Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör


    

    

     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Aðalbjörg Sigurðardóttir
Heimili:
Ásabyggð 5
Fæðingardagur:
10-01-1887
Staða:
Húsmóðir
Dánardagur:
16-02-1974
Kirkjugarður:
Kirkjug. Akureyrar - Naustahöfða
Jarðsetningardagur:
25-02-1974
Reitur:
B3-60
Annað:
Senda athugasemd.

Ítarefni. Þessi grein er kostuð af KGRP.

Hugsjónakona um kvennréttindi og guðspeki:
Aðalbjörg Sigurðardóttir

Aðalbjörg Sigurðardóttir var fædd þann 10. janúar 1887 í Miklagarði í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði, dóttir hjónanna Sigurðar bónda Ketilssonar (d. 1899) og Sigríðar Einarsdóttur frá Árgerði (d. 1929). Aðalbjörg var bráðgjör, vel gefin og námfús. 13 ára fór hún í Kvennaskóla Akureyrar, var þar við nám tvo vetur, 1900?1901 og 1902?3, og lauk þá prófi þaðan. Með hæstu einkunn, sem gefin hafði verið, lauk hún svo prófi frá kennaradeild Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1905, þá 18 ára. Hún sótti námskeið í Kennaraskóla Íslands 1908 og 1916. Til að tryggja sér einnig starf á sumrin lauk hún námi frá Mjólkurskólanum á Hvítárvöllum 1906. Fór námsför til Noregs 1910 og Englands 1921, þar sem hún kynnti sér kennsluaðferðir Maríu Montessori. Hún var heimiliskennari á Möðruvöllum í Eyjafirði 1903?4 og hjá Einari Þorgilssyni útgerðarmanni í Hafnarfirði veturna 1905?7, en rjómabústýra á sumrin í Fljótshlíð og síðar í Svarfaðardal. Kennari við barnaskólann á Akureyri 1908?18 (alla skólastjóratíð Halldóru Bjarnadóttur, sjá æviágrip hennar). Þar hóf hún einnig félagsmálastörf sín, var í Kvenréttindafélaginu og Sjálfstæðisfélaginu Skjaldborg, sem barðist fyrir sjálfstæði landsins, auk þess að starfa að því sem hreif hana mest, en það var guðspekihreyfingin. Hún var húsmóðir í Reykjavík frá 1918, seinni kona manns síns, prófessors Haraldar, sem átti fimm börn fyrir; fylgdu henni sjálfri tvær gamlar konur á heimilið, og tvö börn eignaðist hún með manni sínum, sem hún missti eftir 10 ára sambúð. Þetta var því mannmargt heimili, þótt eldri börn Haraldar væru orðin uppkomin, en þó tókst henni að sinna miklum félagsstörfum.


Aðalbjörg var formaður skólanefndar barnaskólanna í Reykjavík 1930?37 og Laugarnesskóla 1938?42 og 1946?50. Átti hún sæti í fræðsluráði um skeið. Aldrei lét hún bindast stjórnmálaflokki, en átti þó sæti á framboðslista Framsóknarflokksins við bæjarstjórnarkosningar 1930, varð þannig varabæjarfulltrúi í Reykjavík 1930?38 og gegndi starfinu að mestu í forföllum aðalfulltrúa. "Hún var flugmælsk og skýr ræðumaður og hafði yndi af að fræða" (STh). Formaður milliþinganefndar, er samdi lög um barnavernd, 1930, og fór ferð um Norðurlönd sama ár til að kynna sér þau mál. Sat í barnaverndarnefnd Reykjavíkur frá byrjun til 1938. Í framhaldi af því var hún fengin til að annast kvikmyndaeftirlit ríkisins og gerði það um hálfan fjórða áratug, 1933?68. Þegar skipuð var milliþinganefnd til að semja frumvarp að fræðslulögum, átti engin kona sæti í nefndinni. Landsþing Kvenfélagasambands Íslands 1943 skoraði á ráðherra að bæta úr því, og var Aðalbjörg skipuð í nefndina (1943?48); varð það starf mjög stefnumótandi í menntamálum næstu áratuga. Sama landsþing KRFÍ kaus Aðalbjörgu í nefnd til að semja álit að tilhögun húsmæðraskólanna, og gætti áhrifa þeirrar nefndar verulega við lagasetningu um það efni (STh). Þá starfaði hún mikið að félagsmálum kvenna. Hún var lengi varaformaður Kvenréttindafélags Íslands (frá 1930) og átti þar góðan þátt í framgangi mála. Formaður Bandalags kvenna var hún 1944?1966. Var hún í hópi þeirra kvenna Bandalagsins, sem vöktu þá hreyfingu til hagsbóta fyrir börn borgarinnar, sem leiddi til stofnunar Barnavinafélagsins Sumargjafar, og í stjórn þess sat hún lengi (STh). Stóð einnig að stofnun Mæðrastyrksnefndar. Varaformaður Kvenfélagasambands Íslands var hún 1943?1961, sat áður í varastjórn frá 1935. Ferðaðist hún mikið á vegum sambandsins og flutti ótal erindi, ekki sízt um fræðslumál. Einnig kom hún oft fram erlendis fyrir hönd sambandsins, og geta má þess, að erindi, sem hún flutti á þingi Norræna húsmæðrasambandsins 1960, þótti svo snjallt, að sænska útvarpið falaðist eftir því (STh). Aðalbjörg var gjaldkeri Friðarvinafélags Íslands.


Trúmál og andans mál voru henni mikið hugðarefni, og leitaði hún þar raka og skilnings. Hallaðist hún snemma að guðspekistefnunni, en síðar að kenningum Indverjans Krishnamurtis og fylgdist með ritum hans og erindum fram á elliár. "Hún var móðir guðspekihreyfingarinnar á Íslandi," segir dr. Pétur Pétursson, "og störf hennar að félagsmálum voru innblásin af hugsjónum hennar." Var hún einn af stofnendum Guðspekifélags Íslands 1912 og starfaði í því til 1929. Stofnaði hún leshring um það málefni á Akureyri og var ein helzta driffjöðrin í guðspekistúkunni Systkinabandinu á Akureyri. Hún var formaður félagsins Stjarnan í austri, þar til það var leyst upp 1929 (félagið gaf út samnefnt tímarit). Hún var einnig áhugasamur spíritisti eins og maður hennar Haraldur. Þrátt fyrir þessi áhugamál hvarf hún ekki úr kirkjunni, en var meðal stofnenda Óháða safnaðarins í Reykjavík. Hún mun hafa verið fyrsta konan, sem steig í stól í íslenzkri kirkju, árið 1969, og flutti þá páskaræðu að beiðni séra Emils Björnssonar, forstöðumanns safnaðarins. Annars flutti hún líka fjölda erinda, m.a. í útvarp, um uppeldismál, kvennamálefni, áfengismál, spíritisma, guðspeki, kenningar Krishnamurtis o.fl., og voru sum þeirra prentuð, t.d. í Skólablaðinu (m.a. Ný stefna í skólamálum, 1919), Ganglera (greinarnar Krishnamurti, 1928, Köllun konunnar, s.á., Játning mín, 1929, og Minningarorð, 1934) og í Morgni. Hún skrifaði einnig margar blaðagreinar. Grein hennar 'Lífsviðhorf mitt' birtist í bókinni Játningar (útg. Símon Jóhs. Ágústsson, Rvík 1948). Hennar eigið frumsamda verk er því ærið að vöxtum, en bíður þess enn, að það verði gefið út í heild. Aðalbjörg þýddi allmörg rit: sögurnar Ída Elísabet (Sigrid Undset), 1947, Ævintýri skátastúlknanna (A.H. Frederiksen), 1947, Skátastúlka í blíðu og stríðu (sami höf.), 1948, og Skátastúlka ? stúdent (sami höf.), 1949. Gaf út og þýddi það, sem til er á íslenzku eftir J. Krishnamurti, m.a. Ræðu og kvæði flutt við eldana í Ommen 1927 (Rv. 1927) og Skuggsjá I?VI, 1930?38. Einnig gaf hún út þessi rit eftir Harald Níelsson: Árin og eilífðin II (1928), Kristur og kirkjukenningarnar (1929) og Bænir (1930). Aðalbjörg hafði starfsþrek fram á elliár. Hún sagði í blaðaviðtali á áttræðisafmæli sínu: "Ég hef átt ákaflega hamingjusama ævi, því svo mikið af hugsjónum mínum hefur rætzt." Átti hún þó sínar andstreymisstundir og sorgarskugga, en lét það ekki villa sér sýn. "Minning hennar verður tengd baráttu fyrir réttindum barna og kvenna, fyrir frjálshuga trúarleit, fyrir bættum heimi" (STh). ? Hún varð riddari Fálkaorðunnar 1957, var ennfremur heiðursfélagi Kvenréttindafélags Íslands og Barnavinafélagsins Sumargjafar. Aðalbjörg lézt 87 ára að aldri þann 16. febrúar 1974 og hafði þá lifað mann sinn í nær 46 ár. ? Maður hennar (2. okt. 1918): Haraldur Níelsson (1868?1928), prestur og prófessor í guðfræði, mikilvirkur Biblíuþýðandi og vinsæll predikari, og var hún seinni kona hans. Börn þeirra: Jónas Halldór (Jónas Haralz), f. 1919, hagfræðingur og bankastjóri, Bergljót Sigríður, f. 1922, stúdent, kona Bjarna Rafnar, yfirlæknis á Akureyri.

 


Jón Valur Jensson tók saman.


Heimildir:
Hver er maðurinn I (1944), bls. 1.
Kennaratal I (1958), s. 2 og 266; III (1985), 3.
Íslenzkir samtíðarmenn I (1965), bls. 8.
Reykjavík. Bæjar- og borgarfulltrúatal (1986), 9?10.
Æviminningabók Menningar- og minningarsjóðs kvenna, V (1984), 7?8: æviþáttur Aðalbjargar eftir Sigríði Thorlacius (STh).
http://www.hi.is/Apps/WebObjects/HI.woa/wa/dp?detail=1005134&name=frettasida (fregn af háskólafyrirlestri dr. Péturs Péturssonar: Íhygli og athafnaþrá: Um ástir og hugsjónir Aðalbjargar Sigurðardóttur, einkum um trúarreynslu hennar, 27.10. 2005).
http://www.kistan.is/efni.asp?n=1429&f=3&u=64
http://www.ismennt.is/not/birgirb/hofoggr.html (höfundaskrá Ganglera).

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort

Söguágrip:
Eins og greint er frá í bók Sverris Pálssonar, Akureyrarkirkja, „Uppi á Höfðanum var að öllu athuguðu skásta kirkjugarðsstæðið í nágrenni kirkjunnar, grasi gróinn moldarjarðvegur og sæmileg jarðvegsdýpt.” Landið var hluti af jörðinni Naustum, sem þá var eign séra Daníels prófasts Halldórssonar á Hrafnagili. Haft er fyrir, satt að hann hafi gefið Akureyrarkaupstað landsskika uppi á Naustahöfða undir kirkjugarð, og er eftirfarandi glefsa úr Norðanfara einkum höfð til marks um það. Hún er úr grein sem rituð var í júlí mánuði 1877 og undirskrifuð „Nokkrir Akureyrarkauspstaðbúar”. Þar stendur. „Vér höfum nú að vísu heyrt, að þegar kirkja vor var orðin fullgjör, hafi nokkrir bæjarbúar samið við prestinn um, að honum skyldi heimilt að búa á Hrafnagili í næstu 5 ár gegn því, að hann eftirléti kaupstaðnum blett úr landi eignarjarðar hans, Nausta, til kirkjugarðsbyggingar” Á þessum tíma var búið að reisa kirkju á lóð þar sem Minjasafnið á Akureyri stendur nú. Beint undir brekkunni þar sem kirkjugarðinum var ætlaður staður. Fljótlega eftir vígslu kirkjugarðsins fóru að heyrast raddir um að flytja þyrfti kirkjugarðinnn ofanaf brekkunni og að kirkjunni. Ætla mætti að erfitt hafi verið að koma kistu upp þessa bröttu brekku frá kirkju að kirkjugarði amk. að vetri til. Það eitt hefði verið fullgild ástæða til að óska eftir flutningi garðsins. En svo var ekki, ástæðan var að menn töldu þetta ekki vera næganlega gott grafarstæði. Það fór þó svo að garðurinn var ekki fluttur og stendur enn.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Thumbnail - Akureyrarkirkjugarður [ Skoða fleiri myndir ] Víðmynd, tekin í kapellu við Akureyrarkirkjugarð. [ Skoða ]
Víðmynd, tekin innan úr garðinum. [ Skoða ]
Víðmynd, tekin innan úr garðinum - 2. [ Skoða ]
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Smári Sigurðsson
Fjöldi þekktra legstaða:
7977
Símanúmer:
462 2613
Prófastsdæmi:
Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi
Netfang:
Heimasíða: