Glæsibær er bær og kirkjustaður í Kræklingahlíð, u.þ.b. 10 km norðan Akureyrar. Þar voru kaþólskar kirkjur helgaðar heilögum Nikulási. Útkirkjur voru í Lögmannshlíð og á Svalbarði. Prestakallið var lagt niður 1880 og öll Glæsibæjarsókn og ytri hluti Lögmannshlíðarsóknar voru lagðar til Möðruvalla. Timburkirkjan í Glæsibæ var byggð 1865. Þorsteinn Daníelsson byggði hana. Endurbygging að hluta fór fram 1929. Kirkjan var upphafleg íbúðarhús á Ósi í Hörgárdal, byggt 1858. Silfurkaleikurinn ber ártalið 1612 (eða 1672) og Arngrímur Gíslason, málari, málaði altaristöfluna líklega nálægt 1870. Meðal góðra bóka kirkjunnar er Þorláksbiblía.
|