Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Þuríður Friðriksdóttir
Heimili:
Bollagötu 6
Fæðingardagur:
27-04-1887
Staða:
Dánardagur:
13-12-1954
Kirkjugarður:
Fossvogskirkjugarður
Jarðsetningardagur:
18-12-1954
Reitur:
F-20-30
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Þessi grein er kostuð af KGRP.

Verkalýðsfrömuður og kvæðakona:

Þuríður Friðriksdóttir

Þuríður Friðriksdóttir var fædd að Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi (Kirkjuhvammshreppi, V?Hún.) þann 27. apríl 1887, dóttir Friðriks Gunnarssonar, bónda þar, á Bergsstöðum og víðar, og konu hans Sigurlaugar Gunnlaugsdóttur frá Hrútatungu og Óspaksstöðum í Hrútafirði. Þuríður fluttist árið 1914 til Reykjavíkur í atvinnuleit, um það leyti sem vélvæðing og stórbrotnir atvinnuhættir voru að ryðja sér hér til rúms með allnokkurri auðsöfnun, en vaxandi verkalýðsstétt að komast til meiri sjálfsvitundar og eflingar samtaka sinna. Vildi Þuríður skipa sér í sveit þeirra sem börðust fyrir rétti verkafólks og bágstaddra. Var hún ásamt manni sínum félagi í fyrsta jafnaðarmannafélaginu í Reykjavík, starfaði um skeið í Verkakvennafélaginu Framsókn, en gerðist svo frumkvöðull að stofnun Þvottakvennafélagsins Freyju í Reykjavík 1932 og var formaður þess til æviloka. Var hún fulltrúi þess á Alþýðusambandsþingum, í Fulltrúaráði verkalýðsins og hvers konar samtökum sem félagið tók þátt í. "Hún var ekki einungis formaður félagsins í venjulegum skilningi, heldur má segja, að það félag væri í rauninni eitt af börnum hennar. Með svo heitu þeli vakti hún yfir velferð þess og félagskvennanna" (SvJ). Hún átti lengi sæti í Mæðrastyrksnefnd og starfaði mörg ár í Kvenréttindafélaginu. Þá helgaði hún sig ennfremur félagsskapnum "Vorboðanum", sem rak stórt vistheimili á sumrin fyrir fátæk börn, og nutu sín þar dugnaður hennar, hugkvæmni og gott hjartalag. Hún var einnig virkur félagsmaður í Alþýðuflokknum um mörg ár og síðar í Sameiningarflokki alþýðu ? Sósíalistaflokknum, var stofnfélagi hans og starfaði í kvennasamtökum hans. Sat hún um hríð í miðstjórn flokksins. Hún var einnig áhugasamur félagi í Húnvetningafélaginu. Ásamt þremur systkinum sínum og fleira fólki stofnaði hún kvæðamannafélagið Iðunni árið 1929 (stofnfélagar voru 33). Var hún þar virk á fundum og kvað kvenna bezt. Sjálf var hún snjall hagyrðingur, og nú er hægt að hlusta á hana fara með ýmsar stemmur á veraldarvefnum (sjá neðar). Eitthvað mun prentað af ljóðum hennar, t.d. stökur í blaðinu 19. júní árið 1955. "Vísur hennar voru hagar að formi og oftast gneistar úr afli heitra og stundum nokkuð sárra tilfinninga" (SvJ). Þessi hringhenda er ein þeirra:


Gróa vallargrösin smá,

glitra um hjalla og bala.

Enn mig kallar einhver þrá

upp til fjalla og dala.


Bróðir hennar Björn var kunnur hagyrðingur og kvæðamaður, og munu skörp greind og lífsfjör hafa einkennt þau systkini öll frá Bergsstöðum, en Þuríður var yngst þeirra. Eitt síðasta verk hennar í þágu Iðunnar var að stjórna afmælishófi félagsins, sem hún gerði með minnisstæðum glæsibrag. Þuríður var hreinskilin kona, skapheit, einbeitt, baráttuglöð og vel máli farin. Hún fekk þann vitnisburð úr röðum fólks í andstæðri stjórnmálahreyfingu, að hjartaþel hennar, hugarstyrkur og skörungsskapur fyrnist seint. "Þuríður var fríð kona sýnum, bæði um andlitsfall og limalag og gædd mjög ríkum kvenlegum þokka. Þegar hún hreifst af einhverju, brunnu augu hennar og eins og lýsti af henni allri" (SvJ). Þessi aðsópsmikla, hjartagóða baráttukona andaðist þann 13. des. 1954. ? Maður hennar (23. marz 1918) var Þorlákur G. Ottesen, f. 18. júlí 1894, verkstjóri við Reykjavíkurhöfn. Börn þeirra voru Hulda bankaritari, Ása félagsmálafulltrúi hjá Rvíkurborg, Sigurlaug starfsmaður Tryggingastofnun ríkisins, Friðrik bifreiðarstjóri og ökukennari á Höfn í Hornafirði, Kristín forstöðukona fyrir Mæðraheimili Reykjavíkurborgar og Sigríður iðnverkakona.


Jón Valur Jensson tók saman.


Heimildir:
1. Íslenzkar æviskrár, VI, 517 (þar er þó rangt farið með fæðingarmánuð hennar)
2. Svava Jónsdóttir (SvJ): 'Þuríður Friðriksdóttir', æviágrip í Æviminningabók Menningar- og minningasjóðs kvenna, I (1955), 157?9.
3. http://www.rimur.is/?i=2 og fleiri vefsíður kvæðamannafélagsins Iðunnar.
4. Á vefslóðinni http://www.tonlist.is/ViewAlbum.aspx?AlbumID=5399 eru mörg sýnishorn af stemmum sem Þuríður kveður.
5. Á vefslóðinni http://gegnir.is eru fleiri vísanir á kvæðasöng hennar o.fl.
6. Laufey Vilhjálmsdóttir mun hafa skrifað eftirmæli um Þuríði í tímaritið 19. júní árið 1955, ennfremur má benda á afmælisgrein um hana í Alþýðublaðinu 27. apríl 1937 og minningargrein í Þjóðviljanum 18. des. 1954.
7. Bára Grímsdóttir tónskáld (ýmsar viðbótaruppl., m.a. vísur eftir Þuríði).

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Fossvogskirkjugarður er löngu orðinn samgróinn borgarmyndinni með sínum beinvaxna trjágróðri og stílhreinu byggingum. En garðurinn þótti mjög óhentugur og út úr í upphafi. Fólk var vant að ganga á eftir líkfylgdinni upp í gamla garðinn við Suðurgötu og mátti ekki til þess hugsa að fara alla leið út í Fossvogsgarð með sína nánustu sem kvatt höfðu þennan heim. Jónas Jónsson ráðherra og Knud Zimsen borgarstjóri áttu hugmyndina að garðstæðinu.
Kirkjugarðurinn í Fossvogi er um 28, 2 hektarar að stærð, og er þá talið með svæðið vestast í garðinum, sem tekið var í notkun 1987. Á miðju ári 1982 var búið að nýta allt land innan marka garðsins, og var þá öll nýgreftrun færð yfir í Gufuneskirkjugarð. Með viðbótinni frá 1987 fékkst rúm fyrir 3900 grafir í viðbót. Áætlað er að um 40 þús. legstaðir verði í Fossvogskirkjugarði. Á miðju ári 1997 höfðu 26.476 grafir verið teknar í garðinum.
Fyrsti maðurinn sem grafinn var í Fossvogskirkjugarði var Gunnar Hinriksson vefari. Hann var jarðsettur 2. september 1932 og er hann því vökumaður garðsins.

Duftgarðurinn í Fossvogi var tekinn í notkun 1950 skömmu eftir vígslu Fossvogskirkju. Árið 1991 var hafist handa um viðamikla endurgerð duftgarðsins, sem nú er lokið.
Á miðju sumri 1994 hófst vinna við gerð duftreits fyrir fóstur á svæði ofan sumarbústaðarlands, sem gengur inn í kirkjugarðinn að sunnanverðu. Reiturinn var vígður 16. september 1994.

Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Mynd úr garðinum [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
33977
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is