Bær og kirkjustaður í innanverðum Svarfaðardal. Urðir voru höfðingjasetur og höfuðból fram eftir öldum. Í miklu ofviðri, sem gekk yfir Norðurland hinn 20. september árið 1900 fauk Urðarkirkja og brotnaði í spón. Var það veður oft kallað Kirkjurokið í Svarfaðardal því að allar kirkjurnar fjórar í dalnum fuku, ýmist til á grunni eða alfarið. Ný kirkja var smíðuð fljótlega.
|