 36 ára, og áttu þau þó eftir að halda upp á gullbrúðkaup sitt. Var ávallt mjög kært með þeim hjónum. Páll gegndi sýslumannsstörfum í Gullbringu- og Kjósarsýslu (1858-63), auk þess að vera alþingismaður Snæfellinga, en hafði mestar taugar til að verða rithöfundur og skólakennari við latínuskólann og tókst það með því að framleyta sér að auki sem málflutningsmaður í landsyfirdóminum (1862-86). Þóra annaðist heimilishaldið og ól upp stjúpbörn sín. 1870 fór hún ferð til Kaupmannahafnar. Nokkrum árum síðar, í andstöðu við fordóma, tókst þessari baráttu- og hugsjónakonu ásamt manni sínum að afla fylgis og fjár til að koma á fót Kvennaskólanum í Reykjavík, 1. október 1874, á heimili þeirra að Thorvaldsensstræti 2. Til þess þurfti almenn samskot, Þóra heklaði m.a. marglitt gólfteppi, og voru happdrættismiðar fyrir því seldir bæði hér og í Danmörku. Þannig fengust nærri 200 krónur, sem urðu undirstaða Styrktarsjóðs við Kvennaskólann í Reykjavík. Árið 1878 byggðu þau hús, sem enn stendur, á grunni hins gamla, og þar var kvennaskólinn til húsa, unz nýtt og mikið hús var byggt við Fríkirkjuveg árið 1909. Kennslugreinar Þóru voru handavinna, skrift, danska og stærðfræði. Á afmælisdegi sínum 1890 stofnaði hún Systrasjóð Kvennaskólans í Reykjavík, sem hún reyndi að efla á alla lund. Hún veitti skólanum forstöðu til 1906, hlaut þá verðleikagullpening frá Friðriki konungi VIII og var fyrsta konan hér á landi sem hlaut þá viðurkenningu. Við stjórn skólans tók þá Ingibjörg H. Bjarnason. Síðasta vetur Þóru við skólann stunduðu 56 stúlkur þar nám, en sjö árum seinna um 130. Fram til 1904 áttu íslenzkar stúlkur engan kost á æðri menntun innanlands utan kvennaskóla, en skólinn hefur ekki aðeins sannað gildi sitt og ágæti fyrir konur, heldur er hann nú í fremstu röð framhaldsskóla á Íslandi og reyndar opinn báðum kynjum. Þóra stofnaði með manni sínum Styrktarsjóð, og gekk til hans meginhluti þess sem þau létu eftir sig, m.a. húseign þeirra hjóna, og nam hann þá rúmum 20.000 króna sem þá var mikið fé. Skyldi sjóðnum varið til að styrkja efnilegar ungar stúlkur sem vildu ganga í alla bekki skólans, og er árlega úthlutað úr honum. Þóra andaðist þann 21. apríl 1919, á 96. ári. Hún var fríð kona, fíngerð og höfðingleg, en átti þyngri lund en hennar glaðsinna maður og var oft einmana á efri árum, þótt hún nyti mikillar virðingar. Vel var hún menntuð á þeirra tíma mælikvarða og hélt styrkum höndum um stjórn Kvennaskólans, í meðbyr sem mótlæti. Hún var reglusöm um allt, þó ekki ströng, vann að skólamálum í anda Grundtvigs og nýrra tíma og þeirrar vakningar sem ríkti í Danmörku um menntun kvenna. Brautryðjandastarf hennar á Íslandi verður seint metið að verðleikum. Maður hennar (13. nóv. 1859), Páll Melsteð sagnfræðingur, f. 1812, lézt árið 1910, á 98. aldursári. Þeirra farsæla hjónaband var barnlaust, en sjálf leit Þóra á námsmeyjar sínar sem dætur sínar.



Heimildir:
Bezta heimildin er: Guðrún P. Helgadóttir: kaflinn 'Þóra Melsteð' (=GPH), í bókinni Kvennaskólinn í Reykjavik 1874?1974 (Rvík, Almenna bókafélagið, 1974), bls. 7?88 (þar eru góðar myndir af Þóru á bls. 7, 17, 35 og 86). Einnig er víðar fjallað um Þóru í því 335 blaðsíðna riti, einkum ritgerð Aðalsteins Eiríkssonar, 'Saga skólans', bls. 89 o.áfr.
Kennaratal II, 220 (með mynd).
Hver er maðurinn? II, 286-7.
Íslenzkar æviskrár, V, 69?70; II, 102; IV, 131-2.
http://kona.bok.hi.is/kvennasoguslodir.htm
http://www.bjorn.is/greinar/1999/05/29/nr/36
http://www.skolavefurinn.is/_opid/_valmynd/almennt/frettir/timabil/2004/januar/ (þar á að vera hægt að komast inn á sérstaka æviságrips-vefslóð um Þóru).
Aðrar heimildir, sem vísa má til:
Páll Melsted: Endurminningar, Kh. 1912 (endurprentaðar í bókinni Brautryðjendur, þrjár sjálfsævisögur: Páll Melsteð ? Tryggvi Gunnarsson ? Jón Ólafsson); Sunnanfari, VIII; Unga Ísland, 5. árg.; Æskan, 9. árg.; Óðinn, XX, o.fl., en sjá umfram allt fyrstnefnda ritið hér ofar.

 

Jón Valur Jensson ættfræðingur tók saman.
 

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10995
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is