Skarðskirkjugarður er í Hvammsprestakalli í Snæfellsnes og Dalaprófastsdæmi. Skarðskirkja var lengi höfuðkirkjan í Skarðsþingum. Kirkja sú er nú stendur á Skarði var smíðuð á árunum 1914-1916 upp úr eldri kirkju sem fokið hafði af grunni. Skarðskirkja á stórmerka gripi. Má þar fyrst nefna altarisbrík með alabastursmyndum frá 15. öld. Munnmæli herma að Ólöf ríka hafi gefið kirkjunni bríkina. Predikunarstóllinn er frá 17. öld, gefinn til minningar um Daða Bjarnason (1565-1633), bónda á Skarði, og konu hans, Arnfríði Benediktsdóttur (1569-1647). Eru myndir þeirra á stólunum ásamt fleiri myndum.
|